Oceanfront High School er í miðju stormsins. Kynlífsbyltingin ríður yfir og ungviðið er stjórnlaust, siðgæði heyrir sögunni til og með skilningsvana augum fylgjast fullorðnir með úr fjarlægð. Miðjan heldur ekki, menningin riðar til falls. Ekki eru þó allir kennarar skólans týndir í hneykslunarvímu, aldraðir um aldur fram og lamaðir í anda, undantekningu er sem betur að finna, kennara sem jafnframt er skínandi holdtekja sannrar karlmennsku: Michael „Tiger“ McDrew. Tiger er fótboltaþjálfari skólans og félagsráðgjafi, leiktúlkaður með býsna ógleymanlegum hætti af Rock Hudson, sem skartar enn ógleymanlegra yfirvaraskeggi í hlutverkinu. Hann veit hvað klukkan glymur og hvað unga fólkið syngur.
Sérstakur skjólstæðingur Tigers, hinn dásamlega nefndi Ponce de Leon Harper (John David Carson), glímir við vandamál sem er í senn vandræðalegt og illviðráðanlegt – kynferðislegt vandamál. Ponce trúir Tiger fyrir því að hann geti ekki verið innan um kvenfólk án þess að honum rísi sjálfkrafa hold, stjórnlaust og stanslaust – og Tiger réttir auðvitað fram hjálparhönd, eins og skátarnir er hann ávallt reiðubúinn. Nú kann sitthvað að vera athugavert við það að miðaldra karlkennari taki ólögráða unga drengi á ítrekuð eintöl um einkamál þeirra og kynferðismál í lokuðum rýmum, en afskipti af því tagi eru hins vegar með því alsaklausasta sem Tiger tekur sér fyrir hendur innan veggja skólans.
Lausnin við kvilla Ponce virðist þó vera innan seilingar. Nýr kennari hefur gengið til liðs við þessa ágætu menntastofnun, Bettie (Angie Dickinson), og hún (auðvitað) þráir Tiger frá því að hún fyrst ber hann augum, og tekur því ekki ýkja vel, allavega í fyrstu, að hann virðist staðráðinn í að beina henni að nemandanum áðurnefnda, hinum kvalda, sístandandi og afskaplega unga Ponce de Leon. Útspil Tigers er róttækt og að hans mati eflaust í anda kynlífsbyltingarinnar. Hann skipar Bettie að bjóða drengnum heim til sín síðla um kvöld, og í framhaldinu „lækna kynferðiskvilla drengsins“, eins og Tiger orðar það. Að vísu er látið liggja milli hluta hvernig sú lækning skuli fara fram en að höfundur ráðabruggsins, félagsráðgjafi skólans, skuli ekki setja nein skýr mörk þýðir auðvitað að allt er leyfilegt.
Vissulega hljómar þetta allt guðdómlega, en Adam var ekki lengi í paradís. Viti ekki menn, aldrei fær yfirvaraskeggið hans Rock að vera í friði. Fjöldamorðingi tekur upp úr þurru að herja á nemendur skólans, sem skiljanlega tálmar venjubundið skólastarf. Það eru ungar stúlkur sem verða fyrir barðinu á morðingjanum, hvurs einkennismerki er að næla dularfull skilaboð við bossann á líkunum.
Böndin taka fljótt að beinast að kennaraliðinu. Getur verið að félagsfrömuðurinn og fótboltahetjan Tiger sé ekki allur þar sem hann er séður? Líkin hrannast upp, og það þótt harðasti rannsóknarlögreglumaður þeirrar sturluðu veraldar sem lifir innra með handritshöfundi myndarinnar mæti á staðinn, sjálfur Kojak (Telly Savalas). Tekst Tiger að sanna sakleysi sitt? Eða er hann í raun fótboltafól og félagsráðgjafapervert, flagð undir fögru yfirvaraskeggi? Hvernig fer fyrir Ponce de Leon Harper (ef nafnið er sagt fimm sinnum í röð fyrir framan spegil mun yfirvaraskeggið á Rock Hudson birtast, segir goðsagan)?
Pretty Maids All in a Row var fyrsta leikstjóraverkefni Roger Vadim í Bandaríkjunum og hann hugsaði myndina sem hárbeitta og afbyggjandi gagnrýni á yfirborðsmennsku og ódýra neysluhyggju þessa frumstæða stórveldis. Útkoman hins vegar er ein af fyndnari kvikmyndum eftirstríðsáranna, og um leið ein sú mest truflandi. Það þarf svo ekki fjölyrða um vondleika myndarinnar, í henni er hver einasti myndrammi vitnisburður um skipbrot kvikmyndamiðilsins í ólgusjó þeirrar alltumlykjandi geggjunar og hæfileikaskorts sem er jafn áberandi í grunnhugmyndum frásagnarinnar og verklegum úrlausnum tökuferlisins. Ef Ed Wood var eins konar Leníngrad kúreki listabíósins þá væri hinum franska Roger Vadim sennilega helst líkt við Phil Collins, og þá af sömu ástæðum og hann er eftirlætis tónlistarmaður Patricks Bateman í American Psycho.
Nokkra hluti verður að hafa í huga. Rock Hudson var vinsælasta stjarnan í Hollywood á sjötta áratugnum. Hjartaknúsari heimsins og sætudúllan sem Doris Day elskaði í mynd eftir mynd. Hann var jafnframt samkynhneigður, nokkuð sem allir í Hollywood vissu en engan utan kvikmyndaverkbólsins mátti einu sinni gruna, þá hefði ferlinum verið lokið. Þegar Pretty Maids All in a Row er gerð árið 1972 er hins vegar verulega farið að síga á seinni helming ferilsins, og allnokkuð á ógæfuhliðina. Rock passaði illa inn með Brando, DeNiro og síðhærðum hippabyltingarmönnum Nýju Hollywood. Og þannig má hugsanlega skýra að hann sé í þessari mynd. Það að Rock sé það efst í huga að vernda og jafnvel pússa aðeins upp heterohetjuímynd sína, sem aðeins hafði tekið að slá í á þessum síðustu og verstu, er augljóst frá fyrstu mínútum myndarinnar, en að fylgjast með þessum geðþekka myndarmanni flandrast í gegnum framvinduna er eins og að horfa upp á góðskáld reyna að fóta sig í kommentakerfi á netinu, þetta er ókennilegt, ókræsilegt, og rangt. Á sama tíma er sjónarspilið dálítið heillandi og höfðar til þess syndumspillta í okkur öllum. Og er af þeim sökum líka upphafið og dásamlegt.
Mynd eins og þessi verður aldrei endurtekin, í sjálfu sér er tilvist hennar jafnmikið kraftaverk og tilvist Citizen Kane. Ólíkt þeirri mynd er þessi hins vegar dálítið óþægileg viðbót við veruleikann og kvikmyndamenninguna; um þetta bað enginn. Sjáldan hafa leikstjóraórar fengið að raungerast með viðlíka ódulbúnum hætti, og þeir vekja ónot á sama tíma og hjarta hvers áhorfanda fyllist af vantrú andspænis öllu því sem fyrir augu ber á skjánum. Bandaríski gagnrýnandinn Andrew Sarris sagði Pretty Maids All in a Row vera eina af tíu verstu kvikmyndum allra tíma. Quentin Tarantino segir hana eina af tíu bestu kvikmyndum allra tíma. Tesa og antítesa – hver verður syntesan? Með hvorum stendur þú?
[fblike]
Deila