Leg Hugleiks í uppfærslu Frúardags

[container] Söngleikurinn Leg eftir Hugleik Dagsson verður settur á svið af Frúardegi, öðru tveggja starfandi leikfélaga Menntaskólans í Reykjavík, nú í nóvember. Þetta mun verða fyrsta stóra uppfærsla Frúardags en Leg var upphaflega frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2007.

Komust ekki inn í Herranótt
Leikfélagið Frúardagur var stofnað fyrir fjórum árum af MR-ingunum Birni Jóni Sigurðssyni og Arnóri Gunnari Gunnarssyni. Sagan segir að þeir félagarnir hafi verið svekktir yfir því að fá ekki inngöngu í Herranótt sem var á þeim tíma eina starfandi leikfélag skólans. Jóhanna Embla Þorsteinsdóttir, formaður Frúardags, staðfesti þetta í samtali. „Arnór og Birnir höfðu oft tekið þátt í Herranótt áður en þetta árið komust þeir ekki inn. Þeir eru báðir með leiklistarbakteríuna og tóku því málin í sínar hendur og stofnuðu Frúardag. Þetta var samt eiginlega bara djók fyrst“. Þess má þó geta að Herranótt, sem hefur verið starfandi frá því á átjándu öld, byrjaði líka í gríni en upphaf leikfélagsins má rekja til uppistands nokkurra pilta í Skálholtsskóla þar sem þeir gerðu grín að ræðum presta. Frúardagur hefur verið misjafnlega virkur frá stofnun og síðustu þrjú ár hefur starfsemin verið í lágmarki. Nú hefur félagið verið endurvakið og uppfærslan á Legi er langsamlega stærsta verkefni þess hingað til.

Vettvangur fyrir listaspírur skólans
Að sögn Jóhönnu Emblu er talsverður áherslumunur milli leikfélaganna tveggja. „Herranótt hefur undanfarin ár sett upp leikverk í þyngri kantinum. Síðustu tvö leikrit leikfélagsins voru Títus eftir Shakespeare og Doktor Fástus eftir Gertrude Stein. Frúardagur leggur hins vegar meiri áherslu á aðrar listrænar hliðar leikhússins, svo sem tónlist, myndlist og dans. Þannig er Frúardagur vettvangur fyrir krakka í alls konar listum, en ekki bara þá sem hafa áhuga eingöngu á leiklist.“ Frúardagur er því á margan hátt ákveðið mótvægi við Herranótt, rétt eins og nafnið gefur til kynna.

Stofnendur Frúardags leikstýra
Jóhanna Embla segir að söngleikurinn Leg hafi orðið fyrir valinu sem fyrsta stóra uppfærsla Frúardags vegna þess að hún sjálf hafi orðið „ástfangin af soundtrackinu“. Tónlistin leikur stóra rullu í söngleiknum en hún var flutt af tríóinu Flís þegar verkið var á fjölum Þjóðleikhússins fyrir sjö árum. Þegar Jóhanna Embla og félagar hennar í Frúardegi grennsluðust fyrir um nótur af tónlistinni kom í ljós að þær voru ekki til. „Flís virðist hafa spilað alla tónlistina utanbókar. Sem betur fer fengum við tvær einstaklega hæfileikaríkar tónlistarkonur, þær Evu Hauksdóttur og Ingibjörgu Helgu Steingrímsdóttur, til þess að sjá um tónlistina, og þeim tókst að „pikka upp“ lögin og útfæra þau í samstarfi við meðlimi hljómsveitarinnar.“

Stofnfélagar Frúardags, Arnór Gunnar Gunnarsson og Birnir Jón Sigurðsson leikstýra uppfærslunni en aðeins tvö ár eru liðin frá útskrift þeirra úr Menntaskólanum í Reykjavík. Birnir er enn smitaður af leiklistarbakteríunni og hefur unnið við ýmislegt því tengt frá útskrift. Arnór er hins vegar tónlistarmaður. Öll umgjörð sýningarinnar er í höndum nemenda Menntaskólans í Reykjavík og öflugt teymi sér um sjónræna hlið hennar, sem vegur ansi þungt.

 Leg verður frumsýnt þann 14. nóvember í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði og sýningarnar verða fjórar talsins.

 Nína H. Þorkelsdóttir, MA-nemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

[/container]

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *