Ljóðin hennar Vilborgar

Ljóðasafn Vilborgar Dagbjartsdóttur sem kom út á síðasta ári hefur ábyggilega orðið fleirum en mér yndisauki. Það er mikill fengur að hafa fengið nýtt heildarsafn ljóða eftir þetta öndvegisskáld okkar en áður hafði slík bók komið út 1981.[i]

Nýja safnið hefur að geyma allar sex ljóðabækur Vilborgar, Laufið á trjánum (1960), Dvergliljur (1968), Kyndilmessu (1971), Klukkuna í turninum (1992), Fiskar hafa enga rödd (2004) og Síðdegi (2010). Auk þess er þar að finna 16 ljóð sem birtust í blöðum og tímaritum á áratugnum 1971–1981, fimm ljóð sem væntanlega eru til komin eftir 2010 og loks upp undir 20 þýdd ljóð eftir ýmis skáld.
Vilborg Dagbjartsdóttir
Ljóðasafn
JPV útgáfa, 2015
Þar af eru þrjú eftir Önnu Akhmatovu (1889–1966) sem mátti þola ýmiss konar harðræði í heimalandi sínu, Rússlandi, á Stalínstímanum en hún kemur líka við sögu í einu þekktasta kvæði Vilborgar, „Kyndilmessu“. Hún hefur því verið Vilborgu hugstæð. Bókin hefur svo að geyma inngang eftir Þorleif Hauksson „Bak við marglitan glaum daganna. Vilborg Dagbjartsdóttir og ljóðin hennar“. Þetta er mjög gagnleg lesning eftir bókmenntafræðing sem er vel kunnur skáldinu en áður hefur Þorleifur skráð aðra af tveimur ævisögum Vilborgar, Úr þagnarhyl sem kom út 2011.[ii]

Vissulega er það svo að ljóðasafnið hefur ekki að geyma öll ljóð Vilborgar. Þar er t.a.m. ekki að finna tvö fyrstu kvæðin sem hún birti þegar árið 1954. En segja má að hér liggi fyrir hið „kanóníseraða“ eða opinbera safn hennar allt til þessa dags. Það er mikill munur á slíkum safnritum og þeim ljóðaúrvölum sem oft eru gefin út nú um stundir. Ljóðaúrval er auðvitað handhægt fyrirbæri sem þjónað getur ýmsum tilgangi, verið til kynningar og þjónað sem áhugakveikja.

Segja má að hér liggi fyrir hið „kanóníseraða“ eða opinbera safn hennar allt til þessa dags.
Gallinn við þau er að þau birta alltaf ritstýrða eða hagrædda mynd sem ritstjórinn býr til út frá einhverjum fyrirfram gefnum en ekki alltaf vel skýrðum viðmiðunum. Með hjálp þeirra er aldrei hægt að skapa sér sína eigin sýn á höfundarverkið. Það gera aftur á móti ljóðasöfn á borð við það sem Þorleifur Hauksson og JPV útgáfa hafa nú látið okkur í té. Auk þess unaðar sem í lestrinu fæst má nota safnið til til rannsókna og kannana af margvíslegum toga.

Yrkisefni og ljóðform Vilborgar eru af ýmsu tagi. Þar er t.a.m. að finna þetta litla ljóð há-prósaískt að efni til en ljóðrænt að formi:

Ritvélin gamla
varð að fara í viðgerð
Ég  sakna hennar
[iii]

Í sama flokki („Átta hækur“) er einnig að finna þetta ágenga erindi:

Sumartunglið rís
þú stendur þegjandi
biður mig um svar
[iv]

Og loks þessa sáru játningu:

Ég grét ekki þá —
en nú eftir hálfa öld
hrynja sölt tárin
[v]

Vilborg hefur einnig ort lengri og flóknari kvæði eins og hið djúpsálarfræðilega ljóð „Lausn“ þar sem hún hverfur aftur til bernskureynslu sinnar við brunnana miklu á Vestdalseyrinni forðum. Einnig má benda á fyrrnefnda „Kyndilmessu“ sem er há-guðfræðileg.[vi] Sjálfur hef ég einnig staldrað við ljóðið „Rof“ sem er heillandi tvírætt. Þetta ljóð getur í senn verið lýsing á hverdagslegri reynslu af svefnrofum eða dulinni opinberun sem aðeins gerist einstöku sinnum.[vii] Sú merking sem við ljáum þessu ljóði og mörgum öðrum fer líklega mjög eftir reynsluheimi okkar hvers um sig.

Í ljóðheimi Vilborgar gætir margra blæbrigða.
Lengi vel hlaut Vilborg mjög kynjaðar umsagnir um ljóð sín sem þóttu kvenleg, þokkafull, hljóðlát og einlæg.[viii]  Hafi þetta mat einhverntímann átt við er svo ekki nú þegar litið er yfir æviverkið. Í ljóðheimi Vilborgar gætir margra blæbrigða. Hún leggur vissulega með ýmsum hætti út af reynslu sinni og tilfinningum sem var karlskáldur líklega ekki eins tamt um það leyti sem þessir dómar voru felldir. Í ljóðunum gætir þó einnig róttækrar afstöðu hennar og harðrar þjóðfélagsgagnrýni og á það bæði við um heimsmálin og kynjapólitíkina.[ix]

Hér skal staldrað við eitt ljóð „Dýrleif grætur“ úr einni af síðari bókunum, Klukkunni í turninum:

Þær eru líka á leiðinni í skólann
Klukkan í turninum er að verða
og Dýrleif grætur
Við erum of seinar, segir hin
Nei, segi ég, það er ekki búið að hringja
Hvers vegna er Dýrleif að gráta?
Varla er það hennar sök
að við verðum of seinar —
og hvað gerir það til
þó svo væri?
En Dýrleif grætur
Það er ekki þér að kenna!
Það er ekki þér að kenna
endurtek ég rólega
og reyni að stugga burt angistinni
sem á sér dýpri rætur
handa við þennan hversdagsgráa morgun
og klukkan í turninum byrjar að slá.
[x]

Ljóðið bregður upp mynd frá dimmum vetrarmorgni. Tveim litlum stúlkum og roskinni kennslukonu reynist Skólavörðuholtið þungt fyrir fæti, hátt uppi yfir þeim gnæfir klukkan, vísarnir telja niður og loks byrjar klukkan að slá. Þær eru orðnar of seinar og það reynist einni þeirra um megn. Dýrleif grætur sáran!

Ljóðið vitnar um djúpan og einlægan húmanisma sem kemur virkt fram við hversdaglegustu aðstæður.
Vera má að einhverjum virðist þetta kvenleg ljóðmynd. Hér er ekki litið svo á. Þetta er ljóð um djúpa samkennd með lítilmagna — kennari setur sig í spor nemanda — markvissa viðleitni til að byggja upp, höfnun ofurhlýðni við reglur, skilning á að undir niðri bærast aðrar og miklu sárari tilfinningar en ótti við að koma of seint. Ljóðið vitnar um djúpan og einlægan húmanisma sem kemur virkt fram við hversdaglegustu aðstæður. Við þetta er ekkert kvenlegt nema þá í afar jákvæðri merkingu. Ljóðið fjallar nákvæmlega um það sem þessi heimur okkar þarfnast í dag: Vakandi samstöðu og skilning.

Ljóðasafn Vilborgar Dagbjartsdóttur er falleg bók yst sem innst. Kápumyndin spilar t.d. skemmtilega saman við þetta erindi úr „Maríuljóði“:

Það hrundu fáein blóm
úr vendinum hennar í vor;
þau vaxa síðan við hliðið
ljómandi falleg og blá.
[xi]

Það er sálarbót að dvelja við ljóðin hennar Vilborgar og láta hana ljúka upp leyndardómunum sem búa „bak við marglitan glaum daganna“.

[line]
[i] Vilborg Dagbjartsdóttir, Ljóð, Reykjavík: Mál og menning, 1981.
[ii] Þorleifur Hauksson, Úr þagnarhyl. Ævisaga Vilborgar Dagbjartsdóttur, Reykjavík, Mál og menning, 2011. Sjá og Kristín Marja Baldursdóttir, Mynd af konu. Vilborg Dagbjartsdóttir, Reykjavík: Salka, 2000.
[iii] Vilborg Dagbjartsdóttir, Ljóðasafn, bls. 156.
[iv] Vilborg Dagbjartsdóttir, Ljóðasafn, bls. 157.
[v] Vilborg Dagbjartsdóttir, Ljóðasafn, bls. 157.
[vi] Vilborg Dagbjartsdóttir, Ljóðasafn, bls. 73–78, 90–92.
[vii] Vilborg Dagbjartsdóttir, Ljóðasafn, bls. 226.
[viii] Þorleifur Hauksson, „Bak við marglitan glaum daganna. Vilborg Dagbjartsdóttir og ljóðin hennar“, í: Vilborg Dagbjartsdóttir, Ljóðasafn, Reykjavík: LPV útgáfa, 2015, bls., 7–28, hér bls. 15–16.
[ix] Sjá t.d. Vilborg Dagbjartsdóttir, Ljóðasafn, bls. 53–54, 100, 104–105.
[x] Vilborg Dagbjartsdóttir, Ljóðasafn, bls. 136.
[xi] Vilborg Dagbjartsdóttir, Ljóðasafn, bls. 46 sjá og bls 95.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila