[container] Myndasagan á sér ekki langa sögu, en hefur verið ákaflega vinsælt tjáningarform víðsvegar um heim síðan hún kom fram á sjónarsviðið. Bandaríkjamenn eru frægir fyrir ofurhetjusögurnar sínar og Manga er örugglega eitt það vinsælasta sem Japan hefur fært heiminum, næst á eftir sushi. Hér á landi kannast svo flestir ef ekki allir við persónur eins og Tinna, Lukku Láka, Ástrík og Steinrík, svo ekki sé minnst á sjálfan Andrés önd. Vinsældir þessara myndasagna erlendis, sem og vinsældir þýðinganna sem komið hafa út hér á landi, urðu vitskuld til þess að Íslendingar fóru að spreyta sig í gerð teiknimyndasagna. Það er þó ekki hægt að segja að myndasöguiðnaður hérlendis sé gríðarstór eða gífurlega áberandi, en reglulega koma út bæði bækur og tímarit með verkum íslenskra höfunda sem standa erlendu efni ekkert að baki. Í jólabókaflóðinu í ár má eins og stundum áður finna ýmislegt góðgæti fyrir myndasöguunnendur.
Bók Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur, Lóaboratoríum, er nýkomin út en hún inniheldur stuttar myndasögur sem eru oft ekki nema ein til tvær myndir. Teikningar Lóu, sem lesendur gætu þekkt úr Fréttatímanum og The Reykjavík Grapevine, eru litríkar og gróteskar og sýna íslenskt samfélag í skemmtilegu og gagnrýnu ljósi. Þegar Lóa er spurð að því hvað hafi orðið til þess að hún fór út á þessa braut segist hún hafa lesið myndasögur og teiknað sjálf frá því hún muni eftir sér, oft ásamt öðrum ungum myndasöguhöfundi, Hugleiki Dagssyni (en þeir sem sakna þess að fá nýja bók eftir hann fyrir þessi jólin geta keypt sér dagatal með nýjum teikningum eftir hann í sárabætur). Það hafi síðan verið rökrétt framhald að prófa sig áfram í myndasögugerð „Ég hef gaman af að horfa á bíómyndir, lesa og teikna og myndasögur eru eins og sambland af þessu þrennu,“ segir Lóa. Hún segir ekki erfitt að koma myndasögum á framfæri, en Lóaboratoríum kemur út hjá Ókeibæ, forlagi sem sérhæfir sig í útgáfu myndasagna og barnabóka og starfar innan Forlagsins. Aðspurð að því hvort hún verði vör við fordóma gagnvart myndasögunni sem miðli svarar hún: „Nei, ég get ekki sagt það. Allir vinir mínir eru svo miklir nördar.“
Myndasagan Plantan á ganginum eftir systurnar Elísabetu Rún og Elínu Eddu Þorsteinsdóttur kom einnig nýverið út, en þó aðeins í 71 eintaki. „Við hugsuðum þetta meira fyrir okkur en markaðinn,“ segir Elísabet um útgáfuna, en sagan, sem fjallar um Geirþrúði sem tekur blóm og plöntur fram yfir fólk, hafði áður birst á netinu. Handritið og teikningarnar unnu systurnar í samvinnu, en báðar hafa þær setið námskeið í Myndlistarskólanum í Reykjavík, og Elísabet þar sérhæft sig í myndasögugerð. Um viðbrögðin við útgáfunni segir hún þær systur ekki hafa hlotið mikla athygli en það hafi sem þær hafi heyrt hafi verið afar jákvæt. Þó séu örfáir sem verði hissa á að sjá myndasögur sem ætlaðar eru fyrir fullorðna en ekki börn. Elísabet segir að vöxtur sé í gerð myndasagna á Íslandi og að þær systur muni ekki hætta eftir þessa bók. Reyndar sé Elín Edda þegar með aðra bók í bígerð.
Þær systur eiga það sameiginlegt með Lóu að hafa sett upp sýningu á Borgarbókasafninu í samvinnu við Úlfhildi Dagsdóttur, bókmenntafræðing, en hún hefur verið ötull stuðningsmaður íslenskra myndasagna í mörg ár. Úlfhildur, sem stjórnar hinni afar metnaðarfullu myndasögudeild Borgarbókasafnsins, lætur ekki sitt eftir liggja á þessu hausti. Hún sendi fyrir nokkrum vikum frá sér fræðirit sem ber heitið Myndasagan: Hetjur, skrýmsl og skattborgarar. Í bókinni er fjallað um allt mögulegt sem tengist myndasögum, þar á meðal sögu þeirra, menningarlega stöðu og frásagnareiginleika. Úlfhildur er einn helsti myndasagnasérfræðingur landsins, hún stendur reglulega fyrir sýningum á verkum íslenskra sem og erlendra myndasöguhöfunda á Borgarbókasafninu auk þess sem hún kennir námskeið um myndasögur í Myndlistarskólanum í Reykjavík, Háskóla Íslands og Listaháskólanum. Þess má geta að Lóa segir stuðning Úlfhildar hafa verið ómetanlegan fyrir sig sem myndasagnahöfund. Raunar gengur hún svo langt að segja að án Úlfhildar hefði Lóaboratoríum líkast til ekki komið út.
Þegar litast er umí heimi myndasagna á Íslandi þessi misserin er ekki hægt annað en að vera bjartsýnn á framhaldið. Útgáfa á þýddum myndasögum er í blóma eftir að hafa staðnað í allmörg ár og gróska er í gerð íslenskra myndasagna. Við þetta bætist svo að vettvangur fyrir fræðilega umræðu um myndasögur er að eflast. Fyrir utan útgáfu bókar Úlfhildar má nefna að nýverið héldu framhaldsnemar í Íslensku og menningardeild við Háskóla Íslands málþing þar sem myndasagan var í aðalhlutverki. Myndasagan, sem hefur verið hluti af íslensku menningarlífi um áraraðir, líkt og Úlfhildur rekur í bók sinni, er því augljóslega á uppleið.
Gréta Sigríður Einarsdóttir, meistaranemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu.
[/container]
Leave a Reply