Óskaland

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum, fjallar um sýningu Borgarleikhússins á leikritinu Óskaland.

Borgarleikhúsið frumsýndi á dögunum bandarískt leikrit eftir Bess Wohl „Grand Horizon“ í lipurri þýðingu Ingunnar Snædal, leikstjóri er Hilmir Snær Guðnason.

Þetta leikrit hefst í bjartri, ljósmálaðri íbúð þar sem eldri hjón, sem hafa verið gift í 50 ár, leggja á kvöldverðarborð með þaulæfðum handtökum, setjast því næst þegjandi að borðum þar til  eiginkonan, Nanna,  (Sigrún Edda Björnsdóttir) rýfur þögnina og tilkynnir eiginmanninum, Villa (Eggert Þorleifsson) að hún vilji skilnað. Hann svarar: Allt- í -læ.

Þá er það frá.   

Synir þeirra tveir: Benni (Jörundur Ragnarsson) og Baldur (Vilhelm Neto), bregðast mjög illa við fréttunum af því að hjónaband foreldranna hefur alltaf virst vera slétt og fellt en ýmislegt kemur nú upp á yfirborðið þegar farið er yfir málin.

Það eru alltaf mikil og skiljanleg hvörf þegar foreldrar skilja og börnin standa frammi fyrir hruni eigin heimsmyndar byggðrar á sjálfsblekkingum. Í ljós kemur að foreldrarnir eru einstaklingar en ekki bara til fyrir þau. Viðbrögð þrælfullorðinna sonanna við yfirvofandi skilnaði foreldranna, eru hins vegar gerð ansi móðursjúk og fæst orð hafa minnsta ábyrgð um leit Baldurs í faðm annars karlmanns sem hann hvorki vill né skilur– það var furðuleg sena sem Fannar Arnarsson og Vilhelm Neto þurftu að draga í land.  

Eggert Þorleifsson og Sigrún Edda  eru með okkar bestu gamanleikurum og búa til bæði fyndna og tragíkómiska mynd af hjónunum sem virðast hafa vitað hvert um annars leyndarmál en hvorki getað talað saman um drauma sína eða áhyggjur í fimmtíu ár.  

Villa dreymir um að verða uppistandari en brandarar hans eru bæði ófyndnir og klúrir, því miður. Nýja „leynilega“, kærastan hans,  er skvísa af nálægu elliheimili, Karla heitir hún, (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) og henni finnst Villi óborganlega fyndinn. Nanna býður hana hjartanlega velkoma á heimilið og það fer vel á með þeim en Karla er mjög fljót að láta sig hverfa þegar hún verður vitni að  umönnunarþörf kærastans roskna.

Villi  reynist hafa vitað lengi af framhjáhaldi Nönnu og elskhuganum mikla sem hún segir syninum Baldri (og áhorfendum) frá í smáatriðum. Bæld sorg og reiði Villa fær útrás á óvæntan hátt í síðasta atriði fyrir hlé. Salurinn hrökk í kút.

Það glittir í heilmikinn sársauka, reiði og sorg, undir niðri í uppgjörum Villa og Nönnu, verkið leynir þannig á sér en sársauki er ekki í fókus, þetta er gamanleikur, gestir hlógu mikið og allt fer vel að lokum.  

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum.