Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni 

Spegill íslenskrar fyndni heitir ný bók eftir Þórunni Valdimarsdóttur sem er komin út hjá forlaginu Sæmundi. Þórunn fjallar þar um ritin Íslenzk fyndni sem gefin voru út á síðustu öld. Hvert hefti innihélt 150 gamansögur í ætt við brandara en þær eru flestar ekki nema ein efnisgrein. Í upphafi hverrar gamansögu er gerð grein fyrir ákveðnum aðstæðum og á eftir fylgir niðurlag þar sem hnykkurinn (e. punchline) slær botn í brandarann.

Flóki Larsen er íslenskufræðingur, bóksali og bókavörður.

Áhugavert er að velta fyrir sér uppsetningu ritsins. Í upphafi er greinargóður inngangur sem setur lesendur í gírinn fyrir komandi kímnisögur. Þar segir hún líka frá þingmanninum, ritstjóranum og bóndanum Gunnari frá Selalæk sem stóð að baki útgáfunni. Hann gaf heftin út árlega, alls tuttugu og fimm sinnum, frá 1933 til 1961. Kaflinn sem lýsir ævihlaupi Gunnars og tilurð Íslenzkrar fyndni er fróðlegur aflestrar og ágæt byrjun á bókinni. Eftir hann koma sögurnar síðan á færibandi þar til bókinni lýkur en Þórunn skýtur víða inní þönkum sínum og þörfum útskýringum þeirra á milli. Sú framsetning er heppileg að því leyti að hnittnin úr gömlu skemmtisögunum hittir ekki alltaf í mark. Oft koma fyrir orð, fyrirbæri, verkfæri og aðstæður sem eru fáheyrðar í dag. Þar gagnast greining Þórunnar vel. Enn betra hefði verið ef myndirnar sem Eggert Laxdal og Tryggvi Magnússon gerðu fyrir bókaflokkinn á sínum tíma hefðu fylgt með en svo er ekki, ef frá er talin myndin sem prýðir kápu bókarinnar. Af hverju þær eru ekki hafðar með er óljóst.

Gamansögurnar voru margar munnmælasögur í ætt við þjóðsögur en sumar má hreinlega kalla slúður. Einhverjar sagnanna fjölluðu um nafntogað fólk en aðrar sögðu frá ónafngreindum persónum (bónda einum, vinnukonu einni, kaupmanni, pilti, stúlku o.s.frv.). Þórunn, sem er sagnfræðingur að mennt, tekst með skemmtilegum hætti að greina gamansögurnar í Íslenskri fyndni en þær vitna til um gamla tíma og sagnahefð.

Færa mætti rök fyrir því að Spegill íslenskrar fyndni tilheyri þjóðlegum fróðleik sem var áberandi á nítjándu og tuttugustu öld. Þórunn tekst í bók sinni á við rit sem tilheyra þeirri margslungnu bókmenntagrein og beitir sjálf þeim frjálslegu vinnubrögðum sem einkenna hana. Rit hennar verður seint kallað strangfræðilegt þrátt fyrir að það hafi hlotið styrk frá Hagþenki, félagi höfunda fræðirita og kennslugagna. Þórunn er of persónuleg og frjálsleg í nálgun sinni til þess og nefnir þar að auki hvergi kenningar annarra fræðimanna. Ég fagna því enda er ritið aðgengilegra fyrir vikið. Það er í anda hinna berfættu sagnfræðinga, eins og sumir höfundar þjóðlegs fróðleiks voru gjarnan kallaðir, að skrifa fyrir alþýðu manna en ekki takmarkað mengi fræðimanna. Þórunn er laus við akademískar hömlur og gefur sér talsvert skáldaleyfi í umfjöllun sinni um ritin og heppnast það vel á köflum. Hún er iðin við að setja brandarana í samhengi við samtímann sem veitir oft fyndið sjónarhorn á sögurnar en sá samanburður bætir þó ekki alltaf miklu við. Lesendur vita vel að kímnisögurnar eldast frekar eins og mjólk en gott rauðvín. Það er einmitt það sem gerir þær fyndnar og athyglisverðar fyrir lesendur í dag. Því finnst mér skírskotanir til nútímans vera of fyrirferðamiklar í verkinu. Mér varð t.d. nóg um þegar Tene-tásur í covid-faraldri voru orðnar að umræðuefni.

Gamansögurnar setur Þórunn fram í afmörkuðum efnisflokkum eins og áfengi, hrekkir, dónaskapur, kaldhæðni, níska o.s.frv. Þessir flokkar skarast þó oft og því finnst mér að Þórunn hefði mátt leggja minna upp úr nákvæmri flokkun og meira púður í almenna umfjöllun. Það myndi brjóta upp lestrarupplifunina sem verður nokkuð endurtekningarsöm. Þórunn tekur enda aðeins fyrir fyrstu tvö heftin af þeim tuttugu og fimm sem komu út og því nær kortlagning hennar aðeins yfir brot af gamansögum Íslenskrar fyndni. Hvers vegna það er kemur ekki skýrt fram en sú ákvörðun ber e.t.v. vott um að ritið eigi að virka sem eins konar inngangsrit fyrir sagnaflokkinn. Það kann að vera heppilegt að lesa bókina eins og smásögusafn (nokkrar gamansögur fyrir svefninn eða á milli anna í amstri dagsins) frekar en eina samofna frásögn. Þá kæmi upptalningarstíllinn ekki að sök.

Það er ánægjulegt að reyndur rithöfundur skuli taka fyrir efni af þessu tagi sem lítið fer nú orðið fyrir í bókmenntaumræðunni. Spegill íslenzkrar fyndni varpar ljósi á horfna starfs- og lifnaðarhætti, bókmenntahefðina, síbreytilegt málfar og auðvitað kímnigáfu í íslensku þjóðfélagi á tuttugustu öld með frumlegum en þó ómarkvissum hætti. Þórunn greiðir veg lesenda að textum sem oft og tíðum eru torskildir en hefði þó mátt hækkra ránna, m.a. með því taka sagnflokkinn fyrir í heild sinni, hafa með myndir og auka almenna umfjöllun um sagnaflokkinn. Verkið er byggt á skemmtilegri hugmynd sem hefði þurft að marka skýrari stefnu.

Flóki Larsen er íslenskufræðingur, bóksali og bókavörður. Pistillinn var unninn í námskeiðinu Vinnustofa í menningarblaðamennsku við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.