Hlaðvarp Engra stjarna #1 – Quentin Tarantino

Bandaríski leikstjórinn Quentin Tarantino hefur verið að gera myndir síðan á öndverðum tíunda áratugnum og hans önnur mynd, Pulp Fiction, lenti í þeirri dálítið tvíbentu stöðu að vera straumhvarfamynd, hún kom út og fangaði tíðarandann um leið og hún þótt endurnýja frásagnarmáta og stíl hefðbundinna Hollywoodmynda – og varð þannig líka afskaplega áhrifamikil, raunar er Pulp Fiction sennilega áhrifamesta bandaríska mynd síðastu þrjátíu ára, jafnvel síðan að Nýja Hollywood var og hét. Og tvíbent staða vegna þess að svona velgengni getur verið erfitt að fylgja eftir, og svona hratt ris upp á stjörnuhiminninn getur alið af sér alls konar viðtökulegar flækjur. Það er til dæmis dálítið í tísku að hafa fyrir löngu fengið leið á Tarantino, og menn hafa verið að fá leið á honum fyrir löngu síðan eiginlega hann gerði sína aðra mynd. Eða kannski eftir Jackie Brown.

En síðastliðið vor var hans nýjasta mynd, Once Upon a Time in America, frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes og við alveg hreint ljómandi góðar undirtektir, og það hefur líka átt við um viðtökurnar eftir að hún fór í almenna dreifingu, menn sem jafnvel fyrir löngu fengu leið á Tarantino vilja meina að þetta sé býsna góð kvikmynd.

En hún segir sum sé frá vinunum tveimur Rick Dalton og Cliff Booth sem Leondardo DiCaprio og Brad Pitt leika. Rick er kúrekastjarna hvurs ferill er á niðurleið, Cliff er áhættuleikarinn hans og árið er 1969, kynlífsbyltingin er í loftinu, blómum er stungið ofan í rifflahlaup í þágu friðar og réttlætis, sýrutrippin afhjúpa leyndardóma alheimsins og það er ennþá ár í að Bítlarnir hætti. Að mati Rick er heimurinn að fara lóðbeint til helvítis, allt er þetta eins og einhver fíflagangur en nýir nágrannar hafa flutt inn í húsið við hliðina á honum, ungt par, Sharon Tate og Roman Polanski. Í bakgrunninum er einkennilegur söfnuður af ungum stúlkum er tilbiðja foringja sinn, Charles Manson. Ljóst er frá upphafi hvert myndin stefnir en galdurinn er kannski í útfærslunni og svo er kannski ekki alveg víst að myndin fari þangað sem sögulegur þungi hinna sannsögulegu atburða beinir henni.

Í fyrsta hlaðvarpi Engra stjarna ræðir Björn Þór Vilhjálmsson við Silju Björk Björnsdóttur og Heiðar Bernharðsson um nýjustu mynd leikstjórans og feril Tarantino í víðum skilningi.

[fblike]

Deila