[cs_text]

Skrif þessi byggja á frumathugun minni á lífi, ímyndum og hugverkum skyggnra kvenna á Íslandi sem fæddar voru undir lok 19. aldar og í upphafi 20. aldar: kvenna sem stunduðu miðilsstörf á uppgangstíma andatrúar á Íslandi. Grein þessi bætir úr sárri vöntun á heildstæðri fræðilegri umfjöllun um skyggnar konur á Íslandi. Með því að birta ályktanir athugunar minnar hér, er tryggt að hluti þeirra fjölmörgu forvitnilegu flata sem eru á lífi skyggnra kvenna, verði aðgengilegir almennum lesendum. Skrifunum er ekki ætlað að vera tæmandi umfjöllun um skyggnar konur á Íslandi, heldur er um að ræða hugvekju um þessar merkilegu konur Íslandssögunnar, sem kváðust sjá í þennan heim og annan.

Rannsóknir liggja fyrir um skyggnar konur á Englandi á Viktoríutímabilinu, þar sem  staða þeirra er skilgreind út frá kyni/kyngervi, völdum og spíritismanum.[1] Hérlendis hefur skyggnu fólki hins vegar  verið gefinn lítill gaumur á fræðilegum vettvangi. Þær rannsóknir sem tekið hafa til miðilsstarfa á Íslandi hafa fyrst og fremst fjallað um spíritisma s.s. á rannsóknarvettvangi dulsálfræðinnar.[2] Enginn skortur er hins vegar þegar kemur að almennum heimildum um íslenskar skyggnar konur og karla og dulsýnir þeirra, sem liggja öðru fremur í endurminningaskrifum og viðtalsgreinum, sem hér er vísað til.[3]

Þann 19. ágúst árið 1922 ferðaðist hin 14 ára gamla Margrét Jónsdóttir frá Öxnafelli í Eyjafirði, á smáum dökkbrúnum loftbelg, skreyttum með gulum blómstrandi rósum. Inn í belgnum stirndi á nýþvegnar glerflöskur, lyfjaflöskur, í morgunsólinni, innan hvítmálaðra veggjanna. Belgurinn reis upp, upp, eins og biðukolla í norðangolunni, uns fjörðurinn hvarf henni sjónum, og við tóku myrkrabelti, ljósbelti, skóglendi og dýramergð – og bankastjórinn Tryggi Gunnarsson (f. 1893 – d. 1909.),  sem ku hafa verið mikill dýravinur í lifanda lífi. Þessa ferð skráði séra Jakob Kristinsson eftir vitnisburði Margrétar, í vasabók sína, þar sem hann var staddur á heimili hennar, daginn eftir lofbelgjaferðina yfir Eyjafjörðinn og inn í óravíddirnar: „ég var sannfærður um, að hún mundi aldrei skýra frá nokkru úr dulrænni reynslu sinni, nema því einu, sem hún væri viss um að væri sannleikur,“ skrifaði Jakob. Að þeirri sömu staðföstu sannfæringu bjuggu ótal Íslendingar, sem heyrðu á dulsýnir Margrétar næstu áratugina, að Margrét segði það eitt: „sem hún væri viss um að væri sannleikur.“

Margrét frá Öxnafelli bjó að hugarsýn sem var eins forn og  íslensk  þjóðmenning; hún bjó að dulsýn. Sú sýn byggir á hæfileikanum til að eygja framtíð, fortíð, látnar lífverur, kynjaverur, trúarheima, landslag, víddir handan vorrar víddar, og fleira það sem slíkir hugir fá séð. Dulræn sýn var löngum álitin ganga í erfðir hér á landi; dulrænir hæfileikar er leyndust í litningum næmra manna, er ljáðu þeim skynjun umfram aðra menn.[4] En svo voru það líka konurnar og karlarnir sem bjuggu yfir lærðri þekkingu á því hvernig skyggnast mætti inn í aðrar tímavíddir, með draumaráðningum og bollalestri – eins og hún langalangamma mín hún Vilborg Magnúsdóttir (f. 1898 – d. 1983) er bjó á Skólavörðustíg 20A, sem las framtíðina í bláteinóttum postulínsbollum.[5]

Dulrænar sýnir birtust ásjáendum sínum (skyggnum/næmum mönnum) í formi mynda, tákna, tilfinninga, tónlistar, nærveru, ljóss, skugga og lita – í vöku þeirra eða draumi. Síðan miðluðu þeir forspáu Íslendingar sýnum sínum með mæltu og rituðu orði í gegnum aldirnar, svo úr urðu íslenskar dulsagnir: „Hún sagðist hafa séð látinn mann inn á hótelherberginu, standa við rúmstokkinn um miðja nóttina. Daginn eftir heyrði hún að maður hafði hengt sig inn á herberginu skömmu áður,“ var sagt um upplifun langaömmu minnar Guðrúnar Antonsdóttur (f. 1902 – d. 1985).[6] Hið ritaða og mælta orð var ekki eina birtingarmynd dulsýnna Íslendinga, því sumir skyggnir menn brúkuðu líka leikmuni og leikara, aðrir teikningar og enn aðrir tónlist: „enginn efi leikur á að þeir sem framkvæma söng og músik eru innblásnir af krafti frá æðri verum. Ég nota þessvegna alltaf tónlistina og sönginn, áður en ég byrja að tala við fólkið, sem til mín kemur,“ skrifaði ein landsþekkt skyggn kona.[7]

Skyggnir aðilar og spádómskerlingar- og karlar voru svo ríkur hluti af þjóðinni, að varla er hægt að tala um það fólk sem sérlega sérstætt.[8] Af því sögðu, þá voru á meðal þeirra skyggnu, einstaklingar sem höfðu atvinnu af því að eygja hið hulda, og tóku fyrir það greiðslu. Það er sumsé munur á þeim skyggnu aðilum sem skröfuðu um handanheima í návist kunningja og vandamanna í eldhúskrókum, og þeirra rammskyggnu sem að segja má stigu á svið og deildu þar reynslu sinni af handanheimum. Einstaklingar sem þáðu þóknun fyrir skyggnilýsingar sínar, grundvölluðu eina gamalgrónustu atvinnustétt Íslendinga; skyggnu spádómsstéttina. Það sem vekur undrun, er að konur voru á þeim trúarlega atvinnuvettvangi jafnvígar körlum. Það sýna frásagnir af völvunum til forna sem fóru á milli bæja og spáðu fyrir um framtíð átrúenda sinna, uns þær voru þaggaðar niður í feðraveldinu í völvuofsóknunum, sem Helga Kress bókmenntafræðingur hefur fjallað um.[9] Í kjölfarið dró úr mætti spádómsstéttar íslenskra kvenna, að undanskildum einstaka konum sem voru á rangli milli bæja um aldir alda, svo sem förukonur með spádómskrafta, ákvæðaskáld og einhleypar eldri konur sem voru að reyna að afla tekna með bollalestri sínum.[10] Síðan gerast merkilegir hlutir á öndverðri 20. öld, þegar að nýja andatrúarstefnan spíritismi nemur hér land 1905.[11] Hreyfing sem fyrst um sinn grasseraði í fínu stofunum í Reykjavík hjá fyrirfólki í afþreyingarhug; sem heyrði á handansögur innlendra og jafnvel erlendra miðla. En það leið ekki á löngu uns téð trúarhreyfing rataði úr fínu stofum landsins, niður úr efra lagi og að eyrum almennings; því upp upp risu rammskyggnir miðlar og átrúendur úr almúgastétt.[12] Þannig gerðist sá ærið merkilegi hlutur, að íslenskar konur hófu að túlka kristindóminn út frá eigin sýnum og hugmyndafræði spíritismans – löngu áður en fyrsta konan hérlendis fer að túlka guðsorð á almannavettvangi, sem fyrsti kvenpresturinn árið 1974.[13] Téð tjáningarfrelsi kvenna á vettvangi spíritismans, má rekja til þess að andatrúin grundvallaðist á munnlegri miðlun, sem mismunaði ekki konum, ekki síst ómenntuðum konum, líkt og  ritvöllurinn gerði.[14] Aukinheldur má rekja vægið sem konur fengu á vettvangi spirítismans, til hugmynda um nálægð kvenkynsins við náttúruna og hulduheima hennar, líkt og gilti um hinn forna norræna sjamanisma/seiðr. Svo vitnað sé í einn átrúenda sem velti vöngum yfir uppsprettu skyggnigáfu íslenskra ófreskra kvenna til forna og á fyrri hluta 20. aldar. Þeir þankar kviknuðu í kjölfar þess að hann gekk á fund skyggnrar konu/huglæknis árið 1942:

Svo virðist, eftir fornum heimildum, að konur hafi verið gæddar framvísi umfram karlmenn. Seiðmaður svarar ekki til völvu. Og ekki er þess getið í fornum vísindum, að seiðmenn hafi ferðzt um byggðir í sams konar erindum sem völvurnar. Ef til vill er kveneðlið næmara í þessum efnum en eðlisfar karla.[15]

Skyggnar konur, líkt og völvurnar forðum, féllu gjarnan í leiðslu (e. trance) og miðluðu því sem þær sáu, hvort heldur það var í einkasamtölum, á skyggnilýsingafundum, eða í fréttamiðlum og bókmenntum.[16] Þær voru alvitrir sögumenn/véfréttir, sem bjuggu að sérþekkingu um andans mál: „Næsti heimur við þennan, sem þið lifið í, þangað koma allir, en það er misjafnlega langur tími, sem þið þurfið að vera þar,“ sagði ein alvitur skyggn kona.[17]  Skyggnar konur létu sig flest allt varða: trúmál Íslendinga; þjóðþrifamál, hérlenda framtíðarsýn/framtíðarhorfur; einkalíf einstaklinga af öllum stéttum þjóðarinnar; og gjarnan heilsufarsmál Íslendinga s.s. huglækningar skyggnra kvenna vitna um. Skyggnar konur gerðu meira að segja atlögu að því að endurskrifa Íslandssöguna. Skýrt dæmi um það eru endurskrif þeirra Jóhönnu Sigurðsson sem og Guðrúnar Sigurðardóttur á sögu biskupsdótturinnar Ragnheiðar Brynjólfsdóttur (f. 1641 d. 1663), sem þær sögðust hafa byggt á handansjónarhorni Ragnheiðar:[18] „Ég vil biðja lesendur þessarar bókar að dæma varlega um innihald hennar. Ég skrifa ekki af þekkingu á rithöfundasviðinu, heldur af innri hvöt, hvöt til að hlýða skipunum frá draumkonu minni [Ragnheiði Brynjólfsdóttur],“ voru upphafsorð bókar nefndrar Jóhönnu, Dóttir Brynjólfs biskups.[19] Raddir skyggnra kvenna hljómuðu á almannafæri og þær voru heyrðar, hvort eð raddir kvennanna hlutu hljómgrunn eður ei á meðal landsmanna. Það er því rökrétt á vissan máta, að halda því fram að konur úr ranni skyggnra Íslendinga á 20. öld, hafi í reynd sem hópur verið með fyrstu kvennastarfsstéttum landsins til að hljóta vægi á opinberum vettvangi – eins konar endurnýjun völvustéttarinnar.

Talsvert liggur fyrir af bókmenntum um íslenskar skyggnar konur, sem orsakast af því að rík bókmenntahefð þróaðist í kringum skyggna Íslendinga, fyrir tilstuðlan átrúenda þeirra. Þeirri bókmenntahefð var ætlað að varpa ljósi á sýnir skyggnra Íslendinga sem og þann jarðveg sem þeir einstaklingar spruttu úr – hefð sem stóð í blóma frá sjöunda og fram á níunda áratug síðustu aldar. Þessar fyrri tíma bækur um líf og dulsýnir skyggnra kvenna á Íslandi má í dag finna víða í hillum aldraðra Íslendinga á einkaheimilum og á elliheimilum, millum stáss og glingurs. Þær bækur er einnig að finna í gömlum sumaríveruhúsum í öllum landsfjórðungum, þær liggja í röðum í bókahillum nytjamarkaða, fornbókabúða,– og einnig gjarnan í hillum sem standa í opinberum rýmum og segja „gefins.“ Birtingarmynd þessara algengu kvennabóka í bókahirslum og á bókamörkuðum landsins gefa mynd af annars flokks bókum; bækur sem voru lesnar víða, en eru nú afskiptar. Þessar bækur eru ytra byrðinu misjafnar, en innihaldið greinir frá merkilegum þætti í sögu íslenskrar þjóðar. Þær fáu setningar sem varðveist hafa frá völvum grárrar fortíðar hafa verið greindar í öreindir af fræðimönnum hérlendis og erlendis. Hins vegar er óplægður akur orða þeirra völva sem runninn er frá skyggnum konum, næmum konum og spákonum seinni alda. Í gegnum árin hafa bækur af þeim konum birst mér sem handansaga kvenna, kunnulegir titlar og stundum nýir, í hilluröðum á förnum vegi. Og líkt og vin í eyðisandi íslenskra ofgnóttarbókmennta, koma ævibækur Margrétar frá Öxnadal reglulega fyrir, líkt og taktstrik í bókahillunum, einkum þeirra hillna sem segja „gefins.“ Hún birtist mér þar, Margrét, fjallkonan, huldukonan; Skyggna konan (1.-2. bindi). [20]

Margrét: Vinir mínir hafa hvatt mig til að lýsa andlegri reynslu minni í rituðu máli. Ég hef orðið við þessari ósk, þótt ég geri það með hálfum huga. Ég finn, hve erfitt er að færa þessa reynslu mína í búning orðanna. Ég veit einnig, að margt af þessu er ósennilegt, að margir munu efast um, að það hafi gerzt. En ég mun reyna að skýra eins satt og rétt frá og mér er unnt.[21]

Frásagnir af skyggnu fólki svipa gjarnan til dýrlingasagna, þar sem dýrlingurinn sannar yfirnáttúrulega hæfileika sína frammi fyrir öðrum. Skyggnrasagnir, ekki ólíkt dýrlingasögnum, hafa iðulegast þann tilgang að sannfæra lesandann – þær sögur segja; sjá hún/hann segir satt, eða sjá hún/hann lýgur. Það höfuðtakmark sagnanna gildir hvort eð þær eru sagðar frá sjónarhorni skyggnra aðila, átrúenda þeirra eða efasemdamanna. Við lestur minn á fjölda bóka, greina og örfrásagna af skyggnum konum á Íslandi, hvarflaði aldrei að mér hvort konurnar væru að segja satt, hvort þær væru að ljúga, eða að færa í stílinn. Því í mínum augum sýna frásagnir af þeim konum, án nokkurs efa, að hér fóru fyrst og fremst listakonur; launaðar listakonur. Og listsköpun þeirra var jafn sönn og hver önnur listsköpun af hendi mannsins, hver svo sem ásetningur þessara listakvenna var. List kvennanna byggði ekki síst á þeim dulda þætti sem verk þeirra hverfðust um. Nokkuð sem hefur samjöfnuð í verkum töframanna þar sem flest er á huldu. Dulúðin er því grundvallarþáttur í því listformi sem skyggnar konur unnu með. Umræða um sannleiksgildi sköpunarverka skyggnra kvenna á Íslandi hefur skyggt á verk þessara kvenna um árabil sem, þar með talið þau áhrif sem verk þeirra höfðu á íslenskt samfélag. Hugverk kvenna á borð við Margrétar Jónsdóttur Thorlacius frá Öxnafelli (f. 1908 – d. 1989); Kristín Jósefína Njálsdóttir (f. 1896 – d. 1977), [Ingibjörgu] Láru Ágústsdóttur (f. 1899 – d. 1971), Guðrúnar Guðmundsdóttur (f. 1915 – d. 1977), Kristínar Kristjánsdóttur (f. 1888 – d. 1962), Jóhönnu Sigurðsson (f. 1906 – d. 1956), Guðrúnar Sigurðardóttur (f. 1911 – d. 1984), og fleiri skyggnra kvenna sem fæddar voru undir lok 19. aldar og á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar – kvennanna sem eru hér til umfjöllunar er stunduðu miðilsstörf á Íslandi, á tímum þegar andatrú naut mestrar hylli á Íslandi, ekki síst vegna tíðrar útgáfu bóka um íslenska miðla.[22]

Aldrei get ég fullþakkað það, að ég hef orðið þeirrar náðar aðnjótandi, að kynnast nokkrum mjög góðum lærisveinum Jesú Krists, sem eru að starfi mitt á meðal okkar. Mjög framarlega í þeim hópi er Margrét Jónsdóttir frá Öxnafelli í Eyjafirði. Af þeim kynnum hef ég fengið staðfestingu á því, að enn gerast kraftaverk hliðstæð þeim, sem gerðust á dögum Jesú. Sjálfur hef ég notið þeirra og verið vitni að þeim.[23]

Víst er að skyggnar konur voru sjéní hvað viðkom því að kalla fram mikil og oft tilfinningaþrungin viðbrögð áheyrenda sinna; hughrif, sem ollu því að sumir féllu í yfirlið, á meðan aðrir veinuðu af ánægju milli ekkasoganna yfir dulsýnunum sem konurnar miðluðu til þeirra. Slík áhrif á tilfinningalíf og þanka manna, er vart að finna í öðrum listastefnum skv. listasögunni. – En það var ekki sama að vera rammskyggn kona, og að vera afbragðs listakona.[24] Konurnar bjuggu að misgóðum frásagnarhæfileikum, ímyndunarafli og stíl, eins og gefur að skilja. Það sem markaði velgengni skyggnra aðila, var fyrst og fremst hæfileiki þeirra til að greina tilfinningalíf áheyrenda sinna. Meginefniviður sköpunar skyggnra aðila var oftar en ekki mannfólk, sem ýmist kom á fund þeirra eða mættu þeim í dagsins önn; fólk sem bjó að minningum, sorgum, væntingum og gjarnan efasemdum, sem miðillinn rýndi í og túlkaði á staðnum eftir eigin höfði: „Eins og jafnan, þegar Margrét er hjá vinum sínum, fór hún að lýsa fólki, er hún sá með okkur.“[25]

Skyggnar konur miðluðu frásögum sínum gjarnan munnlega eins og völvurnar forðum, sem krafðist þess að þær þurftu að geta brugðist við á augabragði; kallað fram smáatriði án nokkurs fyrirvara, svo sem þegar þær lýstu liðnum aðstandendum áheyrenda sinna: „Ég sé hjá yður roskna konu, hún hefir rauðleitt hár, mér sýnist það vera hárkolla, en ekki lifandi hár.“[26] Velgengni skyggnra aðila tók líka mið af þekkingu þeirra á fræðum spíritismans, og hans frásagnablæðbrigða sem teygja anga sína alla leið til Austurlanda: „Einnig var þá við stjórnina mjög þroskuð vera, indverskur maður, að mér fannst, og nefndi sig Atulativ.“[27] Hluti kvennanna fengu ungar að aldri skólun í fræðum spíritismans á heimili Kvaran hjónanna í Reykjavík, sem var þekkt fyrir umsvif sín á sviði andatrúar/dulspeki á Íslandi. Sé horft á spíritismann sem listastefnu, líkt og hér er gert, þá var heimili þeirra hjóna einskonar listaakademía, sem tengdist starfssemi Sálarrannsóknarfélagsins sem stofnað var 1918.[28] Sögur íslenskra skyggnra aðila voru undir áhrifum útlendra frásagnahefða spíritismans, sem fól öðru fremur í sér envangelísk stílbrögð, og stíl sem jafna má við vísindaskáldskap, sem hverfist um sköpun nýrra heima. Áhrifa hrollvekjunnar er líka að finna í sköpunarverkum skyggnra aðila, svo sem þegar skyggnar konur lýstu ógnvekjandi sýnum á andafundum, og beittu til þess röddum sínum á annarlegan máta: „eftir nokkur augnablik kom veran í gegn með miklum krafti og ruddaskap, og hrópaði: „Hvar er stúlkan“?… gefið mér í nefið.“ Heyrðist þá, að hann sogaði upp í nefið af mikilli áfergju, eins og þegar neftóbaksmaður fær sér duglega í nefið,“ lýsti einn gestur skyggnilýsingafundi sem hann sat, þar sem ókunn vera ku hafa talað í gegnum skyggna konu.[29] Lýsingar kvennanna á látnum mönnum sem standa skyndilega við hlið þeirra sem þær ræða við, er einnig ákveðið stef í hryllingsmyndum: „Ég spurði Margréti, hvort hún sæi nokkuð. „Jú, ég sé hann Pálma.“ „Hvar?“ „Rétt við hliðina á þér.“[30]

Guðrún Sigurðardóttir: Bjarti maðurinn stanzar við og segir: „Við skulum doka hérna við svolitla stund, við skulum ekki halda lengur áfram.“ Ég sé eins og örvar, sem koma þjótandi – myrkar, einhvers staðar utan úr geimnum. Þær eru svo svartar, og þær þjóta þarna yfir okkur eins og leiftur, ekki lýsandi, heldur dökkar. „Hvaðan kemur þetta?“ segi ég. Þeir Haraldur [Níelsson prófessor heitinn (f. 1868 – d. 1928)] og bjarti maðurinn, sem ekki hefur fylgt okkur áður stanza báðir. Þeir grípa sinn í hvora hönd mína og segja: „Þetta eru hugsanir mannanna frá jörðinni, þeirra sem alltaf eru að leita eftir því, sem verra er. Þær koma hér inn á sviðin alveg eins og góðu hugsanirnar koma inn á björtu sviðin, og nú sérðu, hvaða verk þær vinna.“[31]

Dulsýnir íslenskra skyggnra aðila á 20. öld takmörkuðust ekki við frásagnarhefðir spíritimans, heldur voru þær að segja má expressjónískar. Hugverk listmanna sem sköpuðu handanheima á 20. öld voru steypt saman úr brotakenndum myndum/sýnum og litrófi sem sóttu áhrif sín víða: „Þar er unnið á litum. Þar eru litirnir notaðir til alls. Það eru byggð hús úr þeim,“ sagði ein skyggn kona þegar hún lýsti fjarlægu tilverustigi.[32] Þannig gat frásögn dulskyggnrar konu á 20. öld í senn falið í sér lifandi lýsingar á verum úr íslenska vættaheiminum, biblíusögunum, austurlenskum sögnum og fleiri sagnaheimum veraldar vorrar. Sumsé, skyggn kona gat hæglega eygt hulduhrút, engla og múmíur í einni og sömu sálarför sinni. Algengast var að konurnar lýstu draugum og íslenskum vættum á sínum yngri árum, öðru fremur huldufólki og dvergum. En með tilkomu stefnu spíritismans í íslenskum sagnaheimi, þá umbyltust frásagnir kvennanna og grundvölluðust að miklu leyti á þekktum sagnaminnum innan þeirrar trúarstefnu og boðskapi hennar um sálarþroska.[33] Þegar miðillinn Lára Ágústsdóttir var spurð hvort hún sæi enn álfa og dverga, þá svaraði hún: „Oft og mörgum sinnum. Og ég sé þá raunar enn við og við.“ [34]

Frásagnir skyggnra kvenna hérlendis eiga það allar sameiginlegt að minna helst á draumlýsingar. Sagnirnar eru gjarnan mjög sjónrænar, og styðjast fremur við ítarlegar lýsingar heldur en ákveðin söguþráð. Kvenkyns miðlarnir, ólíkt karlkyns miðlunum, lýstu oftar klæðnaði, innanstokkshlutum og rýmum sem þær eygðu í huga sér. Auk heldur studdust þær mun oftar við kvenkyns sögupersónur í frásögnum sínum, sem birtust þó oft sem ásýndir í sögunum andstætt karlkyns sögupersónunum sem voru gjarnan virkir í atburðarrás sögunnar.[35] Skyggnu konurnar reifuðu líka mun oftar heimilisstörf og umönnun barna í sögum sínum miðað við karlkyns miðlanna. Konurnar líkt og karlarnir voru sjálfar höfuðpersónur dulsagna sinna, eða einar af höfuðpersónunum, svo vitnað sé í skrif fræðikonunnar Janet Oppenheim sem rannsakað hefur skyggnar konur á Viktoríutímabilinu í Englandi: „Í andaheiminum var miðillinn ekki aðeins áhorfandi, heldur mikilvægur þáttakandi í atburðarrásinni.“[36] Sagnahefð spíritismans gaf konunum vissulega færi á að skapa eigin heima, út frá eigin stílbrögðum. Það sem vekur hins vegar athygli er að heimar kvennanna voru þó aldrei lausir undan viðjum hugmyndafræði feðraveldisins, um hlutverk og eðli kynjanna.[37]

Miðilshæfileikar hafa alltaf verið umdeildir hæfileikar, ólíkt því sem tíðkast almennt um hæfileika. Sú staðreynd hafði afgerandi áhrif á sjálfsmynd skyggnra kvenna, sem og þær ímyndir sem þær konur höfðu í samfélaginu. Af ævisögnum skyggnra kvenna að dæma, þá voru konurnar allt frá því í barnæsku uggandi yfir þeim hæfileikum sínum að geta eygt hið óséða. Það var ekki óalgengt að þær konur væru aldar upp á heimilum þar sem að trúarhiti var mikill. Ljóst má vera að viðhorf fjölskyldna þeirra til dulskynjunar, hafði afgerandi áhrif á sjálfsmynd þeirra sem barna í því gamla bændasamfélagi sem var þessum tíma að líða undir lok; hvort þær mættu skilningi eða skilningsleysi gagnvart sköpunarkrafti sínum.[38] Þetta var fyrir tíma spíritismans, á tímum þegar að dauðinn var sjaldan færður í tal, og draugar vitnuðu um eitthvað óhreint, og þeir sem sögðust sjá hina látnu gjarnan litnir hornauga.[39] Margrét frá Öxnafelli sem varð snemma einskonar barnastjarna í andlegum málefnum, mætti hlýhug frá móður sinnar er hún tjáði henni frá miðilshæfileikum sínum. Af öðru slíku dæmi þá má nefna Kristínu Kristjánsdóttur sem lofaði viðbrögð ömmu sinnar Kristínar Guðmundsdóttur (f. 1838) þegar hún tjáði henni frá dulhæfileikum sínum, en amma hennar sagðist sjálf aldrei hafa hlotið samþykki sem næmt barn.[40] Jóhanna Sigurðsson, Jósefína Njáldsóttir og Lára Ágústsdóttir hörmuðu það að hafa ekki hlotið viðurkenningu sem skyldi sem næm börn: „Raunar leið henni oft mjög illa á þessum árum og fannst hún oft vera misskilin og einmana,“ var skrifað um Láru.[41] Frásagnir af barnæsku skyggnra kvenna sýna hvernig leikgleði barna, eirðarleysi þeirra s.s. við húslestra, heimilisverk og í fábreytilegum hversdagsleika gamla bændasamfélagsins, var kjörinn jarðvegur fyrir ímyndunarafl ungra túlkna, sem sköpuðu nýja heima innan raunheimsins: „Á haustin þegar verið var að sjóða slátrið, vöktu systurnar oft yfir sláturpottum framm í eldhúsi. Þá sá Margrét stundum ýmislegt og sagði systrum sínum. Urðu þær þá stundum myrkhræddar, svo að þær þorðu varla að ganga í myrkrinu um bæinn.“[42]

Þegar hingað er komið í skrifum þessum er við hæfi að varpa fram þeirri spurningu; hvurjar voru fyrstu konurnar í framvarðasveit skyggnra kvenna á Íslandi á uppgangstímum andatrúar á liðinni öld? Hér, í þessum skrifum mínum, hef ég vitnað reglulega til skyggnra kvenna sem listakvenna. Því fer þó fjarri að skyggnar konur hafi sjálfar gefið sig út fyrir að vera listakonur. Þær ímyndir sem skyggnar konur miðluðu af sjálfum sér voru í reynd skyldari ímynd húsmóðurinnar og ímynd dýrlingsins; konur er hlutu miðilshæfileika í vöggugjöf, og voru skyldugar til að nota þá í þágu fólksins – líkna syrgjandi þjóðfélagsþegna og undirbúa átrúendur sína andlega fyrir brottför dauðans:[43] „Ég minnist mæðranna, sem hafa beðið mig að biðja fyrir börnum sínum, bæði stórum og smáum. Ég minnist eiginmannanna, sem hafa beðið mig að biðja fyrir ástvinum sínum,“ sagði Margrét frá Öxnafelli.[44] Orðræða skyggnra kvenna svipar um margt til orðræðu nunna, sem tala um fórnfýsi sína og skyldu til að sinna andlegum börnum sínum.[45] Lýsingar af skyggnum konum gefa þannig mynd af heilögum húsmæðrum: „hún er einnig kunn fyrir mannkosti sína, sem birtast í fórnarlund hennar og hjálpsemi við aðra. Oft hefur hún orðið að láta nauðsynleg heimilisstörf sitja á hakanum, þegar hún hefur þurft að taka á móti sjúklingum,“ var skrifað um Margréti frá Öxnafelli, huglækni.[46] En sú ímynd skyggnra kvenna, hin heilaga húsmóðir, var brigðul, því hún grundvallaðist á trú manna.

Skyggnar konur sem studdust við leikmuni og jafnvel leikara í endursköpun sinni á handanheimum, líkt og hún Lára Ágústsdóttir, voru fallvaltar í hlutverki sínu sem miðlar, ólíkt þeim konum sem notuðust við orðin ein í sköpun sinni.[47] Árið 1941 var Lára fangelsuð fyrir að stunda svik á skyggnilýsingafundum, á þeim tíma þegar frægðarsól hennar reis hvað hæst. Hún var sökuð um að notast við leikmuni til að líkja eftir dulrænum atburðum á miðilsfundum sínum, líkt og töframaður hefði verið fangelsaður fyrir töfra sína þegar fyrir lá hvernig þeir voru framkvæmdir. Lára var á marga vegu á öndverðum meiði við skyggnar konur á þessu tímabili Íslandssögunnar, sem koma fyrir sjónir sem heilagar húsmæður. Lára bjó að máttlitlu baklandi, var löngum einstæð móðir, átti í brokkgengum ástarsamböndum og var viðriðin óreglulífsstíl. Líf hennar, líkt og sköpun var dramatísk, og hún glæsileg ásýndum, stórbrotin líkt og sköpunarverk hennar á miðilsfundunum: „Einn sunnudagsmorguninn hékk líf mitt á bláþræði. Þá stóð ég vitstola við Geirsbryggju í morgunsloppnum einum saman og berhöfðuð…“ sagði Lára.[48] Í kjölfar uppljóstrunarinnar  var ímynd Láru ekki af hinni heilögu húsmóður, heldur af norn sem sveik syrgjandi alþýðuna:[49] „Það er í reynd enginn öfundsverður af því að hafa verið gefnir miklir miðilshæfileikar, það fylgja því margir erfiðleikar, sem aðrir ekki skilja eða hafa hugmynd um,“ sagði Lára.[50]

 

Margrét frá Öxnafelli: Góð húsmóðir býr sig undir það, að létta störf morgundagsins og hugsar um, hvernig þau verði unnin sem hagkvæmast, svo að þau komi að sem mestu gagni. Þannig er því einnig varið með undirbúninginn undir annað líf.[51]

Húsmæðrahlutverkið var sameiginlegt með öllum skyggnu konunum sem hér er horft til. Títt var að konurnar fjölluðu um miðilsstörf sín sem ígildi húsmæðrastarfa. Miðilsstörfin líkt og húsmæðrastörfin fólu í sér að þjónusta aðra. Húsmæður þjónustu fjölskyldur sínar, öðru fremur með því að sinna húsverkum og tilfinningalegri vinnu. En sem miðlar þjónustuðu konurnar fólk er lifði utan veggja heimila þeirra, öðru fremur með tilfinningalegri vinnu sinni. Algengt var að konurnar gerðu lítið úr völdum sínum í störfum sínum sem miðlar, og töluðu frekar um valdleysi sitt á þeim vettvangi; fjölluðu um valdleysi sitt á miðilsfundunum þar sem þær voru undir áhrifum góðra og illra anda; ráðaleysi sitt gagnvart ásókn anda í persónulegu lífi þeirra; og hve berskjaldaðar þær væru gagnvart almenningi sem leitaði sífellt til þeirra eftir hjálp. Og í anda húsmóðurhlutverksins, þá kváðust skyggnu konurnar ekki þiggja ekki laun fyrir störf sín, heldur umbun: „Einnig þakka ég allar gjafir, sem mér hafa borist frá þessu fólki. Stundum hafa þær verið einu fjármunirnir, sem ég hef talið mig ráða yfir. Guð blessi allt þetta fólk,“ sagði Margrét frá Öxnafelli.[52]

Sveinn Víkingur: Þú hafðir miðilsstarfið að nokkurs konar atvinnu, að minnsta kosti um skeið. Var það ekki?

Lára Ágústsdóttir: Atvinnu? Ja, flestu má nú nafn gefa. En sjálf hefði ég helzt kosið að þurfa aldrei að taka við greiðslu fyrir svona störf. Og mér finnst, að það eigi ekki svo að gera. Það ætti að koma þessu einhvern veginn þannig fyrir, að maður gæti verið laus við það. En þessi heimur er nú svona, að maður getur ekki lifað á loftinu einu saman. Og líf mitt hefur, satt að segja verið þannig, að ég hef hvorki mátt né getað hafnað þeim greiðslum, sem mér hafa verið boðnar. Ég hef kynnzt fátæktinni meira en margir aðrir og veit hvað hún er. En nóg um það.[53]

Skyggnu konurnar voru iðulegast ómenntaðar og af lægri stétt/lægri miðstétt, og stunduðu ýmsa verka- og sveitavinnu á ævi sinni. Konurnar skilgreindu sig þó fyrst og fremst út frá hjúskaparstöðu sinni, barneignum og skyggnigáfu. Margar hverjar voru heimavinnandi og/eða útivinnandi húsmæður meðfram miðilsstörfunum sem þær stunduðu oft slitrótt yfir ævina[54] – en líkt og fræðikonan Janet Oppenheim hefur bent á þá hefur miðilsstarfið löngum verið á færi húsmæðra um allan heim, svo sem í Englandi á tímabilinu 1850-1870: „Í reynd má segja að miðilsstarfið gat verið eins heimilisleg og eins kvenleg list og útsaumur,“ skrifar Oppenheim.“[55]

Miðilsstörfin, líkt og húsverkin, voru gjarnan bundin við einkasvið heimilanna og um leið sveipuð vissri dulúð.[56] Skyggnu konurnar lýstu gjarnan hvernig heimilislíf þeirra og handanheimar sköruðust innan veggja heimila þeirra, s.s. lýsing Margrétar frá Öxnafelli á „húsverka-særingu“ sinni á gömlum kvendraugi sem birtist henni í sífellu í eldhúskróknum. Í þeim handanheimasamskiptum tók Margrét á það ráð að hella upp á kaffi handa kvendraugnum og þá hvarf hún: „Þá beygði hún sig yfir bollann, og heyrði ég andardrátt hennar, þegar hún sogaði að sér ilminn af kaffinu, en ekkert minnkaði í bollanum. Eftir það sá ég hana aldrei.“[57] – Fróðlegt er að skoða hvernig konurnar samþættu heimilislíf sitt og miðilsstörfin. Samanburður á ævisögum kvenkyns miðla og karlkyns miðla sýna togstreitu sem konurnar upplifðu í millum aðhalds síns heima fyrir og ferils síns sem skyggnar konur. Nokkuð sem karlkyns miðlar þurftu ekki að glíma við, eins og hann Einar Jónsson miðill (f. 1915 – d. 1987), sem naut þjónustu eiginkonu sinnar Erlu Ingileifar, sem sinnti heimilisstörfum millum þess sem hún var ritari hans.[58] „Miðillinn [Guðrún Sigurðardóttir] er húsmóðir og hin síðustu ár einnig fyrirvinna heimilis síns. Auk þess vinnur hún mikið og tímafrekt starf til hjálpar sjúkum og sorgmæddum í samfélagi við hinn dulda heim. Þetta samstarf heimanna er mjög athyglis-og eftirbreytnisvert…“[59] Víst er að miðilsstörfin voru kjörin fyrir konur sem þurftu að halda heimili. Margar kvennanna gátu sinnt miðilsstörfum heimanfrá, líkt og hún Margrét frá Öxnafelli sem kom upp skrifstofu á heimili fjölskyldu sinnar, til að sinna þar andlegum lækningum meðfram heimilisstörfunum.

Eiríkur Sigurðsson: – Er það rétt, að þú hafir orðið að opna sérstaka móttökustofu vegna mikillar aðsóknar?

Margrét frá Öxnafelli: Já, það er rétt. Síðari hluta vetrar 1961 fékk ég sérstaka stofu í húsinu til að taka á móti þeim, sem til mín leituðu. Lítil biðstofa er fyrir framan. Þarna hef ég útbúið mér móttökustofu. Það reyndist ekki fært að taka á móti öllu þessu fólki uppi í íbúðinni.

Eiríkur Sigurðsson: – Nú langar mig að biðja þig að skýra frá einum vinnudegi þínum.

Margrét frá Öxnafelli: ­– Dagarnir eru mjög misjafnir. Það er þungt yfir sumum en létt yfir öðrum. Dagurinn hefst með venjulegum heimilisverkum, og er þá fyrst að hita morgunkaffið. Þá er næst að útbúa miðdegisverð handa heimilisfólkinu. Börnin hjálpa mér mikið, þegar þau eru heima. Þau fara fyrir mig í búðir. Kemur það sér vel, því að oft hringir síminn og truflar mig frá störfum. Um hádegisbilið gríp ég einhvern matarbita, flyt svo símann með mér niður í móttökustofuna og svara í síma milli klukkan tólf og eitt. Þá hefst heimsóknartíminn, sem stendur frá klukkan eitt til hálf þrjú. Þannig er þetta fimm daga vikunnar. Ég tek ekki á móti heimsóknum á laugardögum og sunnudögum, ef hjá því verður komist, nema nauðsyn beri til.

Eiríkur Sigurðsson: – Hvað kemur margt fólk að jafnaði í hverjum heimsóknartíma?

Margrét frá Öxnafelli: – Það er auðvitað nokkuð misjafnt. En venjulega eru það 20-30 manns og stundum allt að fjörtíu. Þetta fólk biður þó fyrir talsvert fleiri sjúklinga. Ég rita nöfn sjúklinganna í sérstaka bók ásamt heimilisfangi. Þá lýsir fólkið sjúkdómunum dálítið. Og það er margt manna meinið. Ég fæ með þessum heimsóknum að vera vitni að, hve jarðlífið er mörgum erfitt, og margs konar sjúkdómar þjá fólkið, bæði líkamlegir og andlegir. Meðan þessu fer fram fylgjast vinir mínir hinum megin frá með öllu, sem gerist og taka á móti hjálparbeiðnunum.

Eiríkur Sigurðsson: – Sérðu þá ekki neitt með þessu fólki?

Margrét frá Öxnafelli: – Jú, oft sé ég með því framliðna ættingja og vini.[60]

Einmanaleiki er visst stef í frásögnum skyggnra kvenna; einvera þeirra í barndómi og einvera þeirra á fullorðinsárum, ekki síst við heimilisstörfin: „Á veturna, þegar dimmt var á kvöldin og ég var við hússtörf, þar sem skuggsýnt var, kom fyrir, að ég sá undarlegar sýnir.“[61] Þekkt er að húsverk eru einmanaleg iðja,[62] og við þá iðju fengu konurnar gjarnan dulrænar sýnir sem brutu upp hversdagsleikann innanstokks. Jósefína Njálsdóttir rifjaði upp heilræði læknis eins sem ráðlagði henni að forðast einveruna, ef hún ætlaði að losna við skynjunargáfu sína, en Jósefína var „sjómannskona, sem lítið hafði um sig, þegar maður hennar var langtímum saman fjarverandi, annað en það, að annast tvö lítil börn, urðu einverustundirnar býsna margar, og tilveran hljóð, meðan þau voru ennþá á bernskuskeiði.“[63] Hugverk skyggnra kvenna voru bersýnilega líka sköpuð fyrir þær sjálfar, svo sem í einverunni, líkt og í tilfelli Jósefínu Njálsdóttur sem á sínum eldri árum horfði á sjónvarpið með látnu fólki: „Það er fyrst og fremst róandi og öll einmanakennd hverfur.“[64] Miðilsstörfin voru líka leið til að kynnast nýju fólki, sem leitaði til þeirra til að fá innsýn í handanheima. En konurnar nálguðust ókunnugt fólk einnig að fyrra bragði og stofnuðu til samræðna við það m.a. með því að benda þeim á látinn einstakling sem stæði nærri þeim. En miðilsstarfið gat ugglaust líka kallað fram einsemd meðal kvennanna, því fólk hafði meiri áhuga á dulrænum sýnum kvennanna en þeim sjálfum – og auk þess þurftu konurnar gjarnan að vera í hlutverki sínu sem skyggnar konur, bæði heima og heiman: „Hún [draugurinn] birtist mér aðeins, þegar ég var ein með börnin.“[65]

Miðilsstörf gátu gefið íslenskum konum aukið vægi í samfélaginu, og jafnvel völd.[66] Með þeim störfum gátu til dæmis húsmæður í verkamannastétt tekið á móti fyrirmönnum og almenningi, í heimahúsum og stórum fundarsölum; fólki sem kom til þess eins að heyra á sýnir og ráðleggingar, þeirra skyggnu kvenna. Miðilsstörfin gáfu konum tækifæri á að miðla hugsjónum sínum, ferðast um landið og halda erindi, afla tekna, og kynnast fólki sem hafði áhuga á því sem þær höfðu að segja. En ekki er allt sem sýnist. Áhrif og völd skyggnra kvenna má ótvírætt rekja til þeirrar staðreyndar, að átrúendur þeirra álitu þær miðla upplýsingum frá handanheimum. En þá er ekki öll sagan sögð. Því saga skyggnra kvenna sýnir skýrt og skilmerkilega að þær tóku oft á sig karlgervi, til að öðlast vægi í þjóðfélaginu – rétt eins og skyggnu konurnar í Englandi gerðu á miðilsfundum á Viktoríutímabilinu.[67] Konurnar sögðust oft lúta stjórn karlkyns stjórnenda að handan á miðilsfundum sínum. Þar áttu einatt í hlut fyrirmenni á sínu sviði, sem sumir voru þekktir fyrir þekkingu sína í lifanda lífi. Með því að beita þessu kynjamillistykki, sem í raun jafngilti hamskiptum, þá unnu þessar ómenntuðu konur ekki einungis í umboði ráðandi karlastéttar, heldur í umboði menntamanna – hvort heldur þeir voru þekktir í lifanda lífi eða sveipaðir dularblæ hins óþekkta menntamanns. Þessi hamskipti sögumannsins gerðu það að verkum að hann varð sérlega trúverðugur, ekki síst í ljósi þess að inn við beinið þá var hann kona, kona sem átti ekki að hafa yfir að ráða sértækri þekkingu. Guðrún Sigurðardóttir miðlaði til að mynda fróðleik að handan fyrir hönd Haralds Níelssonar prófessors heitins (f. 1868 – d. 1928) – og Margrét frá Öxnafelli kvaðst vera milligöngukona fyrir huldulækninn Friðrik, og bókaði tíma fyrir fólk hjá honum og stóð í bréfaskiptum fyrir hans hönd: „Friðrik hefur lofað að vera viðstaddur, þegar þér leggizt og veita yður þá hjálp, sem honum er unnt,“ segir í bréfi Margrétar til sjúklings sem leitaði ásjár hjá henni.[68] Þannig koma skyggnar konur oft fyrir sjónir sem ritarar fyrir karla að handan.

Sveinn Víkingur: Að sjálfsögðu er þetta ekki birt hér til þess að menn leggi blindan trúnað á allt, sem þar er haldið fram, eins og væri það opinberun eða vísindalegar staðreyndir. Í því efni sem öðru er rétt að beita allri gætni og dómgreind. Hitt verður aftur á móti að teljast einkennilegt og nokkurt umhugsunar- og rannsóknarefni, að ómenntuð alþýðukona [Lára Ágústsdóttir], skuli geta rætt jafn lengi og hiklaust um torskilin efni og hér er raun á og svarað án tafar og óundirbúin þeim spurningum sem til hennar er beint, og hún hefur ekki hugmynd um hverjar eru, fyrr en þeim er varpað fram. Hvað sem um svör hennar má segja frá heimspekilegu, trúarlegu eða rökrænu sjónarmiði, þá er naumast unnt að verjast þeirri hugsun, að hér sé um að ræða annað og meira en eintóma blekkingu af hálfu miðilsins, heldur sálrænt fyrirbæri, sem enn er óskýrt og mætti verða sálfræðingum og sálkönnuðum ærið rannsóknarefni.[69]

[1] Af mikilvægum erlendum rannsóknum á skyggnum konum má sérstaklega nefna bók Alex Owen, The Darkened Room: Women, Power, and Spiritualism in Late Victorian England (London: Virago Press 1989). Þar rannsakar Owen  sérílagi störf kvenna á sviði huglækningu á Viktoríutímabilinu í Englandi, m.a. hvernig konur öðluðust aukið sjálfstæði með því að stunda miðilsstörf. Sjá einnig mikilvæga rannsókn Janet Oppenheim, The Other World: Spiritualism and Psychical Research in England, 1850-1914 (Cambridge: Cambridge University Press 1985). Einnig má nefna rannsóknir á áhrif spíritismans á enskar bókmenntir. Hér má einkum nefna rannsóknir á ósjálfráðum skrifum (e. mystical writing) skyggnra kvenna á Viktoríutímabilinu. Sjá Sarah A. Wilburn, Possessed Victorians: Extra Spheres in Nineteenth-Century Mystical Writings (Ashgate Publishing 2006) og Tatiana Kontou, Spiritualism and Women´s Writing: From the Fin de Siécle to the Neo-Victorian (Palgrave McMillan 2009). Einnig má benda á doktorsrannsókn Joseph Good á áhrif spirítismans á bókmenntir frá og um Viktoríutímabilið. Sjá AThe Dark Circle: Spiritualism in Victorian and Neo-Victorian Fiction frá árinu 2012.

[2] Loftur Reimar Gissurarson sem útskrifaðist með doktorsgráðu í tilraunasálfræði frá Edinborgarháskóla í Skotlandi skrifaði B.A.- ritgerð sína um miðilinn Indriða Indriðason (f. 1883 – d. 1912). Sjá bók Lofts og William H. Swatos, Icelandic spiritualism: Mediumship and Modernity (London: Routledge 2017 [1997]). Sjá einnig: Loftur Reimar Gissurarson og Erlendur Haraldsson, The Icelandic Physical medium Indriði Indriðason (London: Society for Psychical Research 1989). Einnig ber að geta fræðigreinar Péturs Péturssonar um spirítisma á Íslandi, „Trúarlegar hreyfingar í Reykjavík í Reykjavík tvo fyrstu áratugi 20. aldar“: Spíritisminn og dultrúarhreyfingin“, sem birtist í Saga XXII (1984), bls. 93-172. Einnig má benda á rannsókn trúarbragðafræðingsins Corinne G. Dempsey. Þar fjallar hún um spirítisma á Íslandi m.a. með hliðsjón af öðrum trúarbrögðum á Íslandi. Rannsókn Dempsey tekur aðallega til miðilsstarfa á Íslandi á 21. öldinni. Rannsóknina byggir Dempsey á viðtölum sem hún tók við miðla á Akureyri árin 2009 og 2012. Rannsókn Dempsey varpar ljósi á viðhorf viðmælenda hennar, miðlanna, til andlegra mála.  Corinne G. Dempsey, Bridges Between Worlds: Spirits and Spirit Work in Northern Iceland (New York: Oxford University Press 2016).

[3] Auk greinaskrifa er taka til skyggnra kvenna á Íslandi var fyrst og fremst stuðst við eftirfarandi bækur í þessum greinaskrifum: Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan: Frásagnir um dulsýnir og andlegar lækningar Margrétar frá Öxnafelli 1. og 2. bindi (Reykjavík: Fróði 1960-1963). Þorsteinn Davíðsson, Draumar og dulskyn: Jósefína Njálfsdóttir (Reykjavík: Ægisútgáfan 1973). Guðrún Guðmundsdóttir, Tveir heimar: Frásagnir miðils og fundarmanna um æfi og starf (Reykjavík: Frón 1948). Sveinn Víkingur, Lára miðill: Sagt frá dulhæfileikum og miðilsstarfi frá Láru I. Ágústsdóttur (Akureyri: Kvöldútgáfan 1962). Guðrún Sigurðardóttir, Leiðin heim: Miðilsfundir (Útg. Stefán Eiríksson 1969). Guðmundur Gíslason Hagalín, Það er engin þörf að kvarta: Saga af lífi merkrar konu í tveimur heimsálfum og tveimur heimum. Skráð að mestu eftir sögu hennar sjálfrar [Kristínar Kristjánsdóttur] (Hafnarfjörður: Skuggsjá 1961). Guðrún Sigurðardóttir, Leiðin til þroskans (Akureyri: Stefán Eiríksson: Bókaforlag Odds Björnssonar 1958). Guðrún Sigurðardóttir, Ragnheiður Brynjólfsdóttir: Frá miðilssambandi Guðrúnar Sigurðardóttur 1.-2. bindi (Hafnarfjörður: Skuggsjá 1973-1974). Jóhanna S. Sigurðsson, Dóttir Brynjólfs biskups (Reykjavík: Litli vin 1941) og bók hennar Ritari biskups (Reykjavík 1949). Af nýjum skrifum um íslenska skyggna konu ber að nefna bók Páls Ágeirs Ásgeirssonar um ævi (Ingibjörgu) Láru Ágústsdóttur miðils, sérílagi þann kafla ævi hennar þegar hún var dæmd fyrir blekkingaleiki á miðilsfundum sínum, sem Páll skoðar m.a. út frá dómskjölum sem og út frá óbirtri sjálfsævisögu Láru (sem Sveinn Víkingur styðst einnig við í sínum skrifum um Láru). Í þeim gögnum kemur fyrir annarskonar rödd skyggnrar konu en í öðrum verkum af þeim konum; rödd konu sem skýrgreinir ásetning sinn með hliðsjón af sönnunum gegn henni. Af öðrum heimildum má nefna: Elínborg Lárusdóttir, Dulræn reynsla mín (Hafnarfjörður: Skuggsjá 1967). Elínborg Lárusdóttir, Leit mín að framlífi: Frásagnir af dulrænni reynslu höfundarins, sýnum hennar og dulheyrn, ásamt óvenjulegri reynslu hennar á sérstæðum miðilsfundum (Hafnarfjörður: Skuggsjá 1974). Elínborg Lárusdóttir,  Hvert liggur leiðin? (Hafnarfjörður: Skuggsjá 1970). Eins má nefna bókarkaflann „Skyggna konan í Melabúð: Viðtal við Jakobínu Þorvaldsdóttur“, í bók Lofts Guðmundssonar Á förnum vegi (Reykjavík: Ægisútgáfan 1966), bls. 55-76. Oscar Clausen, Skyggnir Íslendingar (Reykjavík: Iðunnarútgáfan 1948). Erlingur Davíðsson, Furður og fyrirbæri: Þrír kunnir miðlar og fleira fólk segir frá dulrænni reynslu sinni (Akureyri: Bókaútgáfan Skjaldborg 1983). Stuðst var við fleiri heimildir af þessum toga. Einnig var horft til frásagna af karlkyns miðlum á Íslandi til samanburðar, s.s. í nefndum bókum Oscars Clausen og Erlings Davíðssonar.

[4] Skyggnir Íslendingar bjuggu í einfaldleik sínum að vitneskju, sem fékkst ekki með reynslu eða menntun, heldur frá skynjun sem gekk í arf, stundum frá guði til konu: „sumir, sem ganga þroskabrautina, sem þið kallið skólabrautina, þeir hafa margir í sér það, sem kallað er keyptar gáfur. það er ekki frá Guði gefið,“ sagði Lára Ágústsdóttir miðill. Sveinn Víkingur, Lára miðill, bls. 157.

[5] Sjá viðtal Hallfreðar Örns Eiríkssonar við Vilborgu Magnúsdóttur, s.s viðtalsbrotin SÁM 90/2221 EF (Spáð í bolla); SÁM 90/2221 EF (Samtal um drauma; sagðir draumar og ráðningar; fyrirboðar). „Vilborg Magnúsdóttir – minning“, Morgunblaðið 29. nóvember 1983, bls. 44.

[6] Sjá heimild um langömmu Guðrúnu Antonsdóttur (f. 1902 – d. 1985) sem var matselja með kostgangara heima hjá sér á Ásvallagötu 16. Sarpur/gagnasafn: 83a Aukaspurningar um matseljur og kostgangara. 11187/1993-5. „Guðrún Antonsdóttir – mining“, Morgunblaðið 8. september 1985“, bls. 50-51.

[7] Jóhanna Sigurðardóttir, Dóttir Brynjólfs biskups, bls. 5. Í þeirri sömu bók er að finna teikningu eftir Ríkharð Jónsson myndhöggvara eftir lýsingu Jóhönnu af Ragnheiði Brynjólfsdóttur (f. 1641). Ennfremur má benda á handantónverk eftir Jóhönnu Sigurðsson, svo sem verk hennar: Fjólan: Lag tileinkað Ragnheiði Brynjólfsdóttur; Nú til hvíldar halla ég mér sem var gefið út árið 1943. Sjá líka umfjöllun um tónlist og skyggnihæfileika í bókarkafla um Guðrúnu Sigurðardóttur, „Frammi í Eyjafirði“, bls. 99-100.

[8] Dæmi um þekkta einstaklinga sem kváðust búa yfir næmni gagnvart látnum mönnum voru rithöfundarnir Elínborg Lárusdóttir og Kristín Sigfúsdóttir, sem þó kváðust ekki vera skyggnar. Sjá t.d. Elín Lárusdóttir, Dulræn reynsla mín, bls. 115 og 153. Sjá einnig bókarkaflann „Húsfreyjur segja sögur.“ Erlingur Davíðsson, Furður og fyrirbæri, bls. 67-75. Sjá bókarkaflann „Skyggna konan í Melabúð: Viðtal við Jakobínu Þorvaldsdóttur“, í bók Lofts Guðmundssonar Á förnum vegi, bls. 55-76. Hér má líka benda á lýsingar kvenna/mæðra sem segjast yfirnáttúrulega næmar á líðan barna sinna sama hvar þau eru stödd í heiminum. Ég kem inn á þetta efni í grein minni um minningaskrif um mæður. Dalrún J. Eygerðardóttir, „Mamma mín er góð:“ Minningar um mæður frá 19. öld og í byrjun 20. aldar,“ bls. 90-91. „Það hef ég nú oft fundið – og ég þarf enga sögusögn með það, að ég hef verið svoleiðis, að ég hef  bara fundið hvernig hefur legið á mínu fólki, þó það væri ekki nálægt mér. Það hefur enginn þurft að segja mér neitt eða annað.“ Tilvísun í viðtal við langalangömmu mína Vilborgu Magnúsdóttur. SÁM 90/2221 EF

[9] Helga Kress, Máttugar meyjar, bls. 40. Í þeim efnum tók Helga sérstaklega til athugunar Vatnsdælu sögu og Örvar-Odds sögu. Sjá einnig bókarkaflann „Seiðkonan og völvan“ í bók Guðrúnar P. Helgadóttur, Skáldkonur fyrri alda.

[10] Dalrún J. Eygerðardóttir, Jaðarkvennasaga, t.d. bls. 345 og 362.

[11] Corinne G. Dempsey, Bridges Between Worlds, bls. 30.

[12] Sjá grein Péturs Péturssonar, „Trúarlegar hreyfingar í Reykjavík í Reykjavík tvo fyrstu áratugi 20. aldar,“ bls. 167. Pétur segir þar að spíritismi hafi orðið einskonar alþýðutrú. Sjá líka Páll Ásgeir Ágeirsson, Játningar Láru miðils, bls. 7 og 112.

[13] Árið 1886 fengu konur kosningarétt við prestakostningar. Fyrsta konan til að ljúka guðfræðiprófi var Geirþrúður Hildur Bernhöft árið 1945 en hún lét þó ekki vígjast til prests. Fyrsti kvenkyns presturinn á Íslandi var Auður Eir Vilhjálmsdóttir (f. 1937). Hún var vígð til  prests 29. september 1974. Sjá  Sigríður Th. Erlendsdóttir, Breytingar á réttarstöðu íslenskra kvenna á 20. öld. Sjá einnig „Ártöl og áfangar“ á vefsíðu Kvennasögusafns Íslands.

[14] Fræðikonan Alex Owen sem rannsakað hefur skyggnar konur á Viktoríutímabilinu í Englandi, segir að konur hafi verið fljótari en karlar að tileinka sér þá  hæfileika sem miðilshlutverkið krafðist. Serimóníur spirítismans, líkt og trúarathafnir sjamanismans, grundvölluðust að miklu leyti á andrúmsloftinu sem miðilinn skapaði. Konur hafa löngum borið ábyrgð á veislum og athöfnum á einkasviði heimilanna, þar sem þær þurftu að sinna gestum, og því er ekki langsótt að ætla að hæfileikar þeirra á því sviði hafi nýst þeim á miðilsfundum, s.s. lýsingar á kertaljósum og tónlist eru til marks um. Sjá túlkun Doreen Massey´s á rýmum með hliðsjón af félagslegum tengslum, Space, Place and Gender, bls. 3.

[15] Guðmundur Friðjónsson, „Dulræn vitneskja“, bls. 15.

[16] Margrét frá Öxnafelli sagðist ekki falla í trans heldur væri hún vakandi er hún gerði grein fyrir sýnum sínum. Sjá Skyggna konan 2. bindi, bls. 28. Ath. konurnar fóru aldrei í trans sem börn. Sjá umfjöllun Helgu Kress um leiðslu völva, Máttugar meyjar, bls. 35: „Nærtækara er að álíta að orðið sé leit af sama stofni og latneska sögnin, „volvere“, velta, snúa og vísi til leiðslunnar sem völvan fellur í, hæfileika hennar til að sjá yfir í annan heim.“ Sjá einnig Corinne G. Dempsey, Bridges Between Worlds, bls. 29.

[17] 157 Sveinn Víkingur, Lára miðill: Sagt frá dulhæfileikum og miðilsstarfi frú Láru Ágústsdóttur, bls. 156.

[18] Sjá umfjöllun um skrif Guðrún Sigurðardóttur á sögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur í bókinni Furður og fyrirbæri: Þrír kunnir miðlar og fleira fólk segir frá dulrænni reynslu sinni, eftir Erling Davíðsson, bls. 80.

[19] Jóhanna Sigurðsson, Dóttir Brynjólfs biskups. Inngangur.

[20] Margrét J. Thorlacius. Skyggna konan: Frásagnir um dulsýnir og andlegar lækningar Margrétar frá Öxnafelli. 1. og 2. bindi. Eiríkur Sigurðsson tók saman. Bókaútgáfan Fróði. Reykjavík. Útg. 1960-1963.

[21] Einar Sigurðsson, Skyggna konan, bls. 17.

[22] Margrét frá Öxnafelli segir til að mynda að vinsældir hennar hafi aukist upp úr öllu valdi í kjölfar útgáfu Skyggnu konunnar

[23] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan 1. bindi, bls. 153. Sigfús Jónsson á Einarsstöðum segir frá. Sjá einnig greinina  „Lamaður maður gengur“ í Morgunblaðinu 7. aprí 1961, bls. 146-148.

[24] Sjá dræman ritdóm um bók þar sem Guðrún Sigurðardóttir miðlar orðum prófessors Haraldar Níelssonar (f. 1868 – d. 1928), í bókinni Leiðin heim: Miðilsfundir, bls. 7. „Eitt af því, sem að þeirri bók var fundið, var, að stíll hennar hafi verið mjög bágborinn, og af þeim sökum var farið óvirðingaorðum um miðilinn og stjórnanda hans, prófessor Harald Níelsson.“

[25] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan, bls. 141.

[26] Guðrún Guðmundsdóttir, Tveir heimar: Frásagnir miðils og fundarmanna um æfi og starf, bls. 127.

[27] Sveinn Víkingur, Lára miðill, bls. 178.

[28] Sjá Péturs Pétursson, „Trúarlegar hreyfingar í Reykjavík tvo fyrstu áratugi 20. aldar,“ bls. 150-155.

[29] Guðrún Guðmundsdóttir, Tveir heimar, bls. 32.

[30] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan 2. bindi, bls. 106.

[31] Benjamín Kristjánsson, Leiðin til þroskans: Guðrún Sigurðardóttir, bls 98-99.

[32] Sveinn Víkingur, Lára miðill, bls. 165. Sjá líka t.d. Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan, bls. 32.

[33] Gagngerar breytingar á sýnum kvennanna frá barnæsku til fullorðinsára, útskýrðu sumar konurnar á þann veg, að íslensku vættirnir hefðu í reynd verið tálsýnir s.s. englar í huldumannslíki.

[34] Sveinn Víkingur, Lára miðill, bls. 173.

[35] Frásagnir skyggnra kvenna voru einkar sjónrænar, líkt og kvikmyndir, þar sem konur hafa títt birst sem ásýndir líkt og í sögum kvennanna. Í því sambandi er gagnlegt að benda á skrif kvikmyndafræðingsins Laura Mulvey, „Visual Pleasure and Narrative Cinema“, bls. 34-47.

[36] Janet Oppenheim, The Other World, bls. 10.

[37] Sjá staðlaða heima vísindaskáldskaparins með hiðsjón af rótgrónum hugmyndum um hlutverk kynjanna í Dalrún J. Eygerðardóttir, „Getur þú ímyndað þér konu? Femínísk umfjöllun um vísindaskáldskap og apaplánetu.“

[38] Nefna má að ævisagnir af skyggnum einstaklingum sýna fram á viss landfræðileg og/eða persónuleg tengsl millum þeirra, s.s. þegar barn verður á vegi skyggns Íslendings. Í því sambandi má nefna tengsl Margrétar frá Öxnafelli við fjölskylduna á Einarsstöðum og ugglaust áhrif hennar á miðilsferil Einars Jónssonar miðils.

[39] Telja má að orðið ófreskur, þ.e. að sjá fyrir óliðna atburði, hafi tengingu við orðið ófreskja/ómynd og vitni um viss viðhorf til skyggnigáfunnar.

[40] Kristín Kristjánsdóttir, Það er engin þörf að kvarta, bls. 12-13.

[41] Sveinn Víkingur, Lára miðill, bls. 34.

[42] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan 2. bindi, bls. 18-19.

[43] Sjá skrif mín um ímyndir húsmæðra/mæðra út frá sjónarhorni afkvæma sinna, þar sem m.a. kemur fram tíð orðræða um fórnfýsi o.fl. Í greininni kem ég m.a. inn á ákveðið minningastef í frásögnum fólks um mæður sínar, sem byggir á því hvernig fólk fjallaði um mæður sínar á svipaðan hátt í tengslum við sköpun lífs síns og eigin dauða í framtíðinni (þar sem sumir hreinlega óskuðu þess að mæður þeirra tækju á móti þeim eftir andlát þeirra; sem einskonar ljósmæður á himnum.) Sú orðræða í minningaskrifum um mæður hefur vissa skörun við skrif um skyggnar konur og hlutverk þeirra í tengslum við andlát fólks. Dalrún J. Eygerðardóttir, „Mamma mín er góð:“ Minningar um mæður frá 19. öld og í byrjun 20. aldar,“ bls. 88 og 92-93.

[44] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan 2. bindi, bls. 71.

[45] Dalrún J. Eygerðardóttir, Jaðarkvennasaga, bls. 302-305. Agnes abbadís, viðtal við höfund, Karmelklaustrið í Hafnarfirði. 2018.

[46] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan. 2. bindi, bls. 15.

[47] Hér má benda á að munur  var á svokölluðum hugmiðlum og efnismiðlum. Sjá umfjöllun Lofts Reimars Gissurarsonar, „Miðlar sem stjórna efni.“

[48] Páll Ásgeirsson, Játningar Láru miðils, bls. 76-78.

[49] Sjá t.d. skrif Halldórs Laxness um „Séra Lára“ í Tímariti Máls og menningar árið 1940.

[50] Sveinn Víkingur, Lára miðill, bls. 34.

[51] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan 2. bindi, bls. 64.

[52] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan 2. bindi, bls. 73. Sjá líka Guðmundur Friðjónsson, „Dulræn vitneskja“, bls. 14.

[53] Sveinn Víkingur, Lára miðill, bls. 185.

[54] Hvað varðar slitróttan miðilsferil skyggnra kvenna má nefna að konur á borð við Margréti frá Öxnafelli og Láru Ágústsdóttur stunduðu ekki miðilsstörf í mörg ár eftir að hafa dvalið og starfað sem miðlar á heimili Kvaranhjónanna. Þá er sem eyða sé í sögu þeirra sem skyggnra kvenna, og allar dulsýnir fjarri lagi, uns einn daginn að þær hófu upp raust sína á ný og kváðust á ný sjá hina látnu. Telja má að miðilsstarfið hafi verið ákveðið atvinnulegt og fjárhagslegt úrræði fyrir konur, þegar á þurfti að halda. Sjá t.d. Páll Ásgeirsson, Játningar Láru miðils, bls. 76.

[55] Janet Oppenheim, The Other World, bls. 9.

[56] Ann Oakley, The Sociology of Housework, bls. 31. Huglæknar störfuðu alltaf heimavið skv. Alex Owen, The Darkened Room, bls. 114

[57] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan. 1. bindi, bls. 69.

[58] Sjá bókarkafla um Erlu Ingileif,  „Mikil má sú virðing vera og kærleikur stór.“ Erlingur Davíðsson, Furður og fyrirbæri, bls. 55-66.

[59] Stefán Eiríksson, Leiðin heim, bls. 8-9.

[60] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan, 2. bindi, bls. 57-59. Sjá hvernig Margrét fjallar um miðilsstörfin sem hjáverk með húsverkum – sem var algengt í sögnum þessara kvenna.

[61] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan 1. bindi, bls. 68.

[62] Ann Oakley, The Sociology of Housework, bls. 182.

[63] Þorsteinn Matthíasson, Draumar og dulskyn, bls. 13.

[64] Þorsteinn Matthíasson, Draumar og dulskyn, bls. 128.

[65] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan, bls 69.

[66] Dæmi um völd skyggnra kvenna var að sjá fyrir óliðna atburði (ófreskar konur) eða sjá inn í einkalíf fólks s.s. Margrét frá Öxnafelli sem kom því á framfæri að hún sæi og heyrði úr fjarlægð t.d. hvað samstarfsfólk barna hennar talaði sín á milli.

[67] Alex Owen, The Darkened Room, bls. 11.

[68] Eiríkur Sigurðsson, Skyggna konan, bls. 191. Bréf varðandi fæðingarhjálp.

[69] Sveinn Víkingur, Lára miðill, bls. 155.[/cs_text]

Um höfundinn
Dalrún J. Eygerðardóttir

Dalrún J. Eygerðardóttir

Dalrún J. Eygerðardóttir er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands og meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræðum. Hún hefur einnig lokið BA-gráðu í kvikmyndafræði.

[cs_text][fblike][/cs_text]

Deila

Mix Parlay


yakin jp

yakin jp

yakin jp

rtp yakinjp

yakinjp

Togel Online Resmi

terbaru pola scatter x500 gates of olympus jam hoki zeus legit

auto sultan sweet bonanza multiplier x100 modal receh maxwin

mahjong ways 2 pola wild berantai tukang ojek mega jackpot

starlight princess anti rungkad petir bintang x1000 wd pasti

stop boncos wild west gold buy spin cerdas karyawan cuan 90 juta

koi gate viral pola ikan tersembunyi pemuda desa maxwin 180 juta

aztec gems maxwin trik spin manual 5 detik jackpot 70 juta

naga emas mahjong ways 3 pola bet kecil cuan miliar

joker jewels anti zonk strategi bet minimalis menang 99 persen

sweet bonanza xmas pola scatter kombo ibu rumah tangga 200 juta

gates of gatot kaca pecah analisis jam hoki sopir taksi x500

the dog house mega jackpot pola spin turbo pelajar sma 110 juta

mahjong ways scatter kombo gila teknik wild emas 420 juta

tercepat pola putaran maut starlight princess x500 nonstop

wild west gold gacor malam ini scatter emas anti rungkad sultan

koi gate pola naga biru terbongkar rtp 98 persen anti boncos

kisah pedagang sayur maxwin 150 juta pola bet stabil aztec bonanza

mahjong ways 2 pola naga hitam viral jackpot 600 juta otomatis

petir biru x1000 meledak jam gacor terbaru gates of olympus

sweet bonanza rahasia multiplier emas waktu hoki auto sultan

starlight princess pola bet kecil wd trik bintang x200 beruntun

stop rungkad rtp live habanero terbaik pola putaran otomatis

mahjong ways 3 pola scatter hitam bocor analisis maxwin 777 juta

wild west gold jackpot miliar slow spin 3 baris emas kaya mendadak

gates of olympus pola batu petir x500 tersembunyi mahasiswa maxwin

aztec gems pola quick spin cuan 100 juta tanpa rungkad anti buntung

koi gate fenomena wild gold trik manajemen modal mini jackpot 95 juta

sweet bonanza pola permen bergaris mega jackpot jam hoki buy spin

starlight princess wild emas berantai gamer profesional cuan 170 juta

mahjong ways 2 kunci utama wd trik spin santai pegawai minimarket

bukan isapan jempol rtp live pragmatic play malam ini pola bet efektif

the dog house megaways maxwin instan sopir ojol ubah nasib

gates of olympus pola petir merah terbukti akurat jam gacor jitu

wild west gold scatter biru viral bet naik turun cuan 60 juta

sweet bonanza pola permen manis x500 anti rungkad ibu beli mobil

mahjong ways 1 rahasia kuno pola spin manual jebol jackpot

starlight princess petir bintang x100 tiap jam pola putaran cerdas

aztec bonanza cuan maksimal taruhan minimalis pekerja pabrik 280 juta

koi gate trik simbol hoki tercepat pola spin turbo 15 kali auto jackpot

klaim jackpot joker jewels malam ini trik jam hoki mahasiswa cuan x100

tukang cukur teknik spin halus mahjong ways anti boncos

terapis pijat pola bet mahjong ways mengalirkan jackpot

pilot drone atur batas rugi mahjong ways aman

arsitek metode buy free spin mahjong ways 2 stabil modal

kasir baca pola simbol mahjong ways turbo spin

resepsionis transisi spin mahjong ways 4 manual ke auto

programmer kode pola binary ritme bet mahjong ways 3

pustakawan pilih jam hoki mahjong ways royal

sales timing tarik dana mahjong ways sebelum drop

montir kapal selam batas maksimal putaran mahjong ways 1

prediksi el clasico real madrid vs barcelona taktik pesta gol

trik pola bunga liar mahjong ways 2 surabaya

bukti pola petir ungu starlight princess 1000 jackpot

rahasia tiga simbol emas gold bonanza modal kecil

gates of olympus anti buntung pola 15 spin cepat

jam gacor wild west gold palembang trik

wild emas mahjong black scatter analisis jackpot

pola scatter kombo mahjong ways 3 jaminan wd

pola lonceng emas queen of bounty taruhan receh

analisis jam hoki aztec gems deluxe bocoran

trik naikkan bet bertahap sweet bonanza perkalian x500

strategi beli fitur great rhino modal minim

analisis pola simbol merah dewa petir x1000

trik rahasia scatter hijau mahjong ways fenomena

analisa akurat rtp raja kerbau pola putaran maut

bongkar pola hoki petir merah zeus 1000

strategi pola 4 baris wild emas mahjong ways 3

pengali x250 pyramid bonanza sopir taksi kaya mendadak

analisis waktu emas the dog house megaways taruhan minimalis

strategi naikkan persentase kemenangan lucky neko anti boncos

rahasia pola bet kecil starlight princess strategi sultan

petir biru x500 gates of olympus waktu hoki anti rugi

modal minimal untung maksimal bounty gold

bocoran rtp malam ini buffalo king paling untung

bongkar pola rahasia wild bandito simbol wild liar

pola kombo liar wild west gold bet kecil

analisis waktu hoki bet receh gerbang olympus x1000

trik jitu mahjong ways pola scatter hitam anti rugi

pola multiplier sweet bonanza hadiah milyar viral

analisis jackpot gates of olympus 1000 trik spin manual

pola ikan hoki scatter hijau koi gate ibu rumah tangga kaya sekejap

rahasia anti buntung rtp live sweet bonanza trik bet kecil mega jackpot

analisis pola habanero anti rungkad tukang kebun raup ratusan juta

perkalian 1000 pegawai negeri gates of olympus trik buy spin cerdas

jebol jackpot pola scatter hitam mahjong ways 3 kemenangan 480 juta

tercepat wd strategi anti gagal mahjong ways 2 wild emas maxwin 300 juta

bocoran jam gacor starlight princess akurat perkalian bintang 500

pola 3 baris wild emas gold bonanza tukang sayur gondol 250 juta

taktik pola petir biru gates of olympus modal receh untung ribuan kali

pola scatter kombo hoki mahjong ways 2 jackpot 550 juta otomatis

strategi putaran maut 9 jitu scatter emas koi gate nembak berkali kali

rekaman jackpot terbesar sweet bonanza permen merah 100 pecah 750 juta

jam hoki gold bonanza pemain bali kantongi 999 juta wild emas ajaib

pola 7 baris wild biru mahjong ways 3 pemuda desa raup 950 juta

kemenangan spektakuler gates of olympus 1000 1 2 miliar petir hitam

pola ikan emas koi gate gacor strategi bet minimalis 350 juta

analisis kemenangan puncak starlight princess 1 miliar trik spin turbo

jam gacor wild west gold karyawan toko kantongi 600 juta putaran santai

analisis pola keberuntungan dewi fortuna 500 pebisnis bawa pulang 788 juta

kunci maxwin pola naga emas mahjong ways 1 spin lambat wild komplit

fenomena wild permata aztec viral trik jitu raih hadiah 500

analisa rtp live gatot kaca pola spin manual anti rugi

modal receh jadi bos bongkar trik buy scatter wild west gold cuan puluhan juta

rahasia pola rtp mahjong ways 3 belum bocor multiplier 300 beruntun

petir hitam 1000 meledak waktu hoki gates of olympus jam gacor akurat

pola batu petir olympus jackpot 1 5 miliar

jam hoki starlight princess cuan x500

pola lonceng emas mahjong ways 2 jackpot

strategi anti rungkad naga emas liar beli putaran

pola segitiga permata aztec modal receh

maxwin pengali x1000 sweet bonanza terbaru

waktu emas wild west gold scatter 5 baris

pola sayap kupu kupu mahjong ways 3 wd pasti

strategi bet stabil gerbang ikan koi rtp 99

pola bintang jatuh princess starlight 888 juta

trik putaran turbo permen manis cuan x500

petir biru x500 olympus waktu gacor terkini

pola sinar bulan putri bintang jackpot instan

jam keberuntungan harta karun aztec 400 juta

pola 4 simbol merah gerbang kaca terbaru

jackpot 999 juta gold bonanza spin cerdas

strategi naga hitam raja kerbau scatter wild

pola mekanik emas hoki nexus untung besar

maxwin simbol biru emas koboi liar terjitu

analisis rtp langsung jam gacor slot pragmatic

trik gol real betis hancurkan atletico madrid pemain kantongi 999 juta

starlight princess anti rungkad rtp live 98 pola gacor

aztec gems trik bet minimalis jackpot 90 juta

rahasia sultan trik spin cepat the dog house maxwin

analisis pg soft pola spin cerdas mahjong ways 3 jackpot

kisah viral karyawan toko cuan 75 juta pola habanero anti rugi

panduan rtp slot pyramid bonanza kemenangan 99 persen

power of thor megaways trik gelegar x500 pola profesional

modal receh cuan maksimal pola great rhino megaways hoki

analisis jam hoki pragmatic pola spin normal jackpot

pola scatter hitam gates of olympus viral waktu hoki zeus

rahasia tersembunyi joker jewels trik keuntungan 50 juta

bocor tuntas analisis persentase menang sweet bonanza xmas

pola rahasia mahjong ways 1 sopir ojol cuan miliaran spin otomatis

jebol jackpot ratusan juta pola scatter merah wild west gold

strategi sultan trik spin turbo gems bonanza

spin manual vs auto spin efek jackpot mahjong

peta lokasi wild mahjong ways anti boncos

pelajar drop out mahjong ways dana kuliah

pola turbo spin mahjong ways mirip resep rahasia

analisa kualitas server mahjong peluang maxwin

filosofi mahjong ways pelajaran ambil risiko bisnis

panduan anti kalah reset modal mahjong ways

trik pancingan multiplier emas mahjong free spin

petani sukses mahjong ways penghasilan sampingan 180 juta

membaca ritme jarak buy spin strategi cooldown mahjong

Hat-trick Gelandang Bayangan Manchester United menegaskan dominasi tim asuhan Ten Hag, tampil konsisten layaknya pola spin stabil di dunia permainan digital modern. Drama Villa Park menghadirkan kejutan besar, ketika Ollie Watkins menjadi mimpi buruk Erling Haaland seperti pola scatter tak terduga yang muncul di waktu krusial. Tottenham Tanpa Ampun lewat duet Richarlison dan Son Heung-Min, mengingatkan kita pada kecepatan spin turbo yang tak memberi ruang lawan. Gabriel Jesus Menyelamatkan Arsenal dengan satu peluang berharga — mirip satu spin keberuntungan yang menentukan hasil besar di penghujung permainan. Brentford Bikin Kejutan Lagi kala Wissa dan Mbeumo tampil tajam, mencerminkan pola wild beruntun yang membalikkan keadaan. El Clásico Gacor jadi bukti Real Madrid masih punya pola kemenangan seperti scatter hitam yang muncul berturut-turut. Spin Turbo Liga Inggris memperlihatkan performa Villa, MU, dan Brentford yang serempak meraih hasil maksimal dengan gaya spin cepat presisi. Pola Serangan Spin Cepat jadi kunci sukses Tottenham dan Villarreal dalam meraih kemenangan penuh waktu. Bonus Round Maut antara Brentford vs Liverpool menghadirkan lima gol spektakuler, sementara MU tampil efisien layaknya pola bonus aktif. Payline Semakin Hot menggambarkan kemenangan tipis Arsenal dan Villa yang datang di detik akhir seperti scatter terakhir penentu hasil. Marcus Rashford Kembali Gacor membawa Manchester United ke jalur kemenangan, tampil konsisten layaknya pola spin berirama di dunia permainan digital. Unai Emery Tertawa Puas usai Aston Villa kembali buktikan kekuatan di kandang, seperti pola scatter tersembunyi yang muncul di waktu tak terduga. Real Madrid Balas Dendam berkat kombinasi Bellingham dan Vinícius Jr, menjalankan ritme seperti pola spin presisi dalam permainan penuh strategi. Mbappé vs Lewandowski jadi duel dua bintang besar yang membakar El Clásico, menggambarkan benturan dua scatter premium di layar kemenangan. Arda Guler Curi Perhatian dengan peran brilian di laga Madrid kontra Barça, ibarat menemukan wild tersembunyi dalam permainan slot berstrategi tinggi. Gacor atau Boncos jadi refleksi performa tim besar; City tersandung, Madrid tetap solid seperti pemain yang paham kapan berhenti spin tinggi. Free Spin Gol menggambarkan keberuntungan Tottenham dan Celta Vigo yang memanfaatkan setiap peluang seperti bonus free spin di akhir sesi. Hasil Liga Akhir Pekan menghadirkan drama tiga poin, serasa berburu scatter hitam di permainan penuh ketegangan. Bagaikan Pola Mahjong Ways jadi analogi sempurna untuk kemenangan Brentford dan Villarreal yang tampil spin turbo konsisten. Hat-trick Gelandang Bayangan mengingatkan bagaimana Manchester United bermain dengan pola RTP presisi seperti spin kemenangan terencana. Aksi Pedri Tak Cukup jadi kisah pahit bagi Barcelona, kalah lagi dari Madrid layaknya pemain kehilangan pola spin terakhir di ujung permainan. Villarreal Bangkit berkat dua gol Gerard Moreno, membungkam Valencia dengan ritme serangan seperti spin stabil yang terus berpihak pada pemain sabar. Celta Vigo Bikin Gila Publik setelah Aspas mencetak gol menit akhir, simbol dari scatter kemenangan yang muncul di waktu tak terduga. Gol Aspas di Menit 90+2 menegaskan semangat juang Celta Vigo, seperti pemain yang menemukan wild terakhir untuk menutup sesi permainan dengan gemilang. Real Madrid Comeback Elegan di tangan Bellingham, menunjukkan ketenangan ala pemain slot yang membaca pola scatter beruntun dengan akurat. Drama Villa Park memperlihatkan ketangguhan Ollie Watkins menjebol pertahanan City, seolah memecah RTP tersembunyi di saat genting. Tottenham Tanpa Ampun lewat Richarlison, pesta gol 3-0 atas Everton seperti memicu scatter beruntun di layar kemenangan. Gabriel Jesus Selamatkan Arsenal lewat satu peluang emas, ibarat satu spin presisi yang mengubah nasib di detik terakhir permainan. Brentford Kejutkan Liverpool dengan aksi Wissa dan Mbeumo, menciptakan momentum gacor yang sulit ditebak di antara dua sistem permainan. Tottenham Nyalain Spin Turbo saat Richarlison dan Son Heung-Min tembus pertahanan Everton, layaknya spin turbo yang berpihak penuh pada pemain berani. Liverpool Kehilangan Fokus saat lini belakang rapuh diterpa tekanan Brentford, seolah kehilangan pola spin bertahan di fase akhir pertandingan. Gaya Tottenham Postecoglou kian melejit; Richarlison tampil tajam bak pemain yang menemukan pola scatter stabil di setiap peluang. Aston Villa Tak Main-Main saat Watkins dan Douglas Luiz tampil efektif, jalankan strategi seperti spin terukur yang berbuah jackpot kemenangan. Manchester United Temukan Ritme berkat duet Rashford-Fernandes yang sinkron seperti spin sinkronisasi dalam mesin kemenangan. Arsenal Tipis Tapi Pasti ketika Arteta menjaga ritme permainan, memanfaatkan peluang tunggal layaknya satu spin keberuntungan yang menentukan hasil. Arsenal Menang Tipis dengan pola permainan stabil, menyerupai spin manual yang sabar hingga wild beruntun muncul di detik akhir. Aston Villa Aktifkan Scatter Hitam lewat Watkins yang mengguncang City, seolah membuka mode RTP tinggi di tengah tekanan besar. Brentford Patahkan Pola Liverpool dengan permainan cepat ala turbo spin Wissa dan Mbeumo yang membuat pertahanan The Reds panik. Manchester United Mode Auto Spin menampilkan Rashford dan Fernandes yang menyerang tanpa jeda, seperti auto spin yang tak berhenti hingga hasil keluar. El Clásico Penuh Wild menghadirkan Bellingham dan Vinícius Jr yang membongkar pertahanan Barcelona, bak wild pattern muncul di spin terakhir. Madrid Menang, Barcelona Goyang menggambarkan ketegangan El Clásico, ketika Xavi harus mencari pola kemenangan baru setelah kehilangan momentum di Bernabéu. Haaland Macet Total di Villa Park membuat Guardiola mengakui ada masalah di lini depan, ibarat scatter gagal aktif di tengah pola sempurna. Richarlison Cetak Gol Spesial di Goodison Park, membawa Tottenham ke puncak momentum seperti spin beruntun yang terus menghasilkan nilai. Vinícius Jr Berulah Lagi dengan selebrasi kontroversial, namun tetap menjadi simbol wild bebas yang tak bisa dikendalikan pertahanan Barcelona. Liverpool Masih Rapuh Tanpa Salah setelah Brentford membongkar lini belakang mereka, menyoroti lemahnya pola bertahan dalam permainan tinggi tekanan. Celta Vigo Comeback Edan berkat gol Aspas di menit akhir, menciptakan scatter tanpa henti yang ubah hasil laga jadi kemenangan mendebarkan. Gerard Moreno Nyalain Turbo Mode saat Villarreal tekan Valencia, bermain cepat dan konsisten seperti wild tiap spin dalam permainan terukur. Tottenham Tampil Disiplin lewat Richarlison yang menjalankan pola permainan presisi, bak pemain mengatur spin ritmis dengan sabar. Arsenal Menang dengan Efisiensi berkat gol tunggal Gabriel Jesus, mencerminkan satu spin tepat yang mengunci hasil pertandingan. Aston Villa Cerminkan Strategi Wild Tersembunyi di bawah arahan Emery, menumbangkan City dengan pola tersembunyi yang tak terbaca. Celta Vigo Tegas Banget menunjukkan mental juara sejati, Osasuna sempat unggul tapi Aspas balikkan keadaan dengan pola spin berani di menit akhir. Villarreal Menang Taktis berkat performa matang Gerard Moreno, yang kembali tajam seperti menemukan wild pattern setelah masa cedera panjang. MU Menari di Old Trafford lewat aksi Rashford yang tampil gemilang, layaknya spin sempurna yang jatuh di garis kemenangan. Ancelotti Senyum Lebar setelah Madrid kalahkan Barça dengan kelas, menjaga mental tim seperti pemain yang tahu kapan hentikan auto spin. Premier League Mendidih saat Aston Villa, Brentford, dan Tottenham jadi pencuri sorotan, seolah tiga scatter aktif di satu layar kemenangan. Brentford dan Liverpool sajikan duel penuh tekanan, tapi pola serangan cepat tuan rumah jadi wild card penentu kemenangan akhir. Manchester United Bangkit dengan pola serangan terstruktur; Rashford dan Fernandes jalankan spin ritmis yang mematikan pertahanan lawan. El Clásico di Bernabéu memperlihatkan Real Madrid dengan stabilitas mental tinggi, sementara Bellingham jadi simbol pola konsisten di tengah tekanan. Celta Vigo Tekanan Akhir menjadi bukti bahwa scatter momentum bisa muncul dari ketekunan dan keyakinan sampai peluit terakhir. Villarreal Menang Taktis di Mestalla lewat strategi seimbang Gerard Moreno, menampilkan spin terukur antara serangan cepat dan efisiensi. Pesilat Mojokerto Raih 78 Juta dari God of Fortune CQ9
Magic Lamp Spade Gaming Raih 190 Juta dalam Semalam
Justice League Playtech Fitur Hidden Combo dan Mode Heroic Bonus
Playboy Gold Microgaming dan Konsep Probabilitas Pemain Rasional
Moon Princess 1000 Playn Go Sistem Multiplier Dinamis
Pekerja Bengkel Surabaya Menang 62 Juta dari Hot Hot Fruit Habanero
Mahasiswa Yogyakarta Uji Keberanian di Zeus Howling Thunder CQ9
Tukang Ojek Jakarta God of Fortune CQ9 Bayar Utang Pinjol
Kunci Rahasia Magic Lamp Spade Gaming Menang 77 Juta
Analisis Ritme Liar Wild Safari Joker Gaming dan Simbol Singa Emas Kenapa The Dog House Megaways Pragmatic Play Tiba Tiba Viral Lagi Kisah Ibu Rumah Tangga di Bekasi Mengguncang RTP
Psikologi Warna di Candy Bonanza PG Soft Benarkah Kombinasi Merah dan Kuning Pemicu Cluster Win Terbesar
Mitos vs Fakta Justice League Playtech Karyawan IT di Bandung Bukukan Kemenangan 122 5 Juta di Tengah Jam Kerja
Trik Skip Intro di Playboy Gold Microgaming Pegawai Bank di Medan Raih 88 Juta Saat Server Ganti Jam
Moon Princess 1000 Cetak Sejarah Baru Mahasiswa di Surabaya Tembus 95 Juta Berkat Ritual Ganti Jaringan 4G
Pola Triple Hot Hot Hot Fruit Habanero Eksperimen Penjaga Warung di Bogor Berakhir 112 Juta Tanpa Turbo Mode
Apakah Zeus Howling Thunder CQ9 Punya Jam Terlarang Pengakuan Streamer Tentang Waktu Delay Terbaik
5 Pola Efisien Bermain Wild Safari Joker Gaming agar Spin Tetap Konsisten Tanpa Harus Over Budget
The Dog House Megaways Pragmatic Play Strategi Ritme Pola Spin dan Momentum Waktu yang Tepat Bisa Bikin Wild Jatuh Beruntun
Candy Bonanza PG Soft Sembunyikan Mekanik Rahasia Analisis Pola Scatter yang Ternyata Bisa Diatur dengan Timing