Rannsóknir á okkar tímum

Í síðustu viku var ég meðal áheyrenda á fundi Háskóla Íslands um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Nánar tiltekið snerist fundurinn um heimsmarkmið númer 15 (af 17), líf á landi. Opnunarerindið hélt Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Suðurlandi, og greindi þar m.a. frá rannsóknum á ástandi mófuglastofnsins á Suðurlandi. Skemmst er frá því að niðurstöðurnar eru sláandi: mófuglum fækkar um 2-3% á ári, sumum tegundum hraðar og öðrum hægar, en aðeins einni tegund fjölgar – skógarþrestinum. Í erindinu lagði Tómas ríka áherslu á að við yrðum að móta stefnu í þessum málum og að í því væri einfaldlega fólgið að við yrðum að velja: hversu mikið af heiðlóu, hversu marga þúfutittlinga viljum við hafa á Íslandi?

Hvað á Tómas við með því? Skoðum málið betur. Í fyrsta lagi sýna rannsóknir hans og félaga hans svo ekki verður um villst að fuglunum fækkar. Í öðru lagi bendir allt til þess að fækkunin stafi af ágangi okkar mannanna á kjörlendi fuglanna og raunar á vistkerfi plánetunnar í heild sinni (loftslagsbreytingar). Í þriðja lagi hljóta viðbrögð okkar við þessari óþægilegu staðreynd að vera á þá leið að sætta okkur við orðinn hlut en reyna þó að lágmarka skaðann eða að minnsta kosti að stýra honum. Óæskileg áhrif okkar á lífríkið eru staðreynd, hnattræn áhrif þeirra eru í fullum gangi og verða ekki stöðvuð – en það er vonandi hægt að stýra þeim og mögulega draga úr þeim.

Rannsóknir Tómasar og félaga eru einkar gott dæmi um stöðu vísindanna í dag. Öll vísindi eiga heima á þessari plánetu okkar, þessari plánetu sem við höfum misnotað allt of lengi og svarar nú fyrir sig. Og öll vísindi geta átt sinn þátt í að bregðast við þeirri úlfakreppu sem við erum komin í. Sama hvaða nafni þau nefnast, einu gildir hvert viðfangsefnið er – vísindin hljóta og verða að leggjast á eitt og miða rannsóknir sínar við að bregðast við vandanum á eins uppbyggilegan og gæfuríkan hátt og kostur er. Hvort sem vísindin snúast um náttúruna, lífríkið, loftslagið, löndin eða höfin, mannlegt samfélag, menninguna, menntunina, heilbrigði mannfólksins eða velferð annarra tegunda – þá blasa verkefnin við. Hver verður framtíð barnanna okkar og barnabarnanna? Hvers konar samfélag verður það sem þau munu búa í, hvers konar menning, hvers konar menntun mun þrífast þar, hvert verður hlutverk tækninnar, og hvernig og hvar verður náttúran? Vísindin munu ekki láta sitt eftir liggja í leit að svarinu við þeirri spurningu.

Björn Þorsteinsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands og frambjóðandi til rektors.