Hlaðvarp Engra stjarna #18: Ása og Paradís

Vart gerist langra skýringa þörf þegar að þýðingu og hlutverki Bíó Paradísar kemur í kvikmyndamenningu í höfuðborginni. Í vetur hyggst Hlaðvarp Engra stjarna beina sjónum reglulega að starfsemi bíósins, heilsa upp á aðstandendur og forvitnast um það sem í gangi er, auk þess sem framtíðin verður hleruð og spurt hvað væntanlegt sé og helst megi greina á sjóndeildarhringnum. Það er Ása Baldursdóttir, dagskrárstjóri Bíó Paradísar, sem mun vera hlaðvarpinu innan handar og standa bíóvaktina með okkur. Ása Baldursdóttir – þessi tilvonandi FVH Engra stjarna [Forgangsvinur Hlaðvarpsins] – er einmitt gestur þáttarins að þessu sinni. Víða er komið við en Kvikmyndahátíðin í Cannes er þó í brennidepli og hugmyndin um hátíðahámáhorf er kynnt til sögunnar. Vikið er að Kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs og Ölmu eftir Kristínu Jóhannesdóttur. Að lokum skera Björn Þór og Ása úr um 90s deiluefnið Oasis v. Blur.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþætti Engra stjarna og gerast áskrifandi að hlaðvarpinu á Spotify, iTunes og öðrum hlaðvarpsveitum.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila