[container]
Ég hef verið límdur við Al Jazeera undanfarna daga. Að sjálfsögðu finnst mér framvinda mála í Egyptalandi nú í janúar-febrúar 2011 heyra til stórtíðinda í mannkynssögunni. Þótt erfitt sé að gera sér grein fyrir mikilvægi heimsviðburða í hita leiksins er greinilega ekki útilokað að byltingin á Tahrir-torginu marki meiriháttar tímamót. Þetta er enn sem komið er alþýðubylting, laus við trúarofstæki eða flokkadrætti, sem kann að vera boðberi nýrra tíma í arabaheiminum, í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs, ekki síst í þeim tveimur ríkjum sem þiggja lungann af bandarískri fjármagnsaðstoð til hermála: Ísrael og Egyptalandi. En vera kann að þetta hafi í för með sér afdrifaríkar breytingar um hinn svokallaða siðmenntaða heim allan, frá Sádí-Arabíu til Seltjarnarness.Því að önnur bylting er að eiga sér stað um leið. Ég, myglaður háskólakennari á hjara veraldar, sit límdur við tölvuna. Al Jazeera, sjónvarpsstöð með höfuðstöðvar í Doha í Katar, flytur mér lifandi myndir frá Tahrir-torginu í Kaíró, með ýtarlegum fréttaskýringum og athyglisverðum greiningum bæði frá fólkinu á staðnum og miklum fjölda hugsandi og áheyrilegra sérfræðinga, jafnt akademískra sem stjórnmálanna, um allan heim. Allt er þetta fólk það sem bandarískar sjónvarpsstöðvar kalla upp til hópa öfgamenn, þótt mér sýnist það vera mestmegnis afar traustir og grandvarir fréttaskýrendur. Og takið eftir: hjá Al Jazeera eru hvorki karlar né konur í meirihluta. Og svo sit ég uppfræddur og fréttaglaður og kveiki, myglaður háskólakennarinn og Seltirningur, á RÚV-fréttunum og þar blasir við allt önnur mynd, staðlaðar Reuters-fréttir af skriðdrekum og mótmælendum, líkt og annars flokks upphitun fyrir íþróttafréttir kvöldsins.
Vinur minn í New York sendir mér nær daglega tengla á fréttalágkúruna og lygavaðalinn í Bandaríkjunum – og við erum báðir gráti nær. En viti menn – nú berast þær fréttir að æ fleiri bandaríkjamenn séu að uppgötva Al Jazeera, enda læra þeir þar meira um eigið land á einum degi en af þarlendum sjónvarpsstöðvum á heilu ári. Byltingin í Egyptalandi er fyrst og fremst upplýsingabylting. Kannski er þetta eðli allra byltinga, þegar grannt er skoðað, a.m.k. utanhallar. Og nú er upprunnin upplýsingaöld.
It’ll soon shake your windows and rattle your walls, söng Dylan forðum, og svei mér ef það er ekki byrjað aftur. Það er sérstakur andi í loftinu, einhver óstöðvandi farsíma-Wikileaks-andi, og ég fylli hóp þeirra sem vildu gjarna sjá hann blása hressilega í okkar landi líka. The times they are a-changin’ – enn um hríð, vonandi.
[/container]