Góðan daginn, Faggi!

Leikhúsþyrstir áhorfendur geta nú glatt sig með því að sjá söngleikinn Góðan daginn, Faggi í Þjóðleikhússkjallaranum. Tónskáldið er Axel Ingi Árnason en efnið leggur Bjarni Snæbjörnsson til. Þau Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri, unnu verkið upp úr dagbókum hans. Það hefur ekki verið létt því að  drengurinn er sískrifandi nánast frá blautu barnsbeini, dagbækurnar eru vinkonur hans og (næstum) allt segjandi og hann á þær allar enn auk bréfa sem hann hefur skrifað fjölskyldu og vinum.

Þetta er sem sagt sjálfsævisögulegt verk sem hverfist að mestu um kynhneigð höfundar sem er fæddur árið 1978 og því jafngamall Samtökunum 78. Heimabær hans, Tálknafjörður, er alls ósnortinn af þeim samtökum því þar ríkir hið gagnkynhneigða forræði eitt og ber við hinn vestfirska himin.

Bernskuumhverfi Bjarna er barnaparadís, hann leikur sér einkum við stelpurnar og marga fer að gruna hitt og þetta þegar tímar líða fram. Hann er trúað barn, skilur að samfélagið fordæmir samkynhneigð og stingur inn í faðirvorið frómri ósk til Guðs að forða sér frá að verða hommi. Hann kemur seint út úr  skápnum, er kominn undir tvítugt. Í einum söngvanna fengu áhorfendur að taka undir viðlagið, gerðu það af hjartans lyst og sungu: „Komdu út, komdu út, komdu út, við erum öll að bíða eftir þér.  Komdu út, komdu út, komdu út – við vitum þetta öll hvort eð er …“

Kjarni verksins  er sú erfiða þversögn að fallegur og glaðlyndur krakki frá fögrum firði í frjálslyndasta landi heims, samkynhneigðu Paradísinni, Íslandi, skuli verða svo sundurtættur af sjálfshatri vegna kynhneigðar sinnar að hann fær alvarlegt taugaáfall á fullorðinsárum. Hvers vegna?  Það er ekkert að! Það eru engir fordómar lengur gagnvart samkynhneigð – göngum við ekki öll í gleðigöngunni? Hann hefur ekki undan neinu að kvarta og allir elska hann!  Hvaðan kemur þá sjálfshatur hans. Þjáning hans hefur „ekkert“ viðfang. Þessu er varpað til áhorfenda en þeir fá kannski ekki alveg úr nógu að moða.

Við fylgjumst með gleði og sorgum drengsins og síðar unga mannsins í gegnum dagbækurnar. Hann er elskulegt barn sem vill öllum þóknast en öll hans félagslega aðhæfing beinist burt frá því sem hann veit innst inni að hann er og verður að afhjúpa þó að hann reyni að fresta því í lengstu lög.  Þetta er jafnframt kvöl allra minnihlutahópa andspænis meirihlutanum og skilgreiningavaldinu sem smýgur inn í vitund fólks frá upphafi. Bæði sorg og reiði yfir hinum týnda tíma eru tjáð í söngvunum í verkinu í bland við gleði og sprell. En mér fannst vanta skýrari byggingu í sýninguna, hápunkt sem sprengdi hinn undirliggjandi sársauka verksins gegnum varnarveggi áhorfendanna. Það hefði með öðrum orðum mátt ganga nær bæði höfundi og áhorfendum.

Söngleikurinn er melódramtískt form, oftast tilfinningasamt og ýkt, því að hinu talaða  er ekki treyst til að tjá tilfinningar persóna. Þegar mikið liggur við bresta persónur í söng og stækka gleði sína og harm í tónum. Við erum vönust stórum söngleikjum með hljómsveitum og kórum og tveggja manna söngleikur er merkileg tilraun sem tókst bara prýðilega. Tónlist Axels Inga býður upp á blöndu af fallegum melódíum og vísunum til söngleikjahefða og kabaretts.  Bjarni Snæbjörnsson er menntaður söngleikjasöngvari og mjög góður söngvari og sveiflaði sér léttilega milli stíltegunda.

Mæli með þessari sýningu.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila