Mutter Courage, eftir Berthold Brecht og Margarete Steffin, hefur talist ein best skrifaða stríðsádeila allra tíma. Þetta leikrit var fyrst flutt á Íslandi árið 1965 eða fyrir næstum sextíu árum síðan. Sú sýning var mjög rómuð enda flestir stórleikarar Þjóðleikhússins þar til kallaðir, Mútta Courage var leikin af Helgu Valtýsdóttur og Katrín dóttir hennar var leikin af Bríet Héðinsdóttur. Nú er aðalhlutverkið, Múttan, leikin af dóttur Bríetar, Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur.
Leikstjóri er Una Þorleifsdóttir, eyðileg leikmyndin er eftir Ilmi Stefánsdóttur, búningar eru eftir Filippíu I. Elísdóttur og lýsingu annast Björn Bergsteinn Guðmundsson.
Upphaflega tónlistin við söngvana í Mutter Courage var eftir Paul Dessau, sem samdi hana í samvinnu við Brecht. Þar eru trommur og trompetar ráðandi og sterkur árásargjarn marstaktur hersins. Sú tónlist er ekki notuð í þessari sýningu heldur nýsamin tónlist eftir Helga Hrafn Jónsson og Valgeir Sigurðsson. Hún var kliðmjúk og falleg en ekki er hún minnisstæð og ekki fannst mér hún eiga nokkurt erindi við leikritið.
Leikritið gerist á miskunnarlausum stríðstímum, nánar tiltekið í „30 ára stríðinu 1624-1636 sem hefur verið kallað trúarbragðastríð en snerist í raun um völd og peninga eins og öll önnur stríð, mannfallið var hroðalegt, borgir í rústum og sviðin jörð.
Mútta Courage var frumsýnd árið 1941 í Zurich og felur í sér margs háttar skilaboð Brecht um þá styrjöld sem nasistar héldu að þeir gætu unnið þar og þá.
Miðpunktur verksins er kvenskörungurinn Anna Fierling sem gengur undir nafninu Mútta Courage eða mamma hetja. Hún ferðast með uppkomin börn sín og söluvagn í slagtogi við mismunandi herdeildir sem hún selur ýmislegt sem hermenn vantar m.a. brennivín. Hún er „athafnakona“, afskaplega fégráðug og svífst einskis ef peningar eru annars vegar. Ég skildi alls ekki hugmyndina að búningi Múttunnar (í hönnun) Filippíu Elísdóttur sem klæðir hana í stórflottan bláan kjól og glæsileg leðurstígvél, hvort tveggja sendi þau skilaboð að hún væri ekki aldeilis blönk. Múttu þykir vænt um uppkomnu börnin sín og er stolt af hinum sterka syni sínum Eilífi (Oddi Júlíussyni) og heiðarlega syninum Klárnum (Almar Blæ Sigurjónssyni), þeir draga vagninn hennar og hún hefur kennt þeim að hafa enga samhygð með öðrum en hugsa fyrst og fremst um að nota sér veikleika annarra og hagnast á þeim. Eilífur verður morðingi og Klárinn þjófur. Báða missir hún í stríðinu og harmar þá á sinn hátt. Það má vel segja að hún beri ábyrgð á dauða þeirra og hræðilegum örlögum dótturinnar Katrínar að auki. Samt er það Katrín sem hún ber mest fyrir brjósti en bregst þó verst.
Hver er Mútter Courage eiginlega? Að hætti Brecht á sú spurning engan rétt á sér því að Anna Fierling er ekki „manneskja“ heldur hugmynd og list leikarans er að halda þeirri hugmynd á lofti fyrir framan áhorfandann svo að hann geti sjálfur unnið úr henni það sem hann hefur vit til.
Villa Mútter Courage er sú að hún geti hagnast á stríðinu og fjöldamorðum á saklausu fólki, ofbeldi og ránum. Einhver mun græða á því að lokum en það verður ekki alþýðan og ekki hún sjálf. Í því felst sjálfsblekking hennar, missir og sorg. Og það síðast nefnda verður að komast til skila ef áhorfandi á skilja að stríðsrekstur eyðileggur ekki aðeins mannvirki heldur einnig mannleika þeirra sem eftir lifa.
Það er sem sagt ekki heiglum hent að túlka þessa þrjósku konu þannig að áhorfandi fái samúð með henni og geti skilið forsendur hennar. Enginn móralskur dómur er felldur yfir henni af hálfu höfundar. Anna Fierling er bæði gerandi og þolandi hörmunganna. Því tekst Steinunni Ólínu að miðla í síðari hluta verksins og sterkri lokasenu.
Steinunn Ólína sýndi sömuleiðis innri átök móðurinnar þegar hún afneitar uppáhaldssyni sínum dauðum og þegar hún velur Katrínu fram yfir tilboð kokksins (Atli Rafn Sigurðsson) um öruggt líf í Hollandi þar sem ekki er gert ráð fyrir Katrínu.
Í lokasenunni situr mútta eftir á vígvellinum og tekur fram hvert búntið af seðlum á fætur öðru úr óteljandi vösum sínum og flettir þeim – eða telur þá eins svefngengill áður en hún spennir sig fyrir vagninn og heldur áfram göngu sinni – alein.
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.