Höfundur þessa pistils eignaðist nýlega tvær bækur með þýðingum á íslenskum miðaldatextum. Í þakklætisskyni við þýðendurna verða hér birtar stuttar kynningar á þessum bókum.
Íslendingabók e Landnámabók. Nascita di una nazione. Introduzione, traduzione e commento di Lorenzo Lozzi Gallo. Roma, Writeupbooks 2021. ISBN 979-12-80353-81-8, 264 s.
Lorenzo Lozzi Gallo hefur sent frá sér fjölda rita um germanskar og norrænar miðaldir. Árið 2010 kom út eftir hann ítölsk þýðing á Bárðar sögu Snæfellsáss, með inngangi og skýringum. Hann er prófessor í germönskum málvísindum og miðaldabókmenntum við háskólann í Messina á Sikiley og hlaut hann til þessa verks styrk Snorra Sturlusonar frá Stofnun Árna Magnússonar. Bókin er að meginhluta þýðing á Íslendingabók og Landnámabók á ítölsku, með ítarlegum skýringum. Þýðingunni er fylgt úr hlaði með rúmlega 50 blaðsíðna yfirgripsmiklum inngangi. Hann skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn er almennt yfirlit um landafræði Íslands, samfélag, heiðinn sið og loks trúskipti og kristnitöku. Í síðari hluta inngangs gerir höfundur grein fyrir handritum Íslendingabókar og Landnámabókar og fer rækilega yfir flókna varðveislusögu og gerðir Landnámabókar. Næst verður fyrir honum að útskýra örnefni, mannanöfn og áhugaverð orðasambönd. Hér nýtur sín vel þekking höfundar á málsögu og samanburðarmálfræði. Loks er fjallað um tímatal og tímatalsfræði. Í þessum stutta inngangi tekst að koma fyrir miklum fróðleik með skýrri framsetningu sinni. Bókin er ætluð öllum Ítölum sem áhuga hafa á íslenskri menningu.
Bishops in Early Iceland. Hungrvaka, The Saga of Páll Jónsson, An Account of the People at Oddi, The Priesthood of Bishop Guðmundr Góði. Translated by Theodore M. Andersson. London, Viking Society for Northern Research, 2021. ISBN 978-1-914070-01-3 xxxiv, 175 s.
Í þessari bók eru fjórar biskupasögur þýddar á ensku, Hungrvaka, Páls saga, Oddaverjaþáttr (hluti yngri gerða Þorláks sögu) og Prestsaga Guðmundar góða. Þýðandinn, Theodore M. Andersson er íslenskum fræðimönnum að góðu kunnur. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um íslenskar miðaldabókmenntir, auk þýðinga. Andersson var kjörinn heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1987 og honum var veitt fálkaorðan 2018. Í inngangi sínum fjallar Andersson um hverja sögu fyrir sig í sérstökum kafla. Skrif hans eru til þess fallin að vekja áhuga og umhugsun. Hann dregur fram tengsl biskupasagnanna við önnur svið íslenskra miðaldabókmennta, svo sem Íslendinga sögur og konungasögur. Sérstaklega áhugaverðar eru athuganir hans á Oddaverjaþætti. Með rækilegri greiningu á frásagnaraðferð þáttarins kemst Andersson að þeirri niðurstöðu að Oddaverjaþáttr hafi orðið til sem munnleg saga á þrettándu öld og verið skeytt inn í Þorláks sögu undir lok aldarinnar. Andersson vekur athygli á því hversu innilegar persónulýsingar Páls sögu eru og bendi þar með til þess að höfundur Páls sögu hafi verið nákominn fjölskyldu Páls. Hann leiðir rök að því að Þorlákur Ketilsson, prestur og mágur Páls biskups sé höfundur sögunnar. Þýðingar Anderssons eru góð viðbót við aðrar nýlegar þýðingar á biskupasögum á ensku, Þorláks sögu helga í þýðingu Ármanns Jakobssonar og David Clark frá 2013, og Jóns sögu helga í þýðingu og umsjón Margaret Cormack og Peter Foote, 2021.
Þeir sem leggja stund á rannsóknir á norrænum miðaldatextum þurfa auðvitað að geta lesið þá á frummálinu. En þýðingar sem þessar opna fleirum leið að þessum ritum. Miðaldafræðingar sem ekki hafa norræn fræði sem sérsvið geta þá nýtt sér þau. Vandaðar þýðingar geta enn fremur kveikt áhuga stúdenta á því að kynna sér þetta tungumál sem ritin eru skrifuð á og gott fyrir byrjendur að hafa þýðingar við hendina. Þýðendurnir sem hér hafa verið nefndir eiga miklar þakkir skildar.
[fblike]
Deila