Englar á sviðinu

Í Kassanum í Þjóðleikhúsinu er sýnt verkið Engillinn eftir Þorvald Þorsteinsson. Það er Finnur Arnar Arnarson sem á heiðurinn af handriti, leikmynd og leikstjórn. Hann segir frá því í viðtali í rafrænni leikskrá að í Þjóðleikhúsinu hafi verið pappakassi, fullur af handritum að ýmiss konar verkum eftir Þorvald heitinn, stórum og smáum, fullgerðum og ófullgerðum. Hann tók að sér að búa til sýningu úr þessu efni í anda Þorvalds.   

Sviðið 

Sviðsmynd Finns Arnars Arnarsonar, sem blasir við áhorfendum þegar inn er komið minnti svolítið á eitt af uppáhaldssöfnunum mínum, Smámunasafnið innarlega í Eyjafirði. Leikmyndin er við fyrstu sýn eins og gríðarlegur haugur af “smámunum” (drasli).  Uppúr rýminu liggur járnstigi og pallur á honum efst. Þar er innkomuleið slökkviliðsmanna.   

Inn og útúr þessu rými fara og koma leikararnir í margvíslegum gervum og búningum sem eru fyndnir og frumlegar lausnir þar á hverju strái. Það eru Ingibjörg G. Huldarsdóttir og Ásdís Guðný Guðmundsdóttir auk Hjördísar Sigurbjörnsdóttur sem skapa búninga og gervi.  Tónlist Péturs Ben og Elvars Geirs Sævarssonar leikur umtalsvert hlutverk í sýningunni og um hljóðmyndina sjá Kristján Sigmundur Einarsson.  

Persónur og leikendur 

Finnur Arnar skeytir saman senum eftir Þorvald sem lýsa samskiptum venjulegra og óvenjulegra Íslendinga. Þarna hittum við fyrir skátahreyfinguna, slökkviliðið, lögreglu og stöðumælavörð, kórsöngvara þar sem hver syngur sína rödd, hátt og af vandvirkni, frægt fólk sem vitnar í löngum tilvitnunum í sjálft sig og þarna eru eldri hjón að reyna að selja húsið sitt meðal annarra.   

Það sem er svo ljúfsárt hjá Þorvaldi er að hann skilur þrá fólks sem vill vera mikils metið fyrir eitthvað sem það ekki er. Hann skilur og þekkir   minnimáttarkennd þess og spéhræðslu og þess vegna getur hann skopast að því án háðs eða illgirni.  Mikið af þessu gríni lifnar í tungumálinu og byggist á notkun þessFramansagt einkennir líka örsögur hans sem lesnar voru í útvarpið forðum tíð og birtust svo í bókinni Engill meðal áhorfenda. 

Flestar persónurnar tala í klisjum og frösum sem eiga að vera vísdómsorð en merkja akkúrat ekki neitt.  Absúrdisminn er aðferð Þorvaldar t.d. í örverkunumMjög oft tjá menn sig í hálfum setningum, hálfri hugsun og/eða brotum af setningum sem áhorfandi getur venjulega botnað. Flest af þessu verður afar fyndið í skemmtilegri útfærslu leikaranna sem skipa leikhópinn. Þar eru engir aukvisar á ferð: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Eggert Þorleifsson, Guðrún S. Gísladóttir og Ilmur Kristjánsdóttir. Öll sex leika þau eins og englar og tekst að undirstrika hið tvöfalda við gerð persónanna; það elskulega og aumkvunarverða.  

Þetta var bæði ljúf og afar skemmtileg sýning og skildi mikið eftir. Ég mæli með henni! 

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila