Erótík og örvænting

Og frá fyrsta andartaki var rödd þín fyrir mér sem raf og smiðjureykur af tjöruviði. Á einhvern hátt of dökk og djúp fyrir svo grannan líkama (27).

Katja Kettu
Ljósmóðir af guðs náð
Þýð. Sigurður Karlsson
Mál og menning, 2015
Myndmál og orðfæri Kötju Kettu er bæði framandi og lokkandi, rauður þráður sem leiðir lesandann í gegnum átakanlega ástarsögu frá tíma seinni heimsstyrjaldarinnar. Verkið segir frá ástarsambandi samfélagslega útskúfaðrar ljósmóður, Villiauga, og SS-foringjans Jóhannesar sem vill ekkert frekar en að flýja fortíð sína.

Þessi finnska skáldkona, sem var gestur Bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík síðastliðinn september, vefur texta sinn með því að nýta sér skynfærin til hins ítrasta. Hún notar m.a. lykt og áferð til þess að soga lesendur inn í atburðarásina:

Andartak ímyndaði ég mér að ég sæi sams konar opinberun og í Parkkina forðum þegar englarnir þrír léku á básúnur […] En þessi opinberun var öðruvísi. Lyktaði marga metra af berki og inngrónum karlasvita (95).

Stíll höfundarins er skýr og afgerandi, textinn er ljóðrænn og vekur sterk hughrif. Verkið er brotin frásögn sem púslast saman í huga lesandans eftir því sem á líður. Katja flakkar fram og til baka í tíma, segir stundum frá sama atburði tvisvar frá mismunandi sjónarhorni og er túlkun persónanna æði ólík. Það veldur því að erfitt er að henda reiður á persónum. Katja aðstoðar lesandann örlítið með því að láta Jóhannes segja frá í þriðju persónu en ljósmóðirin sjálf segir frá í fyrstu persónu. Sendibréf og aðrar slíkar millifrásagnir eru skýrt afmarkaðar með kaflaskilum og skáletrun.

Verkið er þó að mörgu leyti frekar tilfinning en beinlínis frásögn.
Sagan gerist í Finnlandi, þar sem Villiauga hefur lifibrauð af því að aðstoða konur við barnsburð. Einnig hefur hún græðarahendur og mikla jurtakunnáttu, sem kemur henni vel í erfiðum aðstæðum. Þrátt fyrir þessa hæfileika er hún útskúfuð af sama samfélagi og nýtur kunnáttu hennar, ekki síst fyrir þá sök að vera rangeygður „rauðliðahóruungi“. Þegar Villiauga sér Jóhannes gerir hún hvað sem er til þess að vera nálægt honum. Hún lætur jafnvel senda sig til vinnu í sömu fangabúðir og hann, enda bíður hennar ekkert á heimaslóðum nema fyrirlitning þess sama fólks sem sárbænir hana um hjálp á raunastundum. Ólíkar skyldur beggja setja stein í götu þeirra en að lokum takast með þeim ástir. Spurningin er hins vegar hvort sú ást er nógu sterk til að þola grimmdarverkin sem framin eru í fangabúðunum og eftirköst þeirra.

Verkið er þó að mörgu leyti frekar tilfinning en beinlínis frásögn. Höfundur reynir að setja lesandann inn í hugarástand fólks í aðstæðum sem þessum, en Villiauga og Jóhannes eyða hvað mestum tíma í návígi hvort við annað í finnsk-þýsku fangabúðunum. Bæði gera þau hvað sem þarf til þess að lifa af, hvort sem það er að skálda upp fullkomna framtíð eða draga hulu yfir sársaukafulla fortíð sem er uppfull af ósegjanlegum voðaverkum.

Stærsta spurning verksins er þessi: „Hvað gerir manneskju að manneskju?“ (295) Villiauga telur að það sé „[m]álið og ósnertanleikinn“ (295). Lesandinn dregur síðan sínar eigin ályktanir, ef svar er í raun og veru hægt að fá við slíkri spurningu. Sagan býr yfir sterkum andstæðum, þar sem myndmál tilfinningahita og ástríðu rekst harkalega á við vonleysi, örvæntingu og þau óhæfuverk sem framin eru þegar öll mörk hins mannlega hafa verið þurrkuð út.

Katja Kettu segir í samtali við Morgunblaðið, þann 15. september síðastliðinn:

Ég skrifa um at­b­urði frá þess­ari löngu liðnu styrj­öld til að minna okk­ur á að í öll­um stríðum er farið illa með konur og börn. Ég vil líka minna á hvernig við mann­eskj­urn­ar verðum í stríði. Fyrst verður fólk hrætt og í sjokki, síðan dofn­ar það upp og neyðist til að gera allskon­ar hluti sem það gat aldrei ímyndað sér að það gæti gert. Að lok­um ger­ir það hvað sem er til að lifa af. Fólk breyt­ist í skepn­ur. Við höld­um alltaf að við séum betri mann­eskj­ur en þær sem gera skelfi­lega hluti í stríði, en við get­um ekki dæmt fólk, því við vit­um ekki hvernig við sjálf mynd­um bregðast við í þeirra aðstæðum.

Fangabúðirnar þar sem Villiauga og Jóhannes vinna saman kristalla þessa örvæntingu og þann siðferðislega dofa sem Katja fjallar um. Hún talar um í viðtalinu hvernig samúð okkar hefur dvínað og vill jafnframt með verki sínu minna á að „[v]ið verðum að hætta að flokka fólk eft­ir þjóðerni, stöðu, lit eða ein­hverju öðru, held­ur sem mann­eskj­ur“.

Verkið er því ekki bara endurlit fortíðar heldur einnig áminning til okkar eigin nútíðar og framtíðar. Þessi rannsókn á eðli mannsins, þegar hann stendur frammi fyrir ósegjanlegri grimmd, þvingar lesandann til að taka afstöðu sem hann er ekki vanur. Að finna til samkenndar með gerendum og sjá þau sem fórnarlömb ömurlegra og óhugsandi aðstæðna. Stíll bókarinnar, þessi brotna frásögn, endurspeglar þær brotnu manneskjur sem eru í aðalhlutverki verksins. Erótík, losta, örvæntingu og afneitun er haldið jöfnum höndum að lesendanum. Nútíðin, full af hryllingi, afbakar bæði fortíð og framtíð og skapar jafnframt siðferðislegan dofa.

Um höfundinn
Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir

Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir

Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir er með mastersgráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún er sérhæfð í mesópótamískum bókmenntum og vinnur að þýðingum þeirra, ýmist af súmersku eða akkadísku.

[fblike]

Deila