Sex í sumarbústað fyrir norðan …

Sex í sveit heitir Pyjama pour six ( Sex í náttfötum) og er eftir franska leikritahöfundurinn Marc Camoletti (1923-2003). Það er skrifað 1985 og var sýnt við miklar vinsældir, árum saman sums staðar, í aðlögunum að húmor mismunandi landa og tíma. Það er sennilega breska aðlögunin sem hér er unnið með og Gísli Rúnar Jónsson þýðir og staðfærir ásamt Bergi Þór Ingólfssyni, leikstjóranum. Það var að mestu leyti mjög vel og skemmtilega gert með stöku framúrskarandi sprettum sem fengu salinn til að hlæja mjög. 

Og þetta gerist…

Persónur eru Benedikt (Jörundur Ragnarsson) og Þórunn (Sólveig Guðmundsdóttir) eiginkona hans, Ragnar (Sigurður Þór Óskarsson) vinur Benedikts og viðhald Þórunnar, Sóley (Vala Kristín Eiríksdóttir)  viðhald Benedikts, Sólveig (Katrín Halldóra Sigurðardóttir) , kokkur frá veisluþjónustinni Saxbautanum á Akureyri og maður hennar Benóný (Haraldur Ari Stefánsson).  

Þórunn er að leggja af stað til Egilsstaða að sinna veikri móður sinni yfir helgi og Benedikt hefur boðið fyrirsætunni Sóleyju í sumarbústað hjónanna í Eyjafirði en Ragnari, besta vini sínum, líka til að fela framhjáhaldið. Hann veit ekki að Þórunn heldur við Ragnar og hún ákveður að fara hvergi þegar hún heyrir að hann sé væntanlegur. Benedikt hefur pantað veisluþjónustu og á von á stjörnukokkinum Sólveigu svo að tvær nýjar konur birtast í bústaðnum, auk manns annarrar þeirra sem skýtur upp kollinum í lok verksins. Eins og vera ber í góðum farsa hrannast lygarnar upp og flækjast og verða æ örvæntingarfyllri. 

Syndin er lævís og (ekkert sérlega) lipur

Gömlu farsarnir snúast alltaf um framhjáhald sem er syndsamlegt og bannað og afleiðingarnar ömurlegar ef upp kemst um verknaðinn. Það er mikið í húfi og þar af kemur stressið og móðursýkin sem áhorfendum finnst svo fyndin. Aðalkarlinn í verkinu er Benedikt, Jörundur Ragnarsson. Hann er ekki flókinn karakter í verkinu en hann á augljóslega að vera vel stæður yfirstéttarmaður, þau hjónin eiga gríðarstóran sumarbústað og hann hefur gefið fyrirsætunni 600 þúsund krónu pels. Stéttarstaðan endurspeglaðist ekki í glaumgosalegu gervi  hans, að minnsta kosti ekki tyggjóinu sem hann var með í upphafi. Sigurður Þór Óskarsson var frábær í hlutverki Ragnars. Hann lék hann af einlægni, sem oft birtist í smáatriðum, svipbrigðum eða líkamsstöðu sem dró að sér athyglina mitt í gauraganginum 

Haraldur Ari Stefánsson var í litlu hlutverki sem eiginmaður hins litríka kokks Sólveigar sem Katrín Halldóra Sigurðardóttir lék með miklum tilþrifum. Hún birtist fyrst í mótorhjólagalla með hjálm, allar hreyfingar eru stækkaðar og hluti af groddaganginum birtist í því hún er látin tala með meintum norðlenskum framburði sem enginn maður, a.m.k. ekki  á Akureyri, myndi bera sér í munn. Það vakti mikinn hlátur, einkum til að byrja með og hlátursgusurnar fylgdu henni raunar allt í gegn enda er þetta aðalkvenhlutverkið í verkinu. Hún er mjög samsett persóna. Hún er flinkur kokkur, jarðbundin og klók og gengur fúslega inn í öll þau hlutverk sem yfirstéttin kýs að nota hana í  – svo fremi sem hún fær það vel borgað. Hún á bestu og kaldhæðnustu línurnar í leikritinu og það hefði ekki þurft að ýkja leikstíl hennar svo mjög – minna er stundum meira. Það sýndi Vala Kristín Eiríksdóttir sem fékk hið vanþakkláta hlutverk heimsku ljóskunnar og gerði úr því allt sem hægt var að fá útúr því. Sólveig Guðmundsdóttir er góð gamanleikkona og Þórunn varð frekar skýr persóna í hennar túlkun, elegant dama sem er tilfinningasvelt í hjónabandinu en elskar karl sinn svolítið samt. Hún átti frábæra spretti.  

Lúið leikrit

Góðir farsar eru guðs gjöf. Þeir koma manni til að hlæja hjartanlega –  þurfa ekki að rista djúpt, bara vera vel skrifaðir í þeirri bókmenntagrein sem þeir tilheyra. Það þarf að leika þá af hraða og nákvæmni og trúnaði við það móðursýkislega ástand sem ríkir í þeim aðstæðum sem lýst er. Kynjahlutverkin í Sex í sveit eru hræðilega gamaldags og karlrembuleg en það er vel hægt að hlæja að þvíSýningin er hávær og hugmyndarík en stundum verða endurtekningarnar þreyttar og hugmyndunum ekki fylgt eftir eins og t. d. talstýrða hljómflutningskerfinu sem hverfur úr sýningunni.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila