
Ég fór að sjá leikrit Hrafnhildar Hagalín Heim á dögunum í Þjóðleikhúsinu/Kassanum og Þessi sýning vill einhverra hluta vegna alls ekki víkja úr huga mínum. Ég bjóst svo sem ekki við öðru því að ég man enn sýninguna á leikriti Hrafnhildar Ég er meistarinn, 1991, það verk hafði ekki bara djúp áhrif á mig heldur margar konur á sínum tíma.
Sýningin á nýja verkinu, Heim, fer fram í Þjóðleikhúsinu, í Kassanum, þar sem salnum hefur verið skipt í tvennt og helmingur áhorfenda situr andspænis hinum helmingnum. Þessi uppsetning „andstæðra fylkinga“ minnir á réttarhöld eða uppgjör og sannlega er uppgjörs þörf í þessari fjölskyldu. Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússstjóri, leikstýrir sýningunni.
Leikmynd og búningar eru sköpunarverk Filippíu I Elísdóttir, stofan í stóru húsi læknishjónanna er dökk, áberandi í henni er mjög hár gluggi og úr stofunni er stigi upp á efri hæð þar sem svefnherbergin eru.
Í þessu stóra og glæsilega en kuldalega húsi læknishjónanna bíða kræsingar og vín eftir komu móðurinnar sem hefur verið til lækninga í Bandaríkjunum. Flestum Íslendingum af eldri kynslóð dettur fyrst í hug áfengismeðferð því hana sóttu ófáir Íslendingar vestur um haf á árum áður. En frúin hefur engan sérstakan áhuga á víninu og fjölskyldan er ekki að setjast niður til að deila veislumatnum og glaðri nærveru, allir eru eins og festir upp á þráð.
Faðirinn (Sigurður Sigurjónsson) er hjartalæknir, góður maður og elskulegur við dóttur og son en umgengst konu sína eins og stillta tímasprengju. Það gera börnin líka og ekki ofsagt að fjölskyldan er öll ansi stressuð. Börnin eru uppkomin, sonurinn fyrrverandi stjörnfræðistúdent og dóttirin núverandi glæsikvendi, í palíettukjól eins og á leið á ball.
Móðirin hefur greinilega meiri áhyggjur af hinum gáfaða en viðkvæma syni sínum (Almari Blæ Sigurjónssyni) en hefur minni áhuga á dótturinni (Selma Rán Lima) sem er harðari af sér og lítinn á eiginmanninum (Sigurður Sigurjónsson) . Hjónabandið þeirra er ástlítið og dóttirin virðist sannfærð um að faðirinn lini þjáningar konu sinnar með því að „gefa henni eitthvað“.
Eins og svo oft kjarnast þjáning fjölskyldunnar í viðkvæmasta hlekknum sem hér er sonurinn (Almar Blær Sigurjónsson), stálgreindur en tilfinningalega ráðvilltur. Almar Blær dró upp viðkvæma mynd af honum og sambandi hans og móðurinnar.
Hvað er það sem hvílir svo þungt á þessari fjölskyldu? Einhvers konar svik hafa átt sér stað, verið falin og aldrei gerð upp með þeim afleiðingum að foreldrarnir bera sektina með sér, hún hefur lamað ást þeirra og gleði og uppkomin börnin vita ekki hvaðan ógæfan kemur.
Dóttirin rekst á gamla ljósmynd í húsinu, myndin sýnir foreldra hennar unga, vinafólk þeirra og son þeirra. Dóttirin tekur eftir sláandi líkindum bróður síns og mannsins á myndinni og spurningar hennar verða til þess að faðirinn opnar sárið og hreinsar það þegar hann afhjúpar harmleikinn sem spannst út úr vinaböndum paranna tveggja. Ég hef ekki séð Selmu Rán á sviði áður en hún bjó til sterka persónu úr dótturinni sem vissi hvað hún vildi og tók það. Sigurður Sigurjónsson túlkaði föðurinn á þann lágmælta og hógværa hátt sem hann hefur svo gott vald á og spennan í fjölskyldunni slaknar, móðirin rís úr rekkju sinni og hlúir að börnum sínum og lokamyndin er af frekar lukkulegu fólki sem er „komið heim“.
Í næsta húsi býr ungt fólk, flugmaðurinn Ellert og kona hans Elsa (Kristín Þóra Haraldsdóttir). Elsa er eins af þeim konum sem vill öllum gott gera hvort sem þeir vilja það eða ekki. Kristínu Þóru tókst að gera hana mjög áhugaverða persónu sem kom sannarlega á óvart undir lokin.
Læknirinn er í grunninn góðmenni og reynir bera uppi hina sködduðu fjölskyldu sína en hann tekur ekki af skarið með neitt. Megnið af samskiptum innan fjölskyldunnar hverfist um að fela leyndarmál foreldranna. Svik þeirra í fortíðinni eru óafturkræf en þau eru afhjúpuð að lokum og það getur orðið ný byrjun. Eða þann skilning legg ég í titil verksins: „Heim“.
Nágrannakonan og lífskúnstnerinn Elsa (Kristín Þóra Haraldsdóttir) sem vill öllum hjálpa og öllu bjarga á síðasta orðið. Hún segir að fjölskyldan muni jafna sig af því að fólk sé lífrænt eins og tré, rætur okkar fléttast saman í moldinni og gróður styður annan gróður.
Hún fær síðasta orðið í þessu vel skrifaða og áhrifamikla leikriti.
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands.