Söngleikurinn Moulin Rouge var frumsýndur i Borgarleikhúsinu í lok september. Sýningin er þannig úr garði gerð að nær ómögulegt er að skrifa gagnrýni um hana án þess að koma aftur og aftur að þessum staðreyndum.
Brynhildur Guðjónsdóttir leikstýrir þessari stóru sýningu og hefur með sér danshöfundinn Kristy McDonald, sem vinnur þar í fyrsta skipti á Íslandi en vonandi ekki því síðasta. Tónlistarstjórn er í höndum Jóns Ólafssonar og Bragi Valdimar Skúlason hefur fengið það vandasama verk að þýða tugi þekktra popplaga sem blandast inn í atburðarásina.
Söngleikurinn er byggður á kvikmynd Baz Luhrmann en hefur verið uppfærður með lagavali og aðlöguðum frásagnarstíl sem hentar leikhúsinu betur. Að færa sýninguna yfir á íslensku og til Íslendinga er svo enn einn umsnúningurinn og þar tekst Brynhildi og listræna hópnum ætlunarverk sitt með glæsibrag.
Ástralski leikstjórinn Baz Luhrmann gerði myndirnar Strictly Ballroom árið1992 og Rómeo+Juliet 1996 og strax mátti sjá í myndum hans sérstakan frásagnarstíl þar sem blandað er saman ástarsögum með dansi og gáska og póstmódernískri nútímavæðingu á klassísku verki – báðar einkennast af leikgleði, snerpu, ofgnótt menningarlegra tilvísana og litadýrðar. Næst kom Moulin Rouge árið 2001 og þar hélt Baz enn lengra í sömu átt. Handritið byggði á klassískum grunni með vísunum í Orfeus og Evridís, La Traviata og la Boheme, reyndar Pagliacci líka ef vel er að gáð, en hinn hámenningarlegi farangur er tekinn niður af hámenningarlegum stalli sínum og færður til almennings með kunnuglegum menningartilvísunum og popptónlist sem „allir kunna“. Úr því varð vinsæl karnivalísk veisla, en í Moulin Rouge var annað og meira til umræðu.
Það er meiri undirliggjandi alvara og sorg í Moulin Rouge en í hinum kvikmyndunum. Myndin er tileinkuð föður Baz, Leonard Luhrmann, sem lést stuttu áður en tökur hófust. Baz leikstýrði myndinni í blússandi sorgarferli og þrátt fyrir stuðið og litadýrðina er sorgin áþreyfanleg í henni.
Fegursta kona Rauðu myllunar, Satine, og vinir hennar standa frammi fyrir því að gullöld bóhemanna er á fallanda fæti og sér fyrir enda veislunnar. Satíne er sjúk, hún þjáist af berklum en reynir að halda þeim leyndum að ráði kráareigandans sem ráðleggur henni að giftast áður en það verði of seint. Ekkert bendir til annars en að örlög mylluhópsins verði önnur en fátækt og vændi. Þegar ungi bandaríski sjarmörinn Christian slæst í Mylluhópinn semur hann með þeim söngleik. Hann á að sannfæra Satine um að leika í verkinu en verða óvænt ástfangin standa bæði elskendur og áhorfendur frammi fyrir því að Satine og allir vinir hennar eru þjónar kráareigandans Zidler og hljóta að fylgja honum í gjaldþrot ef hann getur ekki komið sinni verðmætustu „eign“ þ.e. Satine í verð. Það gengur og hann ráðstafar stúlkunni til ríks herra og unga parið harmar missi sinn. Þeirra eina von er að söngleikur Mylluhópsins slái í gegn.
Söngur og leikur Hildar Völu Baldursdóttur og Mikael Kaaber var afburðagóður og sama má segja um can can dansarana sem skiluðu sinnum þætti af mikilli fimi og þokka! Eitt merkilegt innslag í dansana var þó dans ungra karla í síðum hringskornum kuflum sem minntu á tyrkneskan dans sem heitir Dervish, mjög tígulegur munkadans sem dansaður er til heiðurs Allah!
Moulin Rouge er stórsýning og árangurinn er umtalsvert afrek hjá Borgarleikhúsinu
Innilega Til hamingju !
Árni Kristjánsson/Dagný Kristjánsdóttir
