Húrra-húrra-húrra! Leikhúsin eru að opna aftur!
Á föstudagskvöld var frumsýnt í Borgarleikhúsinu leikritið Ein komst undan eftir breska leikritahöfundinn Caryl Churchill í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur og mjög góðri þýðingu Kristínar Eiríksdóttur.
Á sviðinu sitja þrjár fullorðnar konur á bekk í afgirtum garði og drekka te. Þær eru hafðar nafnlausar í íslensku gerðinni, trúlega af því að þær eru “fulltrúar” kvenna sem þekkjast og hafa gert það lengi en eru komnar á þann stað að þær eru byrjaðar að gleyma eða muna best það sem þær vilja ekki tala um.
Þær hafa ólíkar skoðanir á flestum málum en þó er enn hægt er að að tala um fugla og sjónvarpsseríur, búðir sem er hafa verið lagðar niður og börn sem hringja sjaldan. Þær tala hver upp í aðra, grípa fram í, tala en hlusta ekki og það verða mjög absúrd samtöl, sorgleg, sambandslaus og mjög fyndin. Og þær geta líka brugðið á leik, fíflast og tekið lagið. Þetta þríeyki er leikið af Kristbjörgu Kjeld, Margréti Guðmundsdóttur og Margréti Ákadóttur.
Þessar stórleikkonur búa til skýrar persónur í einræðum og stuttum samtölum en smám saman kynnumst við þeim. Kristbjörg á myrka fortíð, Margrét Guðmundsdóttir afhjúpar smám saman mikinn kvíða, þar á meðal við að fara út úr húsi, Margrét Ákadóttir er með áráttu-þráhyggjuröskun og plöguð af sjúklegum ótta við ketti. Allar eru vinkonurnar og borgarbúarnir raunar dauðhræddar við náttúruna og dýr; ketti, fugla, leðurblökur, mýs og rottur.
Ótalin er fjórða konan sem rýfur hið notalega teboð vinkvennanna þriggja og kemur óboðin inn í garðinn. Þessi kona er sú eina nafngreinda, hún heitir frú Jarrett, reynir að vingast við þríeykið sem lokar hana úti, þær vilja ekki sjá, heyra eða tala við hana, stugga henni burtu með eineltisviðmóti og láta eins og hún sé ekki til. En alltaf reynir hún aftur að ná athygli þeirra. Smám saman mýkjast þær svolítið og byrja að taka hana gilda en bara þegar þeim þóknast og ekki lengi í einu. Þær taka hana þó með í óborganlegt dans- og söngatriði.
Frú Jarrett er leikin af Sólveigu Arnarsdóttur, enn einni stórleikkonunni. Leikgervi hennar er öðruvísi en raunsæilegt leikgervi hinna. Frú Jarrett er í japönskum silkisloppi, með gríðarlegt afró-silfurhár.
Hún er boðberi hinna verstu tíðinda og flytur þau í fjórum einræðum. Þar lýsir hún tortímingu heimsins og skelfilegum örlögum mannkyns. Persónu frú Jarrett hefur verið líkt við Cassöndru, hofgyðjuna frá Trójuborg sem sá fyrir og sagði frá sönnum atburðum en hafði orðið fyrir þeirri bölvun að spádómum hennar var aldrei trúað. Hvíthærða nútímavölvan í bakgarðinum er bæði andstæða og hliðstæða við konurnar þrjár sem reyna að stugga henni frá sér.
Það var erfitt að móttaka hina hroðalegu heimsendaspá hennar og hefði kannski mátt undirstrika hann betur og aðskilja í sviðsetningunni, völvan flutti spá sína mjög framarlega á sviðinu með þríeykið í baksýn. Ræður hennar eru andstæða við tómlæti þeirra (og áhorfenda). Og í lok verksins, eftir kynngimagnaða viðvörun völvunnar um Dag reiðinnar yfirgefur hún garðinn án þess að stöllurnar reyni að hindra hana í því.
Ein kemst undan er magnað verk og afskaplega gaman að sjá það í flutningi þessara stórleikkvenna. Ég mæli með því!
Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson og Móeiður Helgadóttir
Búningar: Stefanía Adólfsdóttir
Tónlist: Garðar Borgþórsson
Hljóðmynd: Þorbjörn Steingrímsson
Leikgervi: Guðbjörg Ívarsdóttir
Aðstoðarleikstjóri: Halla Káradóttir
[fblike]
Deila