Á nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu er verið að sýna nýtt íslenskt leikrit. Höfundurinn er Birnir Jón Sigurðsson sem útskrifaðist af Sviðshöfundabraut LHÍ 20 árið 2019 og hefur átt mikilli velgengni að fagna. Ég hef ekki séð fyrri verk hans en Sýslumaður dauðans er bæði athyglisvert og spennandi verk. Það er Stefán Jónsson sem leikstýrir og það er líka gæðastimpill.
Á sviðinu er sonurinn Ævar Birkisson (Haraldur Ari Stefánsson) að líta inn hjá pabba sínum (Pálma Gestssyni) sem honum þykir vænt um þó að hann fordæmi lífshætti hans, keðjureykingar, kæruleysi og fatastíl sem státar meðal annars af moldvörpuleikbúningi frá gömlu skólaleikriti en hann hefur pabbinn fundið í geymslunni og finnst mjög þægilegur innigalli!
Ævar má ekki vera að því að stoppa af því að hann er önnum kafinn ungur maður. Hann ætlar að koma seinna og spjalla við karlinn – en dauðinn verður á undan honum. Dauði föðurins er reiðarslag fyrir Ævar. Hann tekur dauðsfallið ekki gilt af því að hann elskaði pabba sinn og var alls ekki tilbúinn til að kveðja hann, átti svo margt ósagt og svo margt að þakka honum. Útfararstjórinn vísar honum á Sýslumann dauðans (Birnu Pétursdóttur) sem er áhugamaður og ráðgjafi um allt sem aðstandendur geta keypt á vegum útfararstofnunarinnar t.d. jarðarfararveitingar, einkum rjómapönnukökur. Hún er hörð sölukona og þylur upplýsingar um verð og gæði yfir Ævari og lætur hann fylla út eyðublöð og panta þjónustupakka í tölvunni.
Því betur sem syrgjandi sonurinn kynnist gráðugri og plebbalegri útfararstofunni, þeim mun glaðari verður hann að hitta Satír nokkurn (Sólveigu Arnarsdóttur) og fá að heyra að fordæmi séu fyrir því að sækja hinn látna niður til Hadesar en fyrst verður hann að leysa þrjár þrautir í hvelli. Þá getur hann endurheimt hinn látna úr dauðaríkinu. Það hyggst Ævar gera, hann elskar föðurinn og er með sektarkennd yfir að hafa ekki sinnt honum nógu vel á meðan hann lifði. Sólveig Arnarsdóttir var skrautlegur Satír og hliðvörður dauðaríkisins í ofurtöffaragervi og bar af í framsögn eins og venjulega.
Leikurinn er hraður og fyrr en varir erum við dottin inni í kvöldstund hjá þáttastjórnanda í sjónvarpinu. Hann líkjast svolítið (mikið) Gísla Marteini og félaga hans Berglindi Festival. Paródían sem þar var boðið upp á var fyndin framan af en gamanið kárnaði þegar menn byrjuðu að hallast að því að dauði föðurins hefði í raun verið sök hins kærulausa sonar og sýslumaður dauðans (Birna Pétursdóttir) fór þar á kostum í bírókratískum flækjum. Það var ekkert til sparað í kaldhæðni og svo ruddist lögreglan inn og þó undirrituð ætti lífið að leysa gæti hún ekki lýst hvers vegna lögregluárásin var gerð og hvað gekk á í sjónvarpssal hjá „Gísla“. Þar fannst mér ærslin í sýningunni vinna gegn þeim djúpu tilfinningum sem felast í tilraun Ævars til að afneita dauðanum, fá annað tækifæri til að bæta fyrir það sem hann iðrast og endurheimta föðurinn.
Og það reynist ekki heldur vera í boði þegar á hólminn er komið og er bara „blöff“ því að tilboðinu fylgja skilyrði. Ævar er upplýstur um það að samningurinn sem Satírinn og útfararstofnunin bjóða er aðeins langtíma-leigusamningur. Dáinn faðirinn er til leigu og upprisa hans er háð skilyrðum, hann verður að skilja minningar sínar eftir sem tryggingu í dauðaríkinu þegar hann stígur aftur inn í lífið. Þessum skilmálum hafnar Birkir. Hér dýpkar verkið enn og spurningarnar sem Birnir Jón Sigurðsson varpar fram verða áhugaverðar því hvers virði er lífið ef við samþykkjum að afsala okkur minningunum sem eru uppistaðan í lífi okkar og mennsku? Birkir velur dauðann umfram það líf sem fyrir honum er lifandi dauði?
Nýja sviðið er ekki stórt og leikmynd Mirek Kacz er ansi dökk en svolítið yfirþyrmandi á köflum. Á móti því komu frumlegar lausnir litadýrð í lýsingu, hraði og hugmyndaauðgi í búningum, myndböndum og álitsgjöfum og makalaus leikgervi t.d. Moldvarpar (nafn sem Birkir/Pálmi Gestsson tekur sér, myndað eins og Fannar) og kentársins (Sólveigar Arnardóttur).
Fjör, hugmyndaauðgi, miklar tilfinningar: sorg, ást og þakklæti gera þetta verk Birnis Jóns Sigurðssonar tilfinningaríkt og frumlegt. Mér fannst sýningin þó svolítið kaótísk og á mörkum ofhlæðis undir lokin, einkum í fjölmiðlasenu og lögregluárás.
Og að lokum: grátgjarnir áhorfendur hefðu þakkað fyrir að sleppa við lokasöng verksins sem var mjög tilfinningasamur eða það sem Norðmenn kalla „smör på flesk“.
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum.