Kvikmyndafræði Háskóla Íslands hefur tekið þátt í Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaununum (European University Film Awards, EUFA) undanfarin þrjú ár, en um er að ræða verkefni á vegum Evrópsku kvikmyndaakademíunnar og Kvikmyndahátíðarinnar í Hamborg. Tuttugu og fimm háskólar í jafnmörgum löndum koma að verðlaununum en nemandi frá hverjum þeirra er valinn til að sækja þriggja daga ráðstefnu í Hamborg. Á þessari ráðstefnu er sigurmyndin valin, en verðlaunaafhendingin sjálf fer svo fram skömmu síðar og er hluti af Evrópsku kvikmyndaverðlaununum. Í Hlaðvarpi Engra stjarna að þessu sinni er rætt við þá þrjá nemendur sem tekið hafa þátt í lokaráðstefnunni í Hamborg fyrir hönd HÍ um reynsluna af því að vera í dómnefnd alþjóðlegra kvikmyndaverðlauna, þau Arínu Völu Þórðardóttur, Nikulás Tuma Hlynsson og Petru Ísold Bjarnadóttur. Þáttarumsjón Björn Þór Vilhjálmsson.
[fblike]
Deila