Af hákörlum, karlmennsku og kærleik. Um ljóðabókina Menn sem elska menn eftir Hauk Ingvarsson


Í Kynvillta bókmenntahorninu er skrifað um hinsegin bókmenntir og hinseginleikann í bókmenntum — við lesum á skjön, skyggnumst út fyrir síðurnar og skoðum það sem býr á milli línanna. Umsjón: Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor við Íslensku- og menningardeild: akb@hi.is.  


Unnur Steina K. Karls er meistaranemi í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Þó að hið þekkta orðatiltæki segi að ekki eigi að dæma bækur af kápunni er kápan, og titillinn þar á, það fyrsta sem mögulegir lesendur sjá. Því verða þessi atriði að vera bæði lýsandi fyrir innihald bókarinnar jafnt sem grípandi til þess að fá fólk til þess að opna bókina og lesa. Þriðju ljóðabók Hauks Ingvarssonar, fræðimanns og skálds, tókst þetta vel en bókin kom út í jólabókaflóðinu árið 2021 og vakti þá umtalsverða athygli vegna titilsins, Menn sem elska menn. Ef til vill koma ákveðnar hugmyndir upp í huga lesenda þegar sá titill er lesinn, mögulega hugmyndir tengdar hinseginleika. Þennan undirliggjandi hinseginleika bókarinnar má jafnframt greina á kápunni en myndin á forsíðunni er landslagsmynd á hvolfi. Þar eru hafið og fjöllin efst á síðunni en himinninn fyrir neðan. Þegar bókin er lesin er því veröldin á hvolfi, hún snýr hinsegin. Ef myndinni á kápunni er hins vegar snúið rétt fer bókin öll á hvolf og er ólæsileg. Lesendur verða því að samþykkja að snúa veröldinni á haus við lestur ljóðanna.

Karlmennska og kærleikur

Bókin samanstendur af þremur bálkum sem bera heitin „Laumufarþegar“, „Menn sem elska menn“ og „Úr höfði himinn“. Hér verða síðari bálkarnir tveir aðallega til skoðunar, sérstaklega sá sem ber sama titil og bókin, en hann fjallar um vináttu og ást á milli karlmanna ásamt því að beina sjónum að hugmyndum um karlmennsku. Þriðji og síðasti bálkurinn, „Úr höfði himinn“, er á fremur persónulegum nótum en hann fjallar aðallega um tímann og barnæskuna. Þar eru umfjöllunarefnin einnig kalt stríð, goðafræði, himingeimurinn og kærleikurinn, sem er alltumlykjandi í bókinni. Höfundur sagði sjálfur í viðtali rétt eftir útgáfu bókarinnar að kærleikur hafi meðal annars verið honum hugleikinn:

„Þannig séð var kærleikurinn eitthvað sem ég vildi boða með þessari bók, kærleikur og fegurð […] þessi karlmennskuhugmynd sem er verið að afneita núna og deila á, hún er ekki endilega fasti. Við getum breytt henni.“[1]

Kærleiksboðskapur bókarinnar er nátengdur hugmyndum um karlmennsku og með því að leggja áherslu á og boða ást og kærleik, þá sérstaklega milli karlmanna, eru þar settar fram nýjar hugmyndir um karlmennsku sem eru bein ádeila á þær ríkjandi hugmyndir sem nú eru uppi. Hugmyndir um eitraða eða skaðlega karlmennsku þar sem karlmenn eru tilfinningalega fjarlægir og svo framvegis eru hér reknar á brott og þess í stað er ást, af hvaða toga sem er, milli karlmanna upphafin.

Einmana hákarlar

Slíka ádeilu á karlmennskuhugmyndir má til dæmis sjá í ljóðunum um grænlandshákarlinn í ljóðabálknum „Menn sem elska menn“. Grænlandshákarlinn, sem lifir djúpt í Norður-Íshafi, er stórt og mikið rándýr sem getur lifað í nokkur hundruð ár og má auðveldlega tengja við karllægar hugmyndir um líkamlegan styrk, vald og árásarhneigð. Hins vegar eru ljóðin um hákarlinn í bók Hauks öll á fremur ljúfsárum nótum þar sem áhersla er lögð á þá einsemd sem hákarlinn finnur fyrir aleinn, djúpt í iðrum hafsins, þar sem hann syndir í mörg hundruð ár með ást í hjarta:

v.

það hafa fleiri ort
um Grænlandshákarlinn

og hið undarlega tundur
þegar lýsi hans brennur

í 150 ár
bíður hann kynþroskans

og svo kviknar kalt bál
leiftur um nótt

kannastu við annarra manna orð
sem bærast innra með
þér

án þess
að þú getir
kallað þau fram
á tunguna?

[…][2]

xii.

Grænlandshákarlinn
hvítur og stór

leiddi ekki hugann
að byltingunum fjórum
en hann horfði með glóð
í auga

á iðandi kroppa á sundi

hann elskaði menn
sem elskuðu menn
sem elskuðu að elska menn

og þar sem þeir ólmuðust
á sundi

þá dreymdi hann um
að læsa í þá tönnum

sjá rautt blóðið
breiðast um blátt hafið

[…][3]

Grænlandshákarlinn upplifir einmanaleika sem fylgir hinni skaðlegu karlmennsku og bælingu tilfinninga, þá sérstaklega ástar og kærleiks. Þessi skilaboð, um að einblína eigi á kærleikann, koma einnig sérstaklega skýrt fram í tíunda ljóði síðasta ljóðabálksins:

x.

kærleikurinn er
þyngdarkraftur
alheimsins

hann leggur bönd
á efnin
heldur sólum
á brautu

togar barn að móður
mann að konu
mann að manni
konu að konu
fólk að fólki

silkiræma var gjörð
með list og vél

úlfur bundinn

og
æ síðan
hafa sameindir
skilið okkur að

tilbrigði
í okkar sameiginlegu
erfðakeðjum

náttúran beisluð

kærleiksverk
og svo hlógu goðin
öll nema eitt

elskaði
Loki börn sín
svo mjög
að hann fórnaði
þeim
ekki?

faðir
elskaðu barn þitt
yfirgefðu það ekki[4]

Kærleiksboðskapurinn skín hér í gegn og mikil áhersla lögð á ást. Áhugavert er að móðurástin er nefnd fyrst, síðan gagnkynhneigð ást, fylgt á eftir með samkynja ást, fyrst karla og síðan kvenna, og að lokum ást milli fólks almennt. Ýmislegt má lesa út úr því en svo virðist sem höfundur leitist við að vera inngildandi (e. inclusive) og fjalla um eins fjölbreytta ást og hægt er. Í lok ljóðsins er áherslan þó lögð á föðurástina þar sem Loki er þar fyrst nefndur á nafn og hinseginleiki hans ítrekaður þar sem hann, ólíkt hinum kristna guði, elskar börnin sín svo mikið að hann fórnar þeim ekki. Að lokum er ónefndur faðir ákallaður en hann má bæði túlka sem vísun í hinn fyrrnefnda kristna guð og feður almennt. Kallað er eftir því að karlmenn falli ekki í gildru hinnar skaðlegu karlmennsku og tjái þess í stað ást sína, þá sérstaklega í garð barna sinna.

Karlmenn og ást

Annar ljóðabálkurinn, „Menn sem elska menn“, fjallar líkt og titillinn ber til kynna um menn sem elska (eða elskuðu) menn. Meðal annars er viðfangsefnið Fjölnismennirnir Jónas Hallgrímsson og Tómas Sæmundsson og vinátta þeirra en þeir voru mjög nánir vinir líkt og sjá má á bréfaskiptum þeirra.[5] Ljóðmælandi vitnar ítrekað í þessi bréf og bendir sérstaklega á þá ást sem ríkti á milli þeirra félaga:

i.

manstu eftir bréfinu
frá Tómasi til
Jónasar?

þar sem hann segist vera
hálf melankólskur

en bætir við að þeir megi
aldrei gleyma hvor öðrum

talar um fjarlægðina
milli þeirra og þunga
kroppsins

talar um stefnumót
í andanum
yfir höf
og lönd

kosmískar víddir


þeir
geti

flogið upp í Júpiter
                        eður Úranus

og
áður en hann kveður
kallar hann
Jónas
elskuna sína
                                  segir
ég er þinn

manstu eftir þessu bréfi?[6]

Skrif Tómasar til Jónasar sem hér er vitnað orðrétt í eru yfirfull af innilegum ástarjátningum en færa má rök fyrir því að samband þeirra hafi verið svokölluð rómantísk vinátta. Rómantísk vinátta einkennist af mjög nánum tilfinningasamböndum milli vina, oftast af sama kyni, og var meðal annars algeng á 19. öld þegar þeir félagar voru uppi.[7] Þrátt fyrir að hægt sé að líta á þessi sambönd sem hinsegin í nútímaskilningi voru þau yfirleitt ekki álitin sérkennileg á sínum tíma. Mögulegt er að túlka ljóðin um Tómas og Jónas svo að hér sé verið að benda á hinseginleika sambands þeirra og að með titlinum Menn sem elska menn sé meðal annars vísað til þeirra. Einnig boða þessi ljóð mikilvægi ástar og kærleiks milli karlmanna í dag með því að benda á heimildir sem sýna og upphefja ást karlmanna til vina sinna. Það gerir eftirfarandi ljóð um kappana úr Brennu-Njáls sögu einnig:

xiv.

og þú elskar Gissur
og þú elskar Geir
sem elskar Gunnar
sem elskar Héðin og

Njál

sem elskar menn
sem elskar menn
                        menn
            menn
menn[8]

Hér gefst einnig tækifæri til hinsegin túlkunar á persónum ljóðsins og samböndum þeirra, þá sérstaklega sambandi Gunnars og Njáls, en vinátta þeirra er lituð af nánum tilfinningaböndum og mögulegum hinsegin undirtónum líkt og ýmsir fræðimenn hafa áður bent á.[9] Einnig er ljóðið í eðli sínu frábrugðið hefðbundinni orðræðu þar sem í því er fjallað um þekktar karlpersónur úr Íslendingasögum ekki sem hetjur og bardagakappa heldur sem karlmenn sem elska og þá sérstaklega aðra karlmenn. Ljóðmælandi beinir því aftur sjónum frá hinni ofbeldisfullu karlmennsku og að ást og kærleik líkt og gert er í bókinni allri. Það er þessi kærleikur, þá sérstaklega tengdur mönnum sem elska menn, og ádeila á ríkjandi hugmyndir um karlmennsku sem gera bók Hauks að þeirri fallegu hinsegin ljóðabók sem hún er.

Unnur Steina K. Karls er meistaranemi í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.


[1] Jórunn Sigurðardóttir, „Kærleikur var eitthvað sem mig langaði til að boða,“ RÚV.is, 13. október 2021.

[2] Haukur Ingvarsson, Menn sem elska menn (Reykjavík: Mál og menning, 2021), 29.

[3] Sama heimild, 39.

[4] Sama heimild, 62–63.

[5] Hér má sem dæmi benda á grein Steinunnar Haraldsdóttur „„Ég má með engu móti missa þig“: Vinátta Tómasar Sæmundssonar og Jónasar Hallgrímssonar eins og hún birtist í bréfum þeirra“ sem birtist í Vefni árið 2007.

[6] Haukur Ingvarsson, Menn sem elska menn, 23.

[7] E. Anthony Rotundo, “Romantic Friendship: Male Intimacy and Middle-Class Youth in the Northern United States, 1800-1900.” Journal of Social History 23, nr. 1 (1989): 1-2. http://www.jstor.org/stable/3787562.

[8] Haukur Ingvarsson, Menn sem elska menn, 42.

[9] Sem dæmi má hér nefna grein Ármanns Jakobssonar „Ekki kosta munur: Kynjasaga frá 13. öld“ sem birtist í Skírni vorið 2000 (https://timarit.is/gegnir/000503369) ásamt BA-ritgerðinni „Var Njáll hommi? Tilvísanir söguhöfundar Njálu til samkynhneigðar“ eftir Evu-Mariu Klumpp frá árinu 2015 og er aðgengileg á Skemmunni.