Krydduð með litum

Sýningin Loddarinn eftir Molière var frumsýnd á stóra sviði Þjóðleikhússins laugardaginn 27. apríl síðastliðinn. Leikstjórn var í höndum Stefan Metz. Sean Mackaoui sá um leikmynd og búninga, Ólafur Ágúst Stefánsson um lýsingu og Elvar Geir Sævarsson um tónlist og hljóðmynd. Um þýðinguna sá Hallgrímur Helgason.

Fjölskyldudrama

Verkið fjallar um hræsnarann Guðreður (Hilmir Snær Guðnason) sem með tvöfeldni sinni kemur heimilislífi vinafólks síns úr skorðum. Faðirinn Orgeir (Guðjón Davíð Karlsson) telur Guðreður guðrækinn og góðan mann og vill ólmur að hann giftist dóttur sinni Maríönnu (Lára Jóhanna Jónsdóttir). Hún er aftur á móti ástfangin af Völu (Dóra Jóhannsdóttir). Að lokum nær Elmíra (Nína Dögg Filippusdóttir) að sanna fyrir Orgeiri, manni sínum, að Guðreður sé tvöfaldur í roðinu en þá er það um seinan. Orgeir hefur erft Guðreður af öllum eigum sínum og Guðreður er því í stöðu til að reka þau burt af sínu eigin heimili.

 

Nokkrar útgáfur eru til af verki Molière af því að kirkjan bannaði það árið 1667 og Molière  réðst í að endurskrifa það, sjá nánar umfjöllun í Milli mála. Hér hefur Þjóðleikhúsið kosið að setja upp sýningu sem er nær upphaflegu útgáfuna frá 1664 þar sem sýningin endar á því að Guðreður steypir fjölskyldunni í glötun. Verkið er staðfært. Það sést best á því að persónan Valère, unnusti Maríönnu, skiptir um kyn og verður að unnustunni Völu. Persónur verksins eru yfir heildina litið yfirborðskenndar en Kristínu Þóru Haraldsdóttur og Oddi Júlíussyni tekst að gera persónur sínar eftirminnilegar. Í meðferð Kristínar Þóru er húshjálpin Dóra marglaga karakter: fyndin og ráðagóð, klaufaleg í hreyfingum en samt með allt á hreinu. Hún er rödd skynseminnar. Með hlutverki sínu nær Oddur að ýta undir gamanleikinn. Honum ferst vel úr hendi að berjast við grjónapúða, dansa við ryksugu og gægjast fyrirvaralaust upp úr skúffu á skenknum í stofunni.

Gulur, rauður, grænn og blár

Litadýrð er einkennandi fyrir uppsetninguna. Atburðarásin á sér stað í turkísblárri stofu. Á alla kanta eru dyr inn í aðrar vistaverur. Hurðar eru þó fjarverandi svo inn- og útgöngur minna ekki á farsa. Í einu horninu er appelsínugulur legubekkur. Þrír eldrauðir hlutir eru í stofunni: Pilates-bolti, slökkvitæki og ryksuga. Ef afstaða hlutanna hver til annars er skoðuð má sjá að þeir mynda þríhyrning. Líta má á hann sem tákn fyrir ástarþríhyrning verksins. Þótt ást Orgeirs á Guðreður sé ekki rómantísk lítur hann upp til hans. Guðreður elskar aftur á móti Elmíru en hún elskar eiginmann sinn. Rauði liturinn kemur einnig sterkur inn í atriðinu þar sem Elmíra reynir að sanna fyrir manni sínum að Guðreður girnist hana. Hún er klædd í eldrauðan síðkjól og þegar Guðreður fækkar fötum kemur í ljós að hann er í eldrauðum nærbuxum. Klæðnaður persónanna er almennt litríkur sem andstæða við svart-hvítan klæðnað Guðreðurs. Það stingur í stúf að unnustan Vala klæðist gallabuxum, gráum bol og svörtum leðurjakka. Það er ef til vill liður í því að færa verkið nær nútímanum.

Tákn

Sviðsetningin er hlaðin táknum. Fjögur uppstoppuð dýr eru í rýminu: dádýrahöfuð, páfuglspar og stokkönd. Öll tákna dýrin ákveðnar persónur í verkinu. Dádýrið er Orgeir. Hann er höfuð fjölskyldunnar; Hornin eru valdamerki. Dádýr tákna gjarna hreinleika og helgi en Orgeiri er mikið í mun að vera guðrækinn maður, tryggur og trúr. Páfuglaparið er táknrænt fyrir áhuga Guðreðurs á Elmíru. Hann reynir við hana. Hún fer undan í flæmingi en hann eltir. Þau standa við hlið páfuglanna, Guðreður gerir sig stóran og um leið breiðist úr stéli páfuglsins. Á skenknum í stofunni er uppstoppuð stokkönd. Húshjálpin Dóra klappar henni uppörvandi í einu atriðinu. Þar með dregur hún athygli að líkindum þeirra. Litirnir í klæðnaði hennar samræmast litum andarinnar auk þess hún kjagar um eins og önd vegna óléttunnar. Klæðnaður lögmeyjarinnar, boðbera slæmu fréttanna um að Guðreður sé nýr eigandi hússins, er einnig táknrænn. Hún er í gegnsærri regnkápu úr plasti. Með því er sem hæðst sé að „gagnsæi“ hins opinbera um leið og klæðnaðurinn vekur hugrenningatengsl við söguna um Nýju föt keisarans.

Að lokum

Lokaatriði sýningarinnar er sérstaklega flott. Dóra er sú síðasta út. Hún hefur séð um þrifin fyrir fjölskylduna og notað til þess litla sæta ryksugu. Þarna eru aftur á móti komnir iðnaðarmenn með stórar atvinnuryksugur sem hreykja hana í burtu. Guðreður setur sig bókstaflega á háan stall og verður eins og hvít Jesú-stytta með útréttan faðminn. Um leið breytir loftið um lögun svo hlutföllin skekkjast. Sjónarspilið er áhrifamikið.

Loddarinn er sagt meistaraverk eins mesta gamanleikjaskálds allra tíma. Persónulega heillaðist ég samt ekki af sögunni. Mér fannst sagan kunnugleg, allt að því klisjukennd. Fyrir kemur ástarþríhyrningur, bardagi góðs og ills og þarna er þekktar persónur eins og loddarinn sjálfur og húshjálpin sem boðberi sannleikans. Mér finnst rétt að líkja þessu við upplifun mín af því að lesa Pilt og stúlku eftir Jón Thoroddsen (sem talin er marka upphaf nútíma skáldsagnagerðar Íslendinga). Sagan var kunnugleg, ekki af því að ég hafði lesið hana áður, heldur af því að svo margt annað hefur í tímans rás orðið fyrir innblæstri af henni. Líklega er um hið sama að ræða hér. Fyrir mér var það sviðsetningin sem skapaði sýninguna. Hún var nauðsynlegt krydd sem lék við „bragðlaukana“. Litadýrðin hélt athygli minni óspilltir og ýtti undir táknrænan lestur minn á sýningunni.

Um höfundinn
Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er með meistarapróf í ritlist frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila