
Við hjónin höfum verið miklir aðdáendur óperufélagsins Óðs um nokkra hríð. Í sýningum þeirra fara saman verulega fallegar raddir, leikur og túlkun, frábær textagerð, fyndni og fjör.
Í gær var frumsýnd í Gamla bíó óperan Hliðarspor eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Þórunn byggði á leikriti eftir franska óperuhöfundinn Pierre Caron Beaumarchais en frá honum spretta margar gamanóperur sem urðu mjög vinsælar. Einkum óperurnar þrjár um hinn fyndna og klóka rakara Raffaelo Figaro (Gunnlaug Bjarnason) sem hefur gifst Súsönnu fögru sem margir aðrir girnast.
Figaro er eins konar þjónn og sendisveinn greifans og kvennabósans Almaviva (Þórhallur Auður Helguson). Almaviva geifi hafði fyrir sína parta alls ekki slegið slöku við í kvennamálum um dagana og honum fylgja sex framliðnar ástkonur af öllum stærðum og gerðum. Þessi draugakvennakór var sannkallaður gleðigjafi í hvítum krínólínum sínum og með munninn fyrir neðan nefið. Í búningum þeirra og fleiru mátti vel sjá frumleika og húmor Bryndísar Óskar Þ. Ingvarsdóttur sem annaðist búninga- og leikmyndahönnun en um dans- og sviðshreyfingar sá leikstjórinn Ágústa Skúladóttur.
Eins og í öðrum gamanóperum voru skúrkanir í sýningunni illvígir, en það vill oft verða í gamanóperum. Vondur var greifinn en verri þó írska fúlmennið Kristófer Krapp, vinur greifans. (Hafsteinn Þórhallsson) lék hann og var verulega díabólískur. Hórkarlarnir voru alltaf á hælum unga fallega fólksins s.s. ungu hjónanna Súsönnu (Björk Níelsdóttur) og Gunnlaugs Bjarnasonar) sem voru stöðugt að reyna að forðast áreitnina.
Ég hafði beðið eftir að heyra Guðrúnu Brjánsdóttur (greifynjunna Rósínu Almavivu) syngja og hlakka til að heyra meira frá henni.
Það var hraði og gleði í þessari skemmtilegu sýningu og fagnaðarlátunum í Gamla bíó ætlaði aldrei að linna. Ég tek undir með áhorfendum og segi:
BRAVÓ
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands.
Mynd frá sýningu: Red Illuminations