Í Kynvillta bókmenntahorninu er skrifað um hinsegin bókmenntir og hinseginleikann í bókmenntum — við lesum á skjön, skyggnumst út fyrir síðurnar og skoðum það sem býr á milli línanna. Umsjón: Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor við Íslensku- og menningardeild: akb@hi.is.
Í háa herrans tíð hef ég verið hugfanginn af skáldskap Auðar Övu Ólafsdóttur og það er mikið gleðiefni að sjá nýju bókina hennar, Eden (2022), ná vinsældum. Af því tilefni langar mig að fjalla um aðra bók eftir hana, Undantekninguna (2012), sem er núna orðin 10 ára gömul. Sögur Auðar Övu eru oft og tíðum heillandi skoðun þess sem fellur utan hins almenna norms. Til dæmis fjallar Ungfrú Ísland (2018) um skáldkonu og samkynhneigðan sjómann á sjöunda áratug síðustu aldar. Efnistök Auðar eru eitthvað sem við getum gert okkur í hugarlund og hljómar ekki undarlega en er nógu langt utan þess sem almennt þykir til að gera söguna öðruvísi og jafnframt hinsegin. Hér er Undantekningin engin undantekning. Skáldskaparfræðin er þar í brennidepli og fagurfræðin í hávegum höfð, samanber undirtitilinn „de arte poetica“ (ísl. skáldskaparlistin). „De arte poetica“ verður þó ekki megináhersla þessarar umfjöllunar, fremur er ætlunin að skoða bókina með sérstakri hliðsjón af hinseginleika, bæði í skilningi kynhneigðar, kynvitundar og hugmynda um „öðrun“ (e. othering) en umfjöllun þess efnis er víða að finna í bókinni.
„en þá kemur upp þetta kynhneigðarvandamál“
Til að stikla á stóru fjallar Undantekningin um Maríu, móður tvíbura og konu í mannúðarstarfi sem tekur virkan þátt í þróunaraðstoð í stríðshrjáðum löndum. Bókin byrjar á gamlárskvöldi þar sem Flóki, eiginmaður hennar og barnsfaðir, kemur úr skápnum og segist eiga í ástarsambandi við samstarfsfélaga sinn og nafna, Flóka Karl. Eftir því sem líður á bókina kynnist María betur sálfræðingnum og rithöfundinum í kjallaraíbúðinni, Perlu, sem hjálpar henni eftir bestu getu að taka skilnaðinn í sátt. Perla er dvergur sem vinnur sem hjónabandsráðgjafi á daginn og leigupenni á næturnar og hún kemur mikið við sögu.
Þegar rætt er um hinseginleikann í Undantekningunni má fyrst nefna kynhneigð Flóka. Í byrjun bókarinnar flytur hann inn til ástmanns síns en hefur fyrir það verið giftur konu sem hann segist hafa elskað og elskar enn. Þetta hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á Maríu og því oft rætt. Það er möguleiki að Flóki sé tvíkynhneigður, eða samkynhneigður með undantekningu eins og titill bókarinnar gefur til kynna. Það er ekki markmiðið hér að finna sjálfsmyndarstimpil fyrir Flóka, enda án efa vonlaust verkefni, en það er ljóst að hann hafði verið að prófa sig áfram þegar þau María byrjuðu að stinga saman nefjum og öðrum líkamspörtum.
Umræðan um kynhneigð Flóka mun hér víkja fyrir umfjöllun um Perlu sem er á margan hátt stórmerkileg hinsegin persóna. Hún er flókin og margvíð og líf hennar er að flestu leyti óhefðbundið. Fyrir utan að vera jaðarsett vegna líkamsgerðar er persónan sem lesandinn kynnist í bókinni að ýmsu leyti frábrugðin mörgum þeim normum sem við þekkjum svo vel. Perla er dularfull og fortíð hennar er óræð. Snemma í bókinni segir að hún hafi „dúkkað skyndilega upp […] eftir langa dvöl í útlöndum“ (bls. 15). María lýsir því að allt í einu, eitt kvöldið, hafi þau séð „rúmlega eins metra háa manneskju inn um gluggann sem stóð í áltröppum og var að lakka eldhússkápana bleika“ (bls. 15). Þetta kann að koma einkennilega fyrir sjónir og einnig er ýmislegt „á huldu um persónulega hagi hennar og einkum og sér í lagi fortíð hennar í útlöndum til margra ára“ (bls. 15). Á milli þess sem Perla fleygir í Maríu ráðleggingum fær lesandi að kynnast henni eilítið betur. Þegar María er í vangaveltum um blóðföður sinn annars vegar og uppeldisföður hins vegar upplýsir Perla hana til dæmis um að hún þekki föðurleysi af eigin raun. Að auki segir hún frá nokkrum skiptum í æsku þegar hún varð fyrir aðkasti fyrir að vera dvergur og sömuleiðis að enn séu til foreldrar sem kenna börnum sínum að benda og glotta yfir litlu fólki. Við hvert horn er Perla jaðarsett og fellur meira og meira í hóp þeirra sem ekki tilheyra hinu almenna heldur eru öðruvísi og hinsegin.
„grein um óstöðugleika kynvitundar“
Kynhneigð Perlu er óræð en hún er ekki í brennidepli skáldsögunnar heldur öðrun hennar og almennur hinseginleiki mun fremur. Mér er einkum minnisstætt að í einu samtalanna við Maríu nefnir hún rauðu seríuna í glugganum sem hjálpar blómunum að vaxa og dafna. Í þessu felst tvíræðni – Rauða serían er þekkt sería ástarsagna sem innihalda oft og tíðum opinskáar lýsingar á kynlífi. Með táknrænni túlkun má segja að Perla líti svo á að kynlíf og kynferðislegar fantasíur séu mannbætandi og hjálpi manni að vaxa sem manneskja. Hvað kynferðislíf varðar má einnig geta þess að í bókinni kemur skýrt fram að Perla er vel að sér í málefnum kynvitundar og kynhneigðar. Við Maríu nefnir sálfræðingurinn með meiru að hún hafi skrifað „grein um óstöðugleika kynvitundar í erlend fagtímarit“ og geti reynt að hafa einhvers staðar upp á henni (bls. 37). Þessi ummæli skipta lykilmáli í greiningu hinseginleikans í bókinni. Lesandinn veit að Perla þekkir málefnið nógu vel til að skrifa um það í fagrit og um leið er undirstrikað að í hennar augum er kynferðislíf menneskjunnar margbreytilegt og flókið en ekki dregið skýrum dráttum.
Flækjur kynferðislífsins eru mikilvægur hlekkur í bókinni og í því sambandi kemur nafngift Flóka síður en svo á óvart. Dyggir lesendur Auðar kannast eflaust við aukna merkingu í nöfnum sögupersóna. Sem dæmi má taka nafnið Jónas Ebeneser úr Ör (2016) en hann er vel fullorðinn og þunglyndur karl sem svipar til Ebenezer Scrooge í Christmas Carol (1843). Undantekningin er heldur engin undantekning frá þessari reglu því Flóki ber nafn með rentu. Í byrjun bókarinnar kemur hann út úr skápnum fyrir Maríu en kynhneigð hans er þó síður en svo einföld, né lögð skýrt fram – fremur má hún heita flókin.
„slíkt ofhlæði dramatískra atburða“
Einnig skiptir máli að Perla er að öllum líkindum höfundur bókarinnar. Frá upphafi er ýjað að því að Perla sé að skrifa hana og lesandi fær greinilega tilfinningu fyrir því. Perla nefnir reglulega að þótt furðulega megi hljóma séu aðstæður Maríu, sem og ýmis atvik sem henda hana, svipuð þeim sem hún er að skrifa í fyrstu skáldsöguna sína. Til að mynda má nefna þegar Perla segir að „þriðji kafli skáldsögunnar sem hún er að vinna að […] svipi skuggalega mikið til þess sem nágrannakona hennar á efri hæðinni er að ganga í gegnum“ (bls. 22). Dæmin verða svo tilviljanakenndari því sem líður á bókina og tilfinningin ágerist alveg fram í síðasta kafla þegar hún breytist í fullvissu. Bókinni lýkur þannig með bréfi Perlu sem hún lýkur með orðunum: „P.S. Handritið er á leið í prentsmiðju“ (bls. 285). Hlutverk Perlu sem höfundur bókarinnar hefur jafnvel þótt svo augljóst að danska þýðing Undantekningarinnar, Svaner bliver ikke skilt, ber nánast sama heiti og bók Perlu (Svanir skilja ekki: En það gera mennirnir). Mikil írónía er fólgin í þessu, til að mynda má nefna þegar Perla segir við Maríu: „Ef líf þitt væri skáldsaga, þá þætti slíkt ofhlæði dramatískra atburða ekki sannfærandi“ (bls. 172). Lesandi skynjar í gegnum alla bókina að hann sé að lesa skáldsögu.
Sé haft í huga að Perla sé höfundur bókarinnar er auðséð hve mikilvægt hinseginþemað er. Hún þekkir vel óstöðugleika kynvitundar og hefur reynt öðrun á eigin skinni. Hún dregur athygli að þessu með nafni Flóka. Þekking Perlu á hinseginleikanum skýrir af hverju bókin forðast að njörva niður fasta sjálfsmynd, hvort sem sú sjálfsmynd birtist en samkynhneigð eða önnur kynhneigð eða kynvitund. Skáldaði höfundurinn dregur fastmótaðar hugmyndir í efa og miðar að því að umbreyta hugmyndum okkar um kynvitund og kynhneigð, sem oftast ganga út frá rökföstum staðli. Mergur málsins er einmitt að sjálfsmyndin er alls ekki einföld, heldur þvert á móti tvíræð, margþætt, djúp og á það til að umbreytast með vindáttinni.
Undantekningin vinnur að því að kollvarpa hugmyndum lesandans um kynvitund og kynhneigð, þ.e. séu þær hugmyndir byggðar á einfeldni. Skáldaði höfundurinn dregur athygli að óstöðugleika kynvitundarinnar og þegar upp er staðið fjallar bókin um það ekki síður en skáldskaparlistina. Hvort sem um Perlu, Flóka eða aðrar persónur ræðir er hinseginþema bókarinnar sterkt, tekur á kynhneigð og kynvitund, öðrun þeirra sem standa utan þess sem kalla má venjulegt og aðkastinu og útskúfuninni sem þessir einstaklingar verða fyrir. Það liggur í augum uppi að umfjöllun Auðar Övu, sem og oft áður, stendur sína plikt utan normsins.
Magnús Orri Aðalsteinsson, BA-nemi í ensku og íslensku á Hugvísindasviði Háskóla Íslands.
Forsíðumynd: robert babiak
Heimildir: Auður Ava Ólafsdóttir. (2013). Undantekningin: de arte poetica. 2. útgáfa, kilja. (Upphafleg útgáfa 2012). Reykjavík: Bjartur.