Skammastu þín?

Í Leikhús, Rýni höf. Dagný Kristjánsdóttir

Það er verulega gaman að lifa þegar nýtt verk eftir Tyrfing Tyrfingsson kemur á fjalirnar.  Hvert og eitt einasta þeirra er ógleymanlegt karnival.  Það gildir í hæsta máta um nýja verkið:  Sjö ævintýri um skömm.  Leikstjóri er Stefán Jónsson.

Galinn geðlæknir

Leikritið hefst á því að söguhetja okkar, lögreglukonan Agla (Ilmur Stefánsdóttir) rekst inn til geðlæknis sem er önnum kafinn við að lækna sjúkling sinn, Margréti. Hún er á þeirri skoðun að besta lækning allra meina sé að fjarlægja þau – í orðsins fyllstu merkingu, þ.e. ef hana klæjar í fingur eða verkjar í fót sagar hún liminn af – enda fer limum fækkandi á henni og mál að linni.

Geðlæknirinn er leikinn af Hilmi Snæ Guðnasyni. Framsögn hans er aðdáunarverð og samleikur hans og hinnar öskureiðu lögreglukonu er bæði skrautlegur og afar fyndinn, hún er eldsnögg að finna hvaða ævintýri hann er að pukrast með og notar það gegn honum til hins ítrasta, veikir punktar annarra eru hennar sérgrein.  Ég hef satt að segja ALDREI heyrt áhorfendur í Þjóðleikhúsinu hlæja jafn hjartanlega og samhljóma eins og á þessari sýningu. Enda fór hún yfir öll „velsæmis“mörk með jöfnu millibili.  En þar með er ekki öll sagan sögð, heldur rétt að hefjast.

Ævintýrið – kjarninn í sjálfsmyndinni?

Bygging verksins er línulaga- sjö ævintýri eru sögð eftir því sem verkinu vindur fram. Það hvarflaði að mér hvort ævintýrin vísuðu til dauðasyndanna sjö en það gengur ekki sérlega vel upp. Heimur verksins og persónanna er ekki trúarlegur þó nóg sé þar af syndum; hroka, öfund, reiði, þunglyndi, ágirnd, ofneyslu og hórdómi. Skömm er líka fyrst og fremst félagslegur refsivöndur en kristin trú innrætir okkur sektina og kennir okkur að pína sjálf okkur með henni.

Í samfélaginu er mönnum refsað  fyrir bannaðar þrár og hótað að þeir verði reknir burt úr hjörðinni. Af ótta við þetta heldur fólk ævintýrunum sem það skammast sín fyrir leyndum eins lengi og kostur er. Það pukrast með og nostrar við skömm sína og því hleður hún utan á sig eins og púki á fjósbita og pínir þann sem skammast sín uns hann þolir ekki meir og drepur sig eða aðra (í einhverjum skilningi).

Óþarfi er að lýsa því nánar – það leikrit er alltaf í gangi á samfélagsmiðlunum fyrir allra augum. En þegar sálfræðingurinn spyr Öglu lögreglukonu hvað komi í huga hennar ef hann nefni orðið „ævintýri“ segir hún strax: Helvítis…. Malla amma.

„Smánarblettir á íslensku þjóðinni“

Amma hennar, Magdalena, er leikin af Ólafíu Hrönn Jónsdóttur sem toppaði sjálfa sig í þessu hlutverki „með hár blásið hálfa leið til himins“ eins og henni er lýst í verkinu. Malla amma fer með bandarískum kærasta til fyrirheitna landsins, þ.e. hjólhýsahverfis í Flórída, skilur Eddu, móður Öglu, eftir sjö ára gamla á Íslandi og kemur aldrei aftur. Hún og vinkonur hennar eru „smánarblettir“ á íslensku þjóðinni en í Flórída eru veður blíð og þær syngja, þamba kokteila og sóla sig alla daga. Hirðmeyjar Ömmu Möllu eru fjórar; það eru hin, að mati Ömmu Möllu, „ógeðfellda persóna“ Eygló (Elva Ósk Ólafsdóttir) frá Akranesi, þá Fanney (Kristbjörgu Kjeld) og síðan Flórídafrúin (Eddu Arnljótsdóttur). Allar bresta þær í söng og dans á skræpóttum sundbolum í sólinni og rífa í sig íslenskan þorramat þess á milli undir stjórn ömmu Möllu. Leikmynd Barkar Jónssonar var snjöll og búningar Þórunnar Elísabetar Sveinsdóttur voru óborganlegir.

Amma Malla talar sitt eigið tungumál, hún er fyndnust og ríkir yfir hirðmeyjum sínum eins og harðstjóri. Aðdáandi hennar númer eitt er Agla litla, barnabarnið  sem fær að heimsækja hana til Ameríku og gagnrýnandi númer eitt er dóttir hennar, móðir Öglu, (Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir) sem Malla yfirgaf forðum til að geta gert sitt ævintýri, sjálfan ameríska drauminn, að veruleika áður en hún kæmi aftur til Íslands sem sigurvegari. Það er æðislegt að fá að sjá Steinunni Ólínu aftur á sviði, hún er mögnuð leikkona og þau Eggert Þorleifsson góð saman sem hinir lánlausu foreldrar Öglu. Kæfingarleikur þeirra er með því gróteskasta sem sést hefur á sviði nýlega.

Malla og vinkonur hennar hlúa að skömm sinni og ævintýrinu um forboðnar ástir sem sigra allt og barnabarninu finnst amman stórkostleg uns veruleikinn og beiskja móðurinnar kennir því annað. Þessa sögu höfum við heyrt áður, til dæmis í Kofanum á sléttunni, fyrsta verki Tyrfings.

Eftir standa Agla og Hanna sambýliskona hennar í lok verksins og niðurstaða þeirra er sú sama og margra annarra á undan þeim – reynum að rækta garðinn okkar.  Það er hvort eð er ekki annað sem við getum og eigum að gera. Ekki  þurfum við að skammast okkar fyrir það.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila