Heyrðu ekki, sjáðu ekki og segðu ekkert illt

Leikmynd Gretars Reynissonar á Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu er sterk og stílhrein. Rýmið er grátt og kuldalegt með samhverfum helmingum, í báðum er stór ofn og vinnuborð.  Á öðru liggur lík, á hinu liggur brauðdeig. Tveir eldar brenna glatt í ofnunum, annar í þágu dauðans og hinn í þágu lífsins.  Þarna vantar ekkert og engu er ofaukið.

Tveir ungir menn vinna þarna, annar er Helgi Þór Jónsson, líksnyrtir (Hilmar Guðjónsson) en hinn er vinur Helga, bakarinn (Hjörtur Jóhann Jónsson). Ung stúlka, Katrín (Þuríður Blær Jóhannsdóttir) stillir sér upp aftast á sviðinu og fylgist með Helga snyrta líkið. Það er raunar af föður hennar sem hún á ekkert gott upp að inna og það er Helgi sem hún vill hitta.

Ástin

Katrín og Helgi Þór hafa verið saman einu sinni áður og taka upp sambandið á ný. Á stóran vegg á baksviðinu er varpað svart-hvítu myndbandi af faðmlögum þeirra, brosum, kossum og atlotum. Það er fallegt mótvægi við tilfinningakuldann sem einkennir sambönd fólks og veruleika beggja. Katrín og Helgi Þór eru bæði sködduð og tilfinningasvelt, þau geta ekki höndlað þetta samband, þau treysta því ekki. Þuríður Blær og Hilmar fóru afar vel með þessi hlutverk, einkum blíðu kaflana.

Faðirinn

Faðir Helga Þórs er leikinn af Bergi Þór Ingólfssyni sem fór á kostum. Hann á útfararstofuna, er roskinn töffari, fauti og heimilisharðstjóri. Í augum hans er sonurinn sjálfsögð framlenging á honum sjálfum, orðinn til fyrir hann, og enginn annar skal njóta hans. Honum er mjög uppsigað við bakarann, sem er flókin persóna sem tengist sögu fjölskyldunnar á marga vegu. Jón segir syninum frá sýn sinni, fyrirboða um að einhver muni brenna, einhver deyja og einhver skera úr sér tunguna. Báðir trúa því að spádómurinn muni fram ganga.

Örlagatrú og ýmiss konar hugmyndir um að tilvera okkar sé for-rituð eru ævafornt erfðagóss vestrænnar menningar. Samkvæmt örlagatrúnni getum við ekki annað en fetað þá slóð sem við höldum að við höfum valið en var í raun eina opna leiðin, leið sem er mörkuð af æðri máttarvöldum. Óhugnanlegur spádómur eða sýn föðurins felur þannig jafnframt í sér bölvun. Í leikverkinu öllu eru vísanir til grískra harmleikja og örlagasagna.

Ofbeldi

Faðirinn hefur barið alla burtu sem reyna að keppa við hann um soninn, þar með talda móðurina. Helgi kvartar undan því að faðirinn hafi sölsað vilja hans undir sig og það er nokkuð til í því. Helgi getur ekki varið bakarann, eina vininn sem hann á, og hann getur ekki tekið af skarið i sambandi þeirra Katrínar. Orð hans eru einskis virði, allt snýst í höndunum á honum. Hann rofnar.

Í verkum Tyrfings Tyrfingssonar birtist  fólk af öllum stéttum og þjóðfélagshópum,  þar er lýst smekkleysi, grótesku, húmor, ofbeldi og uppreisn. Helgi Þór rofnar er þar engin undantekning. Persónur í verkum Tyrfings eiga það til að vera ofboðslega orðljótar og gamanið grátt. Sumir atburðir í þessari sýningu eru beinlínis viðbjóðslegir en fegurðin er þar líka og harmleikurinn. Utan um allt þetta heldur leikstjórinn Stefán Jónsson af mikilli list.

Lok verksins, þar sem faðirinn horfir sturluðum augum á okkur yfir lík sonarins, kallast á við klassíska harmleiki eins og Lé konung, goðsögur eins og Ödipus konung og skáldsögur eins og Bjart í Sumarhúsum. Helgi Þór rofnar er frumlegt og viturt verk sem snertir áhorfendur djúpt.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila