Í júlí árið 2015 fórst Arthur, 15 ára sonur Nicks Cave, af slysförum. Nú rúmu ári síðar hefur Cave ásamt hljómsveit sinni The Bad Seeds gefið út plötu, Skeleton Tree, og fylgt henni úr hlaði með heimildarmynd eftir Andrew Dominik. Myndin segir frá gerð plötunnar í skugga sonarmissis.
Andrew DominikPlatan var langt komin þegar Arthur dó, en var ekki fullunnin fyrr en í ár. Þótt maður gæti haldið að sumir textanna á plötunni séu viðbrögð við slysinu þá er það ekki svo, og Cave segir í myndinni að auðvitað hafi þeir ekki haft neitt forspárgildi, hann hafi alltaf fjallað um dauða, myrkur og angist – sem vissulega er rétt, en nú hefur alvaran snúið öllu á haus, allt er breytt.
One More Time with Feeling
2016
Myndin er ákafalega haganlega gerð, samsett úr fjölmörgum þáttum, en hún fléttar saman viðtölum við Cave, eiginkonu hans Susie, son hans Earl og samstarfsmann og vin, Warren Ellis. Hún er ýmist tekin í stúdíóinu – þar sem hvert lag á plötunni fær sitt rými – eða á heimili hans, auk skota frá London, Brighton og umhverfi. Þá kommenterar Cave á senur í myndinni auk þess að lesa yfir myndina nokkra texta/ljóð sem eru greinilega ort í kjölfar slyssins.
Það má segja að Cave hafi verið sagnamaður, epíkin aldrei langt undan í hans fyrri verkum, en nú hefur hann misst trú á frásögnina. Trámað verður aldrei afgreitt á þann hátt …Þetta er auðvitað ákaflega vandmeðfarið efni, sárasti missirinn, en hér er fjallað um það á mjög svo fíngerðan, hófstilltan, en þó tilfinningaþrunginn hátt. Myndin er þannig alveg einstaklega áhrifamikil hugleiðing um tráma og sorg. Það hjálpast allt að, tónninn í viðtölunum, einföld, jafnvel hrá, áleitin tónlistin og mögnuðu textarnir sem Cave les. Hér er gerð tilraun til að segja frá tráma, að koma því til skila, en um leið er áherslan hjá Cave sjálfum og kvikmyndagerðarmanninum sú að það sé í raun vonlaust verk. Myndin og Cave hafa því margt að segja sem rímar við það sem trámasérfræðingar hafa löngum sagt, að trámað liggi utan við hefðbundna frásögn, það eigi sér stað einhvers staðar annars staðar. Slysinu sjálfu, viðbrögðum og dögunum á eftir er því aldrei lýst í myndinni, það er aldrei fært í frásögn, heldur er það eins og þung undiralda út í gegn. Cave segir í einni af fyrstu senum myndarinnar að lífið sé ekki frásögn – og það má segja að sú hugmynd leggi grunninn að brotakenndri uppbyggingu myndarinnar þar sem aldrei er nein sjálfvirk framvinda, heldur ólíkir þættir settir saman og áhorfandinn minntur reglulega á gerð myndarinnar sjálfrar. Kvikmyndagerðarmaðurinn er þó ekki endilega sammála Cave og segir að lífið sé að sjálfsögðu frásögn með sinn náttúrulega upphaf og endi, en Cave segir að það sé ekki boðið uppá frásagnarboga sem útskýri og sýni hvernig eitt leiði af öðru, hvernig allt sé í einhverju lógísku framhaldi og skipulagi. Þvert á móti sé aldrei nein lausn í sjónmáli. Það má segja að Cave hafi verið sagnamaður, epíkin aldrei langt undan í hans fyrri verkum, en nú hefur hann misst trú á frásögnina. Trámað verður aldrei afgreitt á þann hátt, en þó er algjörlega skýr tilfinning fyrir hvörfunum sem slysið olli – allt hefur breyst, hann þekkir ekki sjálfan sig lengur og segir „the person inside the skin is a different person“. Þau hjónin eru máttvana gagnvart sorginni, byrjendur, þau hafa ekkert svar, enga lausn, nema kannski þá að halda áfram, að halda áfram að vera hamingjusöm og að skapa. Hann hefur heyrt allar klisjurnar og í einni af áhrifamestu senum myndarinnar útskýrir hann að hann hafi heyrt svo oft að sonur hans lifi í hjarta hans, en að það sé einmitt ekki þannig, hann sé að sjálfsögðu í hjarta hans, en lifi alls ekki.
Í myndinni fléttast saman sköpun – tónlistarsköpun – og tráma. Eins og Cave nefnir er okkur kannski tamt að líta svo á að áföll geti verið einhvers konar uppspretta sköpunar, þar verði til verk sem hefðu ekki verið gerð annars, það gefi manni „eitthvað til að skrifa um“. Cave segir hins vegar að svo sé ekki, tráma sé eyðileggjandi afl, þar rúmist engin sköpun. Í tráma er ekkert pláss fyrir neitt annað en trámað. Hins vegar mætti segja að myndin afsanni það að einhverju leyti, því hún fjallar auðvitað um sköpun en þá kannski frekar á þann hátt að sköpunin eigi sér stað þrátt fyrir áfallið, verði til í einhverju öðru rými en þar sem sorgin býr.
Eins og segir í einum textanna sem Cave les yfir myndina: „Það er meira af Paradís í helvíti en okkur hefur verið sagt“.Og það er einmitt það sem myndin fjallar líka um, þetta líf utan trámans. Cave lýsir því sem svo að áfallið sé lokað af á ákveðnum stað, en utan þess sé einhvers konar venjulegt líf og þar sé hægt að halda áfram og jafnvel komast burt frá áfallinu um tíma, en það kallar alltaf á þau aftur og dregur þau til sín, þau eru bundin því um ókomna tíð. Þetta líf utan sorgarinnar sést einkum í senunum í stúdíóinu og það er undirstrikað á ýmsan hátt í myndinni. Stúdíóið er hringlaga (og þó nokkuð er unnið með hringformið í myndmálinu) og þar ríkir velvild og hlýja. Það kemur ekki síst fram í samskiptum Caves við Warren Ellis, en með stuttum senum, setningum hér og þar og augnatilliti sýnir myndin að á milli þeirra er traust, hlýja, húmor, sköpunarþörf og listfengi. Eins og segir í einum textanna sem Cave les yfir myndina: „Það er meira af Paradís í helvíti en okkur hefur verið sagt“.
Lystibryggjan (Brighton Marine Palace and Pier). Ljósmynd: Linda France
Í Brighton, heimabæ þeirra hjóna, eru tvær bryggjur – lystibryggjur eins og algengar eru í breskum strandbæjum.
Önnur þeirra, sú sem stendur austar, heitir því virðulega nafni Brighton Marine Palace and Pier og fagurhvít, full af leiktækjum af öllum sortum og fólki að skemmta sér í sólinni. Sú vestari er niðurnídd, brunnin allt að því til kaldra kola og rís úr sjónum eins og beinagrind til að minna strandfólkið á hverfulleikann og dauðann. Þeim bregður báðum fyrir í mynd Dominiks, en svarthvít myndatakan hjá Benoît Debie og Alwin H. Küchler hæfir efninu einkar vel og skapar áhrifamikla kontrasta ljóss og skugga, og bryggjurnar eru viðeigandi táknmyndir um sorgina óbærilegu og lífið sem heldur þó einhvern veginn áfram.
[fblike]
Deila