„Hingað erum við komin til að dæma bestu myndina, ekki versta ástandið“: Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunin

Kvikmyndafræði Háskóla Íslands hefur tekið þátt í Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaununum (European University Film Awards, EUFA) undanfarin tvö ár, en um er að ræða verkefni á vegum Evrópsku kvikmyndaakademíunnar og Kvikmyndahátíðarinnar í Hamborg. Tuttugu og fimm háskólar í jafnmörgum löndum koma að verðlaununum en nemandi frá hverjum þeirra er valinn til að sækja þriggja daga ráðstefnu í Hamborg. Á þessari ráðstefnu er sigurmyndin valin, en verðlaunaafhendingin sjálf fer svo fram skömmu síðar og er hluti af Evrópsku kvikmyndaverðlaununum. Í ljósi þess að Ísland heldur verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna árið 2020 verða háskólaverðlaunin að þessu sinni veitt í Hörpu í lok árs, en ráðgert er að 1400 gestir verði viðstaddir hátíðina sjálfa, einkum fagfólk er tengist kvikmyndaheiminum auk blaðamanna. Viðburðurinn verður sýndur á RÚV og jafnframt sendur út til evrópskra sjónvarpsstöðva.

EUFA verðlaunin virkja með beinum hætti háskóla og háskólastúdenta í þverþjóðlega menningarumræðu og lifandi kvikmyndamenning Evrópu líðandi stundar er leidd inn í kennslustofur álfunnar. Þannig er stuðlað að kennslu– og menntamenningu hvurs sjóndeildarhringur er víðari en sem nemur hinu þjóðlega. Einnig er stuðlað að samstarfi háskóla, tengslamyndun fræðimanna og ekki síst verið að skapa stökkpall og svigrúm fyrir tengslamyndun nemenda í kvikmyndafræði milli þjóða og menningarheima. Hvað þetta varðar eflir EUFA verkefnið kennslu í kvikmyndafræðum og leggur jafnframt grunninn að dýnamískri alþjóðlegri samræðumenningu á sviði hugvísinda.

Rjómi evrópskrar kvikmyndamenningar og kennsluumhverfið

Myndirnar sem tilnefndar eru til EUFA verðlaunanna eru valdar úr tilnefningamenginu til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna. Það er að segja, af þeim 50-60 frásagnarmyndum og 10-20 heimildarmyndum sem öllu jafnan eru tilnefndar til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna eru fimm valdar fyrir Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunin.

Ákveðið frumskilyrði fyrir þátttöku HÍ er að nemendum í tilteknum áfanga sé gert kleift að horfa á og ræða allar fimm myndirnar sem eru tilnefndar, og það er ekki endilega sjálfsagt að hægt sé að skapa svigrúm fyrir þetta margar kvikmyndasýningar í hvaða áfanga sem er, einkum þar sem ekki er vitað fyrirfram hvaða myndir þetta verða. Hins vegar er grunnnámskeið kvikmyndafræðinnar, „Kvikmyndarýni“, sérstaklega sveigjanlegt og hentugt í þessum kringumstæðum. Í hverri kennsluviku í námskeiðinu er fjallað um tiltekið svið eða þátt í fræðilegri umfjöllun um kvikmyndir, og þannig er farið koll af kolli yfir mikilvæg grunnatriði. Í einni viku er fjallað um klippingu til dæmis, í annarri um kvikmyndatöku, í þeirri þriðju leikmyndina og í þeirri fjórðu frásögn, og svo framvegis. Samhliða fyrirlestrum og lestri nemenda er mynd sýnd sem svo er rætt og fjallað um í samhengi við viðkomandi áhersluatriði (klippingu, leikmynd o.s.frv.) og þar sem hægt er að fjalla um nær allar kvikmyndir á þessum forsendum hefur reynst auðvelt að innlima myndirnar sem EUFA tilnefnir í kennsluefni þessa námskeiðs.

Myndirnar fimm eru þannig sýndar í skipulagðri dagskrá námskeiðsins, umræðurnar eru sömuleiðis innlimaðar í kennsluhættina, og þegar allar fimm myndirnar hafa verið sýndar og ræddar fer fram formleg kosning, nemendur fylla út eyðublöð frá EUFA og niðurstöður þessarar kosningar eru svo sendar til Hamborgar. Þessi „innri“ kosning í háskólunum hefur áhrif á það hvaða myndir komast uppúr fyrstu umferðinni á ráðstefnunni.

Vert er jafnframt að geta þess að valnefndin sem velur tilnefndu myndirnar fimm fyrir EUFA-verðlaunin hefur ákveðin viðmið að leiðarljósi. Þannig er algengt að kvikmyndir sem tækla „stóru spurningarnar“ í evrópskri samtímamenningu séu tilnefndar, s.s. sambandi Evrópu við aðra menningarheima, straumi flóttamanna til álfunnar, arðráni hagsælla vestrænna þjóða á öðrum fjarlægari þjóðum, uppgangi fasisma og nýnasisma í Evrópu, og svo mætti áfram telja.,

Það var Nikulás Tumi Hlynsson sem síðastliðinn desember ferðaðist til Hamborgar sem erindreki kvikmyndafræði Háskóla Íslands, og lék mér forvitni á að heyra af ferðalaginu, ráðstefnunni og því sem á daga hans dreif. Þessi forvitni er jafnframt aflvaki viðtalsins sem hér fylgir á eftir.

 

 

Ég hef hér í inngangi gert atlögu að því að lýsa þeim formrænu „verkferlum“ sem liggja að baki þátttöku einstakra háskóla í EUFA-verðlaununum. Áður en við höldum til útlanda langaði mig til að grennslast aðeins fyrir um það hvernig þetta blasti allt saman við þér. Hvaða myndir voru þetta sem voru tilnefndar og var samhugur í bekknum um að ákveðnar myndir, eða ákveðin mynd, stæði uppúr? Og hvernig tilfinning var það svo þegar þú reynist skyndilega, og undir lok kennslumisserisins, vera á förum á kvikmyndafræðiráðstefnu í útlöndum?

Myndirnar sem við horfðum á voru valdar með það í huga að höfða til háskólanema. Þær fjölluðu allar um ungt fólk og áhersla var jafnframt lögð á mikilvæg málefni, til dæmis forboðna samkynhneigð í Georgíu eða upplifun kvenna í karllægum heimi Norður Makedóníu. Eftir að myndirnar fimm höfðu allar verið sýndar var kosning meðal nemenda og þar vann Portrait of a lady on fire (Portrait de la jeune fille en feu) eftir Céline Sciamma með yfirburðum. Flestir voru sammála um ágæti þeirrar mögnuðu myndar, Systemsprenger og And Then We Danced voru einnig hátt metnar meðal bekkjarins.

Ég væri að segja ósatt ef ég héldi því fram að það hefði ekki komið mér á óvart að vera valinn, krakkarnir í bekknum eru allir ótrúlega klárir og fyrir mitt leyti hefðu flestir sem þarna voru átt erindi til Hamborgar. En ég var svo heppinn að vera valinn úr þessum frábæra hópi og varð ég strax ótrúlega spenntur fyrir að fara út fyrir hönd háskólans. Ég verð að viðurkenna að smá stress heltist einnig yfir mig, ég fór að sjá fyrir mér einhverja svaka bíótöffara þarna úti og ég fann fyrir smá kvíða yfir því að þurfa að keppast við þau í umræðum og rökleiðslum. En aðallega var ég spenntur og himinlifandi yfir fréttunum, algjör draumur að fá að fara til útlanda til þess að ræða um kvikmyndir á þessum vettvangi og fá að deila pælingum um bíó með hinum erindrekunum. Ég hafði samband við Arínu Völu sem fór fyrir hönd Háskóla Íslands á EUFA ráðstefnuna í fyrra til þess að fá betri innsýn í fyrirkomulagið og þá varð ég enn spenntari, enda hafði hún ekkert nema góða hluti að segja um ráðstefnuna.

Ég geri ráð fyrir og vona að samskiptin við EUFA liða í útlöndum hafi gengið vel og sömuleiðis að vel hafi verið staðið að ferðaáætluninni. En þú sem sagt flýgur til Hamborgar, hvað er það sem gerist næst?

Á flugvellinum tók á móti mér indæll þýskur maður sem heitir Darius. Hann fylgdi mér á hostelið og sýndi mér aðeins borgina. Byggingin sem hýsti okkur var upprunalega lögreglustöð í seinni heimstyrjöldinni. Eftir stríð lá húsið autt í dágóðan tíma, seinna tók hópur af listamönnum sig saman og keyptu húsið af ríkinu í þeim tilgangi að byggja það upp sem samkomu- og vinnurými listafólks. Í dag má finna veitingarstað, hostel, vinnurými listamanna, fundarsali og sýningarherbergi, allt í þessu húsi. Þess vegna var andrúmsloftið dásamlegt og hentaði vel fyrir ráðstefnu að þessu tagi, þar sem umræður um kvikmyndir og list áttu að eiga sér stað. Eftir túr um húsið kom maður sér bara fyrir og byrjaði að kynnast hinum krökkunum.

Gætirðu lýst aðeins fyrir okkur hvernig ráðstefnan sjálf fór fram? Þarna eru um 25 nemendur frá ólíkum löndum, hvernig var gengið að verkefninu? Hvað var það fyrsta sem var gert og hvað svo? Hvernig virkaði þetta allt á þig?

Á fyrsta deginum var okkur skipt upp í minni hópa og fékk hver hópur það hlutverk að ræða eina af þeim fimm myndum sem tilnefndar voru. Hver hópur átti að færa rök fyrir því að myndin sem hópurinn ræddi gæti orðið fyrir valinu sem sigurmynd. Svo var skipt um mynd og hópurinn fékk einhverja aðra í sigtið, en í sama tilgangi, ræða um hana og taka saman punkta um kosti hennar. Þannig náðu allir að ræða vel og vandlega um hverja einustu mynd og átta sig á kostum og göllum hennar, þessar umræður víkkuðu algjörlega sjóndeildarhringin hjá mér, og örugglega flestum öðrum. Í hvert skipti komu í ljós hlutir sem maður var ekki endilega meðvitaður um í upphafi ráðstefnunnar.

Næsta degi vatt fram með svipuðum hætti, okkur var skipt í hópa og undirbúnir voru punktar sem myndu hjálpa okkur við að flytja lokayfirlýsingu um þá mynd sem við völdum. Áhersla var lögð á að ákveða hvaða mynd hópurinn vildi að yrði sigurmyndin og við þurftum að vega og meta kosti og galla hverrar myndar fyrir sig og komast þannig að lokum að niðurstöðu um hvaða mynd yrði fyrir valinu.

Síðasta daginn var hópnum stillt upp í röð og hver og einn átti að flytja stutta yfirlýsingu um þá mynd sem hann/hún valdi og afhverju sú varð fyrir valinu. Tilgangur þess var að gefa öllum færi á að heyra endanlegt álit allra hinna áður en kosningin fór fram.

Fyrirkomulagið fannst mér ansi gott, öllum gafst færi á að koma sinni skoðun á framfæri og hver mynd fékk nóg pláss í umræðunum. Og í umræðunum fór maður í allar áttir um það hvaða mynd yrði fyrir valinu en að þeim loknum hafði maður öðlast góða heildarsýn sem hjálpaði við að þrengja valið. Reyndar fannst mér stýringin á umræðunum stundum dálítið einkennileg. Það er að segja, með okkur voru leiðbeinendur sem útskýrðu hvernig umræðurnar áttu að fara fram, hvernig við ættum að meta myndirnar og þau stýrðu umræðunum upp að ákveðnu marki. Oft á tíðum fannst mér þessi inngrip þeirra leiðast út í umræðu um hvaða mynd tæklaði mikilvægasta málefnið frekar en hver gerði það best og var besta myndin yfir heildina. Til dæmis er Portrait ansi lúmsk í gagnrýni sinni á ýmis vandamál, lúmskari en aðrar myndir hátíðarinnar, og virtust margir skauta framhjá henni eftir umræðurnar því aðrar myndir deildu á „mikilvægari“ málefni á augljósari hátt. En þetta hafði ekki stór áhrif á lokaútkomuna og annars voru umræðunum stýrt á mjög góðan hátt. Undir lokinn var samhljómur um að hér værum við komin til að dæma bestu myndina, ekki versta ástandið.

Sigurmyndin var Svipmynd af logandi hefðarkonu eftir Céline Sciamma, og hún var nokkuð áberandi sigurvegari hjá okkur líka hérna heima. Hvernig var ferlið sem leiddi til útnefningar hennar sem sigurmyndarinnar? Var þetta alltaf augljóst eða var tekist á um þetta meðal ykkar, nemendaerindrekana?

Þegar hópurinn kom saman fyrst og fór að ræða myndirnar virtist vera almennur samhljómur meðal okkar um hvaða mynd yrði fyrir valinu, Portrait of a Lady on Fire. Flestir töluðu um að þetta væri langbesta myndin og að hinar, þrátt fyrir að vera frábærar, ættu varla séns. Aðeins voru nokkrir í hópnum, fulltrúrar Frakklands og landanna þar í kring, Ítalíu, Sviss og Þýskalands, sem voru á öðru máli um ágæti hennar. Ansi merkilegt að franska myndin hlaut einróma lof nema frá heimalandinu og nágrannalöndunum. En annars voru flestir á sama máli, Portrait þótti langbesta myndin. Þegar formlegar umræður hófust breyttist hjóðið svolítið í hópnum. Umræður vöknuðu um ágæti hinna myndanna og líkt og ég minntist á áðan fóru margir að hallast að þeirri mynd sem tæklaði stærsta vandamálið. And Then We Danced var þar fremst í flokki og fékk hún mikla athygli í lokaumræðunum (enda frábær mynd). Þegar hver og einn flutti lokayfirlýsingu var hópurinn ansi jafnt skiptur í flokk Portrait og Danced. Þegar kosningarnar stóðu yfir var ég alls ekki jafn öruggur um sigurlíkur Portrait og ég var við komu mína en yfirlýsingarnar gerðu greinilega eitthvað gagn, enda endaði hún með því hljóta Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunin.

Gætirðu aðeins lýst andanum sem var ríkjandi þessa daga? Hvernig voru samskiptin við hina nemendurna? Og stjórnendur? Var félagslífið gott, hvað var gert á kvöldin?

Andrúmsloftið var dásamlegt, stjórnendur rástefnunnar lögðu mikla áherslu að við myndum kynnast vel. Við fórum saman að skoða borgina, okkur var boðið í bátsferð um höfn Hamborgar og fórum öll saman á veitingarstaði í lok dags. Okkur kom öllum einstaklega vel saman, enda auðvelt að kynnast fólki þegar það deilir svona stóru áhugamáli líkt og við gerðum. Eftir kvöldmat var förinni annaðhvort haldið út í skemmtanalíf Hamborgar með öllu því sem því fylgir, drykkjum og dansi, eða aftur að hostelinu þar sem hægt var að eiga þæginlegar samræður yfir nokkrum bjórum. Stjórnendur hátíðarinnar héldu vel utanum okkur, borguðu fyrir mat og jafnvel drykki og pössuðu upp á að alltaf væri fullur ískápur af bjór á hostelinu. Stemningin var frábær, manni leiddist aldrei þökk sé frábæru krökkunum og góðu utanumhaldi stjórnendanna.

Ég eignaðist frábæra vini á ráðstefnunni sem ég er ennþá í sambandi við og er allur hópurinn með groupchatt sem er ótrúlega virkt. Á hverjum degi senda krakkarnir inn skoðannir á málefnum líðandi stundar, kvikmyndameðmæli og almennt spjall. Ég bjóst ekki við að eignast svona góða vini og að hópurinn myndi halda svona góðu sambandi eftir að allir færu heim. Miklar kvikmyndaumræður eru ennþá í gangi á milli okkar, meðal annars sendu allir meðmæli á uppáhalds myndum heimalands síns og út frá því var útbúinn fjölbreyttur og skemmtilegur listi af Evrópskum kvikmyndum. Núna á tímum kóróna-faraldursins deila krakkarnir sögum um hvernig ástandið sé tæklað í þeirra heimalöndum. Það er mjög áhugavert að vera í þessum hópi og fá tækifæri til að heyra frá fyrstu hendi hvernig ástandið er í löndum sem maður myndi annars ekki heyra frá.

Hvað myndir þú segja að þú hafir lært á því að vera erindreki HÍ á EUFA ráðstefnunni? Hvað stendur uppúr þegar þú lítur um öxl?

Ég lærði margt á EUFA ráðstefnunni, okkur voru gefin ný tæki til greiningar á kvikmyndum og áhugavert var að sjá hvernig fólk frá ólíkum löndum nýtti þau á mismunandi þátt. Ólíkir áherslupunktar komu frá hverju landi en samt mátti alltaf finna samhljóm meðal okkar.

Ráðstefnan varpaði einnig ljósi á mikilvægi listabíóa líkt og Bíó Paradísar. Allar myndir hátíðarinnar nema ein, Pirhanas, hafa verið sýndar í Paradís, sem er eini vettvangurinn fyrir þessar myndir til að sjá dagsljósið á Íslandi og umræður ráðstefnunnar sýndu mikilvægi þess að hafa þessar myndir í almennum sýningum. Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða haldin í Hörpu núna í lok árs og finnst mér ólíklegt að nokkurt bíó muni sýna þær myndir sem verða á hátíðinni þegar hurðum Bíó Paradís verður lokað. Ráðtefnan kenndi mér að kvikmyndasýningar eiga alls ekki að afmarkast við við stærstu hittara Hollywood heldur miðla heimsbíóinu til áhorfenda. Og í þeim skilningi er Bió Paradís eini glugginn sem við höfum út í heiminn.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila