Hvað er elíta?

Í haust kom út skemmtileg og fróðleg bók eftir Gunnar Helga Kristinsson stjórnmálafræðing: Elítur og valdakerfi á Íslandi.  Hann telur að valdaelítur á Íslandi séu nokkrar – stjórnmálaelíta, viðskiptaelíta, fjölmiðlaelíta, listaelíta og fleiri, og niðurstaða hans er annarsvegar sú að þessar elítur séu fremur opnar – þær eru ekki nema að litlum hluta samsettar af fólki sem fæddist inn í þær – og að valdakerfið einkennist af margræði – að það sé ekki einhver ein elíta sem öllu ræður heldur séu elíturnar bæði margar og fremur lítill samgangur á milli þeirra.

Í fornleifafræði tölum við hiklaust um elítur þegar við finnum einhver efnisleg ummerki – einkum í klæðaburði og húsakynnum – sem eru ríkulegri en það sem gengur og gerist, einhver merki um að lítill hópur sé að nota auð sinn, tengsl og völd til að aðgreina sig með skýrum hætti frá meirihlutanum.[1]  Það er aðgreiningin fremur en ríkidæmið sem slíkt sem einkennir elítur og gerir þær áberandi.  Erkidæmið sem kemur fyrst upp í hugann er rómverska elítan.  Á tímum rómverska keisaradæmisins bjó efsta lag samfélagsins við yfirgengilegan auð og munað samanborið við alþýðu manna.  Villurnar sem rómverska elítan bjó í voru ekki bara miklu stærri en hús venjulegs fólks heldur einkennast þær af listrænum íburði. Flennistór mósaíkgólf hafa stundum varðveist fram á þennan dag en þær voru líka fullar af styttum, veggmyndum og bókrollum – skáldverkum og fræðiritum – sem bera kaupgetunni vitni en ekki síður þeim miklu kröfum sem þessi elíta gerði til meðlima sinna um menntun, listnæmi, smekk og fágun.  Rómverska elítan hafði sérstakt hugtak – otium – um þann lífsstíl sem henni fannst eftirsóknarverðastur.   Otium merkir næði frá skylduverkum sem nýtt er til háleitra viðfangsefna eins og að yrkja ljóð eða kryfja heimspekirit.[2]  Það er áhugavert að þó að rómverska elítan væri sannarlega yfirstétt, sem að stærstum hluta endurnýjaði sig sjálf, sem réð fyrir mestu af þeim auði sem fyrirfannst í Rómarveldi og sat að flestum embættum og valdastöðum sem máli skiptu í ríkinu, þá var hún ekki einráð.  Valdamestu menn ríkisins voru hershöfðingjarnir. Þeir stjórnuðu herfylkjunum og höfðu framan af flestir verið af gömlum rómverskum aðalsættum, en eftir því sem leið á keisaratímann varð algengara að þeir væru atvinnuhermenn, iðulega ættaðir úr skattlöndunum.  Sumir þeirra risu til æðstu metorða og urðu keisarar, en slíkir náungar lágu alltaf undir grun um að vera á einhvern hátt ómerkilegri – óvandaðri og ómaklegri – en kynbornir rómverskir aðalsmenn.  Í raun voru margir af herkeisurunum sprengmenntaðir menn, en við þá loddi ímynd hins fávísa sveitamanns, þeir voru taldir hrjúfir og illa að sér, boðflennur í veislum hinnar raunverulegu yfirstéttar.  Margt bendir til sjálfsmynd yfirstéttarinnar sem elítu, fólk sem taldi sig réttkomið til valda ekki bara af því að það hafði alltaf haft þau og átti alla peningana heldur af því að það væri í eðli sínu betra, vandaðra, heldur en annað fólk, hafi þróast og skerpst sem andsvar við vaxandi áhrifum herforingja sem komust til valda í krafti eigin hæfileika og með stuðningi herfylkjanna fremur en hinnar hefðbundnu yfirstéttar.  Hugmynd rómversku elítunnar um eigin yfirburði byggðist á að hún hefði menntun og siðfágun, smekk fyrir listum og þekkingu á vísindum, og hefði vald á allskonar háttvísi – orðfæri og talsmáta, sundurgerð í fatnaði, flóknum reglum um samskipti í veislum og á torgum – nálega endalausum lista af atriðum sem vörðuðu hegðun og framkomu og aðgreindu hana frá öllum öðrum.  Að tileinka sér allt þetta var í raun ómögulegt fyrir önnur en þau sem voru fædd inn í elítuna – alveg sama hvað annað fólk lagði á sig, það sást alltaf á því að eitthvað vantaði upp á.  Elítan var eftir þessu lagskipt – það var til eitthvað sem mætti kalla fínasta fínt – fólkið af elstu og fínustu ættunum, sem átti mest af elsta peningnum, kunni öll skáldin utanbókar og varð aldrei hált á hegðunarreglunum.  Og ef það braut þær þá var það vísvitandi.  Í ytri hring var fólk sem taldi sig sjálft til elítunnar, meðal annars fínasta fólkið í borgum skattlandanna, sem hafði allt þetta næstum því en vantaði samt alltaf eitthvað smá sem kom upp um það og sýndi að það var ekki alveg ekta, ekki 100%.  Fólkið sem skynjaði slíkan mun taldist örugglega til elítunnar – bæði þau sem voru með allt á hreinu og hin sem voru að rembast. En fólkið sem skynjaði ekki muninn stóð utan elítunnar.   Þetta er lykilatriði: elítan þekkir sig sjálf, hún ein er dómbær á hvaða fólk getur talist til hennar.  Fólk sem stendur utan við elítuna þekkir ekki reglurnar og veit ekki vel hvað þarf til að fá að vera með. Það veit það helst að það á ekki séns.

Öll samfélög hafa yfirstétt, hóp fólks sem gjarnan giftist innbyrðis og hefur mest af völdunum, sér í lagi þau sem teljast vera formleg.  En það er misjafnt að hversu miklu leyti yfirstéttir hafa einkenni elítu.  Elítur eru valdahópar sem sitja ekki alveg einir að kjötkötlunum og finnst þeir þurfa að styrkja tilkall sitt til valda með menntun og siðfágun.  Það þarf hvorki menntun né siðfágun til að hafa völd en elítur trúa því, og vilja telja öðrum trú um, að menntun og siðfágun tryggi gæði valdanna og að það fari best á því að aðeins þau sem eru fædd til menntunar og siðfágunar – elítan – fari með völdin.  Elítur eru einmitt hópar fólks sem standa til hliðar við hin raunverulegu valdakerfi.  Þær geta verið beinlínis í samkeppni við aðra hópa sem hafa völd í krafti einhvers annars – herforingjar og kúltúrlausir kapítalistar eru klassísk dæmi – en þær geta líka verið einskonar félagslegt bakland valdakerfisins.   Ansi fyrirferðarmikill hluti heimsbókmenntanna fjallar um elítur af þessu tagi – elítur sem eru mannaðar að stærstum hluta af fólki sem hefur ekki völd en lifir og hrærist í sama heimi og þeir sem völdin hafa, fólk sem hefur skoðanir og sambönd. Bókmenntirnar snúast undantekningalítið um hvað gerist þegar meðlimi elítunnar skortir einhverja af höfuðdyggðunum sex: ættgöfgi, auð, menntun, siðfágun, völd eða gæfu.  Það getur verið kómískt þegar auðugt fólk skortir siðfágun eða menntun og það getur verið harmrænt þegar menntað fólk og siðfágað skortir auð og það getur verið epískt þegar fólk með völd skortir allar hinar dyggðirnar fimm. Upp úr þessum samsetningum er hægt að velta sér svo að segja endalaust og um þau fjallar alveg lygilega mikið af því afþreyingarefni sem fyrir okkur er borið.  Elítur stjórnar ekki alltaf öllu en þær hafa mjög mikil áhrif á hvernig við horfum á heiminn og höldum að hann sé.  Elíta snýst í raun miklu meira um ímynd heldur en völd, þó að vitaskuld sé ímyndarsköpun elítunnar leið hennar til að fá völd og halda þeim.  Elítan er hópur sem lítur á sjálfan sig sem úrval – úrvalsfólk – og hefur flóknar og torræðar aðgangstakmarkanir sem útilokar næstum alla aðra.  Það er útilokunin sem gerir elítuna að elítu.

Elíturnar sem Gunnar Helgi greinir í bók sinni eru ekki elítur í þessum skilningi. Það má segja að það sé einmitt það sem hann sýnir fram á – að þeir hópar sem mestu ráða í íslensku samfélagi hafa ekki einkenni elíta.  Ef elítur eru hópar sem byggja sjálfsskilgreiningu sína á að útiloka aðra þá eru íslensk valdakerfi greinilega ekki mjög elítísk.  En Gunnar Helgi notar hugtakið í víðari merkingu. Fyrir honum, og í þeirri grein stjórnmálafræðinnar sem hann vinnur innan, eru elítur einfaldlega þeir hópar sem hafa völdin hverju sinni.  Í þessum skilningi má segja að hvaða kimi samfélagsins sem er hafi sína elítu. Það má tala um læknaelítu og rafvirkjaelítu og þá vita allir hvað við er átt: það eru þeir einstaklingar sem telja sig standa fremsta og vera best til fallna að leggja línurnar um hvernig hlutirnir eigi að vera og hvernig taka eigi á málunum.  Svoleiðis fólk hefur að því er virðist náttúrulega tilhneigingu til að rotta sig saman og styðja hvert annað. Það deilir sýn á hvaða kostir eru nauðsynlegir til að stjórna – landinu, félaginu, vinnustaðnum – og því fylgir þá að eitthvert annað fólk er þar með útilokað frá að vera með í því.  Meira þarf ekki til og fleira þarf ekki að hanga á spýtunni.  Svona elítur eru ekki háðar því að endurnýja sig sjálfar, þær geta verið opnar fyrir öllum sem hafa þá kosti sem nauðsynlegir þykja, og þær þurfa ekkert endilega að tilheyra einhverri víðtækari elítu.

Það breytir því hins vegar ekki að til er á Íslandi elíta af öðru tagi en sú sem Gunnar Helgi fjallar um.  Eitt er nú það að til er fólk sem telur sig sjálft tilheyra Elítunni með stóru Ei og trúir á tilvist hennar, fólk sem telur sig vera í úrvalshópi sem geri þau sérstök og sérstaklega vel til þess fallin að ráða.  Þetta geta verið einstaklingar í valdastöðum en ekki síður er þetta fólk sem er ekki í neinum ákveðnum embættum eða formlegum valdastöðum en hefur, eða telur sig hafa, aðgang að hásölum valdsins.  Þetta fólk þekkir hvert annað þegar það hittist á sinfóníutónleikum en það þarf ekki að hafa nein önnur einkenni hóps og væri líklega erfitt að kortleggja hann nákvæmlega.  Það getur verið að til sé fólk sem myndi gangast við því að vera elíta af þessu tagi ef það væri spurt, en hin eru örugglega fleiri sem myndu afneita því en telja sig samt til elítunnar í hjarta sér.  Þó hún sé til í þeim skilningi að það finnst fólk sem telur sig tilheyra henni þá held ég ekki að þessi elíta skipti miklu máli og rannsókn Gunnars Helga virðist staðfesta það.  Að minnsta kosti er ekkert sem bendir til að hún hafi sem hópur nein sérstök völd.  Mikilvægi þessarar elítu felst í rauninni í því einu að tilvist hennar staðfestir í hugum margra hugmyndina um annarskonar og miklu áhrifameiri elítu, sem hafi ekki bara mikil völd heldur miklu meiri en viðurkennt er í opinberri umræðu.  Gunnar Helgi kveður ekki fast að orði með það en maður fær á tilfinninguna að það séu slíkar grunsemdir sem hann vill slá á. Bókin hefst á umfjöllun um pópúlisma og pópúlískar hugmyndir um elítur, og slíkar hugmyndir eru léttvægar fundnar en koma svo ekki mikið meira við sögu eins og málið sé afgreitt með því að benda á að þær eigi ekki við rök að styðjast.

Elítur og valdakerfi á Íslandi eftir Gunnar Helga Kristinsson.

Í hópunum sem Gunnar Helgi rannsakar er fólk sem hefur skýrt umboð til sinna valda.  Það er annaðhvort beinlínis kosið af þjóðinni, skipað í embætti af hinum kosnu fulltrúum, fólk sem stýrir stórum fyrirtækjum, er í forsvari fyrir hagsmunasamtök, eða telst vera áhrifafólk vegna orðspors síns – semsé opinberar persónur, fólk sem er sýnilegt í umgengni sinni við valdið.  Þetta er einmitt ekki fólkið sem áhyggjur þeirra sem gruna elítuna um græsku beinast að.  Áhyggjurnar beinast að því að það sé til sjálfskipaður hópur fólks sem hefur ósýnileg völd, hópur sem skilgreinir sig sjálfur og hefur áhrif á bak við tjöldin.  Það er einmitt umboðsleysi elítunnar sem veldur því að hún er tortryggð.  Pópúlískar hugmyndir ganga gjarnan út á að til sé fölsk elíta, elíta sem sé full af fólki sem hefur fengið inngöngu í hana á röngum og annarlegum forsendum.  Fólk sem á ekki skilið að hafa áhrif en hefur þau af því að það komst einhvern veginn, ómaklega örugglega og líklega óheiðarlega, í raðir þeirra sem hafa áhrif.  Elítan er samkvæmt þessum hugmyndum ekki alveg það sama og valdakerfið – samkvæmt þeim eru til völd utan elítunnar og hún getur verið samsett að stærstum hluta af valdalitlu fólki – og það er einmitt það sem gerir hana bæði grunsamlega og hlægilega.   Allt grín um merkilegheit og snobb byggir á því að fólk sé ekki í raun og veru það sem það þykist eða þráir að vera.  Rembingur er hallærislegur og hjákátlegur og það finnst bæði þeim sem telja sig til hinnar sönnu elítu og hinum sem standa klárlega utan við.  Þessir tveir hópar eru í raun sammála. Þeir telja báðir að það sé til hópur sem sé kominn óverðskuldað til áhrifa, fólk sem álítur sig þess umkomið að dæma um hvað sé rétt og rangt og sem telur sig þar af leiðandi betra en annað.  Þessi hópur er í raun alveg óræður og hann getur auðveldlega rúmað – þ.e. í hugum þeirra sem trúa á tilvist hans – fólk með mjög ólíkar skoðanir og ólík tengsl við völd, meðal annars, og raunar er þetta sérstakt einkenni á þessari hugmynd, engin tengsl, en samt, á einhvern djöfullegan hátt, áhrif.  Eina skilgreiningin sem hægt er að koma á þessa hugmynd er að hún sé um hóp sem sé orðinn óeðlilega stór, hafi hreiðrað um sig í kerfinu og hafi í krafti þeirra aðstöðu óeðlilega mikil áhrif.  Fólk sem trúir á tilvist þessa hóps og áhrif hans telur ekki að hann sé elíta, a.m.k. ekki sönn elíta, en það telur að hópurinn sjálfur líti á sig sem elítu og hafi tekið sér völd eins og elíta.

Margt í þessu má auðveldlega afskrifa sem óra og vænisýki en þessar hugmyndir spretta ekki af engu og þær endurspegla raunveruleika sem hefur áhrif á það hvernig við skiljum valdakerfið í samfélagi okkar.   Samfélag okkar er nefnilega ekki sett saman af þessum litlu valdaelítum sem Gunnar Helgi fjallar um og svo öllum hinum.  Ástæða er til að ætla að valdaelítur Gunnars Helga séu undirmengi í miklu stærri hópi sem einokar aðgang að þeim og útilokar stóran hluta þjóðarinnar.  Valdaelíturnar endurnýja sig ekki sjálfar en þær eru eingöngu endurnýjaðar úr þessum hópi.   Hvort hann endurnýjar sig eingöngu sjálfur er mikilvægt rannsóknarefni.

Söguleg greining Gunnars Helga er í aðalatriðum sannfærandi. Hann fjallar um hvernig elíturnar hafa jafnt og þétt, og einkum hin síðari ár, orðið opnari og margræði aukist.  Þetta er auðvelt að fallast á miðað við þær forsendur sem gefnar eru.  En saga Gunnars missir sjónar á hinni eiginlegu elítu – í þeirri mynd sem mér sýnist fyrirbærið hafa – einhvern tímann á fyrri hluta 20. aldar.  Á seinni hluta 19. aldar var til á Íslandi hefðbundin elíta.  Í þeim litla hópi fólks höfðu karlarnir gengið í lærða skólann og Hafnarháskóla, margir ílentust ytra og hinir sátu að þeim tiltölulega fáu embættum sem til var að dreifa hér heima – prestar, sýslumenn, læknar, kennarar lærða skólans.  Þessi litli hópur skilgreindi sig í vaxandi mæli á þjóðernislegum grunni – í andstöðu við danska og danskholla embættismenn og danska kaupmenn – og hafði til þess stuðning heldur breiðari hóps sem í voru menntaðir og upplýstir bændur.   Gagnvart Dönum var þessi elíta rammíslensk en gagnvart hinni rammíslensku þjóð var hún fulltrúi alþjóðlegrar siðmenningar, skynseminnar og nútímans.   Hún menntaði sig og fágaði í því sem íslenskast var – tungumálið, skáldskapurinn og fornsögurnar – og gerði sig þannig að sérfræðingum í því að vera Íslendingur sem venjulegt fólk gat ekki alveg keppt við.[3]  En þrátt fyrir ríkan aðgreiningarvilja og hofmóð gagnvart almúganum var þessi elíta heilt yfir trú hugsjónum um skynsemi og upplýsingu, og því viðhorfi að samfélagið verði betra ef venjulegt fólk fær að mennta sig.  Sú hugsjón átti víða hljómgrunn og má segja að hún hafi slegið í gegn á ártugunum í kringum aldamótin 1900.   Til viðbótar við menntaða og upplýsta bændur kom nú menntað og upplýst fólk í bæjunum sem taldi sig eiga bæði erindi og rétt á að taka þátt í stjórnmálum og taldi sig jafnframt eiga skilið betri lífskjör en alþýðan bjó við.   Það er engin tilviljun að fyrstu fjöldafélagshreyfingar bæjanna voru bindindisfélögin þar sem almennar manngildishugsjónir fóru saman við elítískar hugmyndir um sjálfsaga og vandaða lífshætti.[4]  Fólkið sem gekk í bindindisfélögin varð ekki þar með að elítu en það aðgreindi sig frá ímyndinni um hinn hömlulausa og dyggðasnauða almúga, en ekki síður frá helsta veikleika íslenskra höfðingja, brennivínsástinni.  Meinlæti eru einföld (og ódýr) leið til að marka sér sérstöðu og þau eru valdeflandi: fólk sem hefur vald yfir fýsnum sínum er dyggðugra en fólk sem hefur það ekki, og á dyggðunum má byggja tilkall til áhrifa og valda.  Tangarsókn millistéttarinnar inn á valdsvið hinnar hefðbundnu elítu hefur byggst á dyggðum, og þá fyrst og fremst dyggðugum viðhorfum.   Grundvöllurinn var og er almenn menntun.  Menntun stuðlaði heilt yfir að aukinni verðmætasköpun og bættum lífskjörum en með því að mennta sig gat venjulegt fólk líka fengið sjálfstæða viðurkenningu á verðleikum sínum.  Það var ekki lengur á valdi höfðingjaelítunnar að skilgreina hvað þurfti til að mega hafa áhrif.  Á fyrri hluta 20. aldar gat fólk sem skorti ætt og auð en hafði menntað sig í vaxandi mæli fengið rödd í samfélaginu, fengið störf hjá hinu opinbera, komist í álnir og komist til áhrifa.  Mörkin milli þessarar vaxandi millistéttar og hinnar hefðbundnu elítu voru strax um miðja 20. öld orðin óskýr.  Það er einkum tvennt sem kom til.  Annarsvegar hafði stjórnkerfið þanist út og það hafði einfaldlega í för með sér að það þurfti að nýta krafta fleiri en þeirra sem voru borin til auðs og valda.  Hins vegar var, þegar um aldamótin 1900 kominn nýr hópur upp við hlið hinnar hefðbundnu elítu, embættismanna og landeigenda.  Í honum voru fjármagnseigendur – innlendir útgerðarmenn og kaupmenn.  Það er eitt af undrum íslenskrar stjórnmálsögu síðustu hundrað ára hvernig bandalag þessara ólíku hópa hefur haldið og heldur enn, en það hefur kostað hina hefðbundnu elítu dýrt á ímyndarsviðinu.  Íslenskir fjármagnseigendur hafa á sér þá ímynd að vera óheflaðir, ribbaldar jafnvel, fólk sem getur sér orð fyrir kænsku og frekju, en er á engan hátt fyrirmyndir hvað varðar góða siði og telur göfuglyndi og fágun vera veikleika.  Það er ekkert sjálfkrafa samasemmerki milli íslenskrar yfirstéttar og menningarlegs auðmagns.  Í staðinn eru það fulltrúar menntunarinnar sem hafa tekið að sér það hlutverk að skilgreina hvað sé gott og vont, rétt og rangt, réttlátt og óréttlátt.  Við sitjum þannig uppi með tvær stórlega laskaðar elítur.  Önnur er elíta án auðs og ættar og hin er elíta án háttvísi og siðfágunar.  Hvorug getur flokkast sem elíta í þeim skilningi sem ég hef hér verið að tala fyrir en samanlagt gera þær það, sér í lagi ef málið er skoðað frá sjónarhóli þeirra sem hvorugum hópnum tilheyra.

Mér sýnist því greining Gunnars Helga missa af tvennskonar skiptingu sem hefur áhrif á hvernig við skiljum valdadreifinguna í samfélagi okkar.  Annars vegar liggja átakalínurnar í íslenskum stjórnmálum, átökin um raunveruleg völd, á milli þessara tveggja hópa: fólks sem hefur völd í krafti auðs og fólks sem hefur völd í krafti menntunar.  Þeir skipta sér þvert á þær valdaelítur sem Gunnar Helgi greinir. Fræða- og listaelíturnar eru líklega að stærstum hluta menntunarmegin, fjölmiðlaelítan að miklu leyti líka (fyrir utan eigendur fjölmiðla), á meðan viðskiptaelítan er að stærstum hluta auðmagnsmegin en hinar eru skiptari.  Það væri áhugavert að vita að hversu miklu leyti auðmagnshópurinn endurnýjar sig sjálfur og hversu stór hluti hinna er í raun i þjónustu hans fremur en lýðræðis-, réttlætis- og upplýsingagilda.   Hin skiptingin er ekki síður mikilvægt rannsóknarefni.  Það er skiptingin milli þessara hópa og allra hinna, fólksins sem hefur ekki nein völd.  Með því að draga hringinn þröngt um þá tiltölulegu litlu hópa sem hafa sýnileg völd, sem virðast hver um sig opinn fyrir nýliðun og ekki tiltakanlega tengdur hinum, þá er brugðið upp mynd af samfélagi sem einkennist af margræði.  Það þýðir hins vegar ekki að allir eigi möguleika á að komast til áhrifa í samfélagi okkar.  Rannsókn Gunnars Helga fjallar ekki um það, en það er ástæða til að ætla að fólkið sem mannar valdaelíturnar sem hann skoðar sé ekki dregið jafnt úr öllum kimum samfélagsins heldur einmitt fyrst og fremst úr þeim hópi sem hefur elítueinkenni.  Það lætur nærri að það megi líta á þennan hóp sem samsettan af millistétt og hástétt (hvernig svo sem þær væru skilgreindar) en málið er ekki alveg svo einfalt því þó það sé örugglega fylgni milli tekna og elítueinkenna þá er það ekki auður eða stétt í efnahagslegum skilningi sem ræður úrslitum. Það er til fólk með lágar tekjur sem samt getur haft áhrif í krafti menntunar sinnar, viðhorfa og siðfágunar og það er til fólk með háar tekjur sem upplifir sig áhrifalaust vegna þess að það skortir siðfágun og „rétt“ viðhorf.

Sem beinir sjónum okkar aftur að þeim pópúlísku hugmyndum um elítur sem Gunnar Helgi tæpir á en tekur ekki með í sinn elítureikning.  Jarðveg fyrir slíkar hugmyndir er helst að finna hjá fólki sem telur sig finna fyrir því að það hafi ekki aðgang að kjötkötlunum á sama hátt og aðrir.  Það getur til dæmis verð fólk sem hefur tekjur og lífskjör sem segir því að það sé vel stæð millistétt en upplifir sig samt áhrifalaust, og jafnvel að það hafi verið snuðað um þau áhrif sem það taldi sig áður hafa haft í gegnum horfin fyrirgreiðslukerfi.   Fyrir mörgum er þetta eins og glerþak: samfélagssáttmálinn lofar jöfnum tækifærum en margt fólk kemst að því að það hefur í raun ekki sömu tækifæri og annað án þess að fyrir því séu neinar sýnilegar ástæður (eins og í gamla daga þegar fólk mátti ekki kjósa ef það var fátækt eða kvenkyns).  Ástæðurnar eru nefnilega, að hluta til að minnsta kosti, að til þess að hafa völd og áhrif í samfélagi okkar verður fólk að tileinka sér viðhorf, fas og háttsemi sem gerir það gjaldgengt í hópi þeirra sem geta haft áhrif.  Þetta er elítuþröskuldur.  Hann er ekki búinn til úr neinu nema hugmyndum.  Það er búið að fjarlægja hinar formlegu hindranir – ætt, fasteign, kyn – en samt eru raunverulegar hindranir sem koma í veg fyrir að allt fólk eigi sama séns.   Svona þröskuldar eru að vísu út um allt, ekki síst innan hins breiða hóps sem á möguleika á áhrifum (og um þá er mikið fjallað), en gagnvart því fólki sem stendur utan við hafa slíkir innanhúsþröskuldar litla þýðingu.  Við þeim blasir hár útidyraþröskuldur sem virðist viðhaldið af elítu, fólki sem telur sig útvalið til að ráða og hefur komið upp ósýnilegum, óskiljanlegum og ósanngjörnum aðgangstakmörkunum.

Það er er ekki endilega þannig að það séu stórir hópar fólks sem þrá inngöngu í þessa meintu elítu.  Þau sem standa utan við kæra sig sennilega flest kollótt, og mörg hafa fyrirlitningu á þeim sem snobba fyrir elítunni, en þau geta engu að síður haft áhyggjur af því að elítan hafi óeðlilega mikil völd og áhrif.  Þar liggur hin meginrót hinna pópúlísku hugmynda um elítuna.  Það er hugmyndin um að elítan sé ekki rétt komin til valda, að hún sé fölsk.  Þar blandast inn í fornar og þrautseigar hugmyndir um réttmæta valdhafa – sterka leiðtoga, kynborin stórmenni – hugmyndin um að völd séu best komin í litlum hópi karla sem eru fæddir til valda og vita hvað þeir eru að gera.  Frá þessum sjónarhóli er áminnst tangarsókn millistéttarinnar ískyggileg þróun, þar sem allskonar fólk hefur komist til áhrifa og myndað elítu án þess að það sé skiljanlegt þeim sem standa utan við hvaða mannkosti sú elíta hefur til að bera. Fyrir þeim lítur það út eins og hún hafi skilgreint það sjálf og haldi skilgreiningunni fyrir sig.

Það hefur orðið umbylting á samfélagi okkar á síðustu einni og hálfri öld.  Frá því að nánast öll völd og áhrif í samfélaginu voru í höndum pínulítillar elítu – örugglega minna en 1% af þjóðinni – hefur orðið sú gríðarlega breyting að völd og áhrif eru opin miklu breiðari hópi – ég giska á þriðjung en það gæti verið 20% eða 40% eða helmingur jafnvel.  Hvert hlutfallið er skiptir ekki höfuðmáli í þessu samhengi: eftir sem áður er mjög stór hluti samfélagsins sem hefur ekki (eða telur sig ekki hafa, sem kemur út á eitt) aðgang að áhrifum.  Ég hef talað hér um völd og áhrif en fyrir þau sem standa utan við snýst málið fyrst og fremst um að hafa áhrif á eigið líf, geta notið sama frelsis og aðrir til að móta stefnu þess.  Fyrir mörg er það frelsi takmarkað, tækifærin fá og mistökin að sama skapi dýrkeypt.  Fyrir mörg önnur eru þetta ekki vandamál.

Það hefur náðst jöfnuður fyrir mjög stóran hluta samfélagsins – miklu stærri en nokkurn tíma áður í sögu mannkyns – og makráð ánægja ríkir með þennan góða árangur og vantrú á að það sé hægt eða nauðsynlegt að gera betur.  Jöfnuður er góður í hófi gæti verið kjörorð samfélags okkar. Ef hann verður of mikill þá hættir hann að vera eins eftirsóknarverður fyrir þau sem hafa nóg af honum.  Sama mætti segja um margræði.  Fyrst það hefur aukist svona mikið er það þá ekki bara fullgott?  Rannsókn Gunnars Helga sýnist mér vera hluti af þeirri orðræðu sem vill beina sjónum að hinum frábæra árangri vegna þess að í raun sé nóg að gert, að svo margt fólk hafi aðgang að völdum að það geti ekki skipt máli hvort einhver séu útilokuð eða hvað þau eru mörg.

Tvennt er við þetta að athuga.  Í fyrsta lagi er alltaf grunsamlegt þegar elítur komast að því að ástandið með þær við stjórnvölinn sé eins gott og réttlátt og biðja má um.  Það bendir til að komið sé að því að endurreikna markmiðin því annars köllum við yfir okkur hitt vandamálið sem þegar er byrjað að örla á.  Uppgangur pópúlista í löndunum í kringum okkur er til marks um að fjöldi fólks í hinum iðnvæddu samfélögum, sem hafa náð miklum árangri í að bæta lífskjör og réttlæti, telur sig jaðarsett, snuðað á óréttmætan og óskiljanlegan hátt um völd og áhrif sem það ætti með réttu að hafa.  Er nógu mikið réttlæti og nógu mikill jöfnuður í íslensku samfélagi til að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu?  Ég held ekki.

Niðurstaða mín er sú að þó að það sé hægt að fallast á það með Gunnari Helga að það sé ekki til neitt í íslensku samfélagi sem kalla megi hefðundna elítu á borð við þá rómversku sem ég lýsti hér að ofan, þá er samt elítuþröskuldur sem útilokar margt fólk frá því að eiga möguleika á völdum eða áhrifum.  Fólkið sem er innanvið er ekkert endilega auðugt eða valdamikið en það á möguleika og nýtur ýmissa gæða (einkum í formi viðurkenningar á manngildi). Þetta er fólkið sem mannar elíturnar sem Gunnar lýsir.  Fólkið sem stendur utan við á ekki sömu möguleika.  Það sem aðgreinir er ekki auður sem slíkur (þó hann komi mikið við sögu) heldur hvort fólk hefur tileinkað sér viðhorf og gildismat, fas og framkomu sem auglýsir að það eigi rétt á áhrifum.  Fyrir þau sem hafa ekki tileinkað sér þessi elítueinkenni eru þau bæði óræð og óskiljanleg.  Eitt af því sem mjög margt fólk á til dæmis erfitt með að skilja er af hverju, úr því að það er hugsana- og skoðanafrelsi, sumar skoðanir teljast ómerkilegri en aðrar.  Pópúlískar hugmyndir eru í raun bara hugmyndir sem standast ekki gæðakröfur elítunnar – kröfur um skynsemi, samkvæmni og elegans.  Fólk sem hefur slíkar hugmyndir skynjar að það er ómerkilegra í augum þeirra sem hafa tekið sér það vald að ákveða hvað sé merkilegt og hvað ekki.  Þetta er elsta elítutrixið í bókinni.  Þannig koma elítur undir sig völdum: með því að skilgreina og aðgreina, flokka og meta og léttvæg finna þau sem standa utan við.   Þegar síðan fólkið sem aðgreinir segir: Sjá, það er engin elíta! þá er ekki nema von að illar grunsemdir skjóti rótum.

 

[1] Tobias L. Kienlin 2012, ‘Beyond elites: An introduction.’ T.L. Kienlin & A. Zimmermann eds. Beyond elites. Alterntives to Hierarchical Systems in Modelling Social Formations 1-2, Bonn: Verlag Dr. Rudolf Habelt, s. 15-32.

[2] Jones, A.H.M. 1964, The Later Roman Empire 284-602. A Social Economic and Administrative Survey, Oxford: Basil Blackwell, 2. bindi, s. 523-62. Toner, Jerry P. 1995, Leisure and Ancient Rome, Cambridge: Polity.  Fagan, Garrett G. 2010, ‘Leisure.’ D.S. Potter ed. A Companion to the Roman Empire, Wiley-Blackwell, s. 369-84.

[3] Guðmundur Finnbogason 1933, Íslendingar. Nokkur drög að þjóðarlýsingu, Reykjavík: Menningarsjóður, og Sigurður Nordal 1942, Íslenzk menning 1, Reykjavík: Mál og menning, eru skýr dæmi um hvernig er hægt að hafa áhrif með því að skilgreina.

[4] Hrefna Róbertsdóttir 1990, Reykjavíkurfélög. Félagshreyfing og menntastarf á ofanverðri 19. öld, Ritsafn Sagnfræðistofnunar, Reykjavík. Nanna Þorbjörg Lárusdóttir 2016, ‘Góðtemplarareglan á Íslandi.  Orð, athafnir og áhrif á íslenskt samfélag.’ Saga 54(1), s. 13-54.

Um höfundinn
Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson er prófessor í fornleifafræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila