GildranSögusviðið er Reykjavík veturinn 2010–2011, eldfjallaaskan sem spýttist úr Eyjafjallajökli sumarið áður þyrlast enn um loftið og íslenska þjóðin er að takast á við eftirstöðvar bankahrunsins. Spennusagan sem hér um ræðir er fastbundin niður í tíma og rúmi og dregur lesandann með sér inn í tvöfalda glæpsamlega atburðarás í smáborginni Reykjavík, annars vegar kókaínsmygl aðalpersónunnar Sonju og hins vegar yfirheyrslur á bankastarfsmanninum Öglu, ástkonu Sonju, sem á milljónir í erlendu skattaskjóli eftir vafasöm viðskipti. Inn í söguna fléttast líka saga tollvarðarins Braga, forræðisdeila Sonju við barnsföður sinn, sem vill svo til að er líka samstarfsmaður Öglu, og síðast en ekki síst upplifun Tómasar litla, sonar Sonju, af þessum hasar. Lesandinn fær innsýn í hugsanir þeirra allra, sér sömu atburði frá ólíkum sjónarhornum og hefur færi á að tengjast persónunum býsna vel.
Lilja Sigurðardóttir
JPV 2015
… stuttir kaflar í þrillerstíl sem freista lesandans og tæla hann til að lesa einn í viðbót áður en slökkt er á náttborðslampanumGildran er vissulega spennusaga og virkar vel sem slík. Atburðarásin er ekki stórkostlega hröð en ætti þó að duga vel til að halda flestum áhugasömum í gegnum 344 síður. Þar spila ekki síður inn í tíðar skiptingar milli sjónarhorna og viðburða – stuttir kaflar í þrillerstíl sem freista lesandans og tæla hann til að lesa einn í viðbót áður en slökkt er á náttborðslampanum. Í sögulok gerast svo óvæntir atburðir, nýjar uppgötvanir breyta atburðarásinni og að lokum er skilið við persónurnar í lausu lofti – bókstaflega – fljúgandi yfir Atlantshafinu. Enginn veit hvað verður, sem væri bagalegt ef ekki væri fyrir þá staðreynd að höfundurinn hefur lofað tveimur bókum í viðbót um Sonju og félaga. Já, þetta er bara fyrsta bókin í þríleik, svo verið alveg róleg.
Við lesturinn komu augnablik þar sem mér fannst helst til langt seilst út fyrir ramma raunveruleikans. Kvöldmatur er snæddur á heimili mexíkósks eiturlyfjabaróns og á meðan étur tígrisdýr handlegg af manni – þarna fékk ég svipaða tilfinningu og ég hafði áður upplifað við lestur fyrstu skáldsögu Lilju, Spor (2009), þar sem maður gengur gyrtur sprengjubelti inn á Austurvöll og ætlar að sprengja sig í loft upp. Svona gerist nú ekki, hugsa ég og geri hinar rótgrónu íslensku raunveruleikakröfur til þess sem ég les. Það er engu að síður rétt sem ég hef heyrt íslenska glæpasagnahöfunda benda á að ef aðeins ætti að skrifa um glæpi sem gerast í raun og veru á Íslandi væri ekki úr miklu að moða. Á hinn bóginn má benda á að sjálfsvígsárásir á Austurvelli eru nær okkar raunveruleika í dag en árið 2009, svo kannski eru tígrisdýr smjattandi á mennskum handleggjum ekki svo fjarri lagi. Líklega er þetta bara spurning um að hætta að hugsa of mikið og lifa sig áhyggjulaus inn í söguna – og það er auðvelt í tilfelli Gildrunnar.
Gildran er saga um hinsegin konur, skrifuð af hinsegin konu sem þekkir það sem hún skrifar umGildran er alls ekki bara spennusaga heldur ástarsaga – saga af sambandi móður og sonar, eiginmanns og deyjandi eiginkonu en ekki síst ástum kvenna með öllum þeim flækjum og undrum sem þeim geta fylgt. Samband Sonju og Öglu er tilfinningaríkt en afar dramatískt, að hluta til vegna þess að báðar eru þær glæpakonur en ekki síður af því að Agla á erfitt með að horfast í augu við sjálfa sig og sínar kenndir. Hún er þjökuð af skömm og full af ást í senn og lausn hennar við þessum þversagnakenndu tilfinningum liggur á botninum í Jägermeisterflöskunni. Hér er ekki um að ræða steríótýpískar lesbíur sem annaðhvort deyja í sögulok eða sjá á endanum ljósið í sterkum karlmannsörmum (allavega ekki í þessari bók). Þetta er heldur ekki saga sem gengur út frá því að það að vera lesbía sé „bara alveg eins“ og að vera gagnkynhneigð kona. Gildran er saga um hinsegin konur, skrifuð af hinsegin konu sem þekkir það sem hún skrifar um. Hér er kafað ofan í reynsluheim sem er fullur af flækjum, skömm, mótsögnum, gleði, ástríðum og heitum tilfinningum sem oft er erfitt að finna farveg. Þegar þetta tvinnast svo saman við kókaínsmygl og tígrisdýr verður úr áhugaverð spennusaga með tilfinningalegri dýpt – saga sem spennandi verður að sjá hvernig þróast á næstu árum.[/x_text]
Deila