(Varúð: Umfjöllun þessi inniheldur spilliefni)

Það er auðvitað ekki auðvelt að endurgera viðlíka költrisa og Suspiria (1977) eftir Dario Argento en ítalski leikstjórinn (og samlandi Argentos) Luca Guadagnino hefur ráðist til atlögu við verkefnið og heppnast það ekki sérstaklega vel. Spyrja má reyndar líka hvað orsaki sífellda leit kvikmyndagerðarfólks aftur á bak í sögu eigin listforms eftir viðfangsefnum og hvort slíkt fortíðarrusk sé ekki oftast misráðið. Í þessu tilviki er því reyndar við að bæta að Guadagnino lét hafa það eftir sér í viðtali að hans útgáfu af Suspiria bæri ekki að skoða sem beina endurgerð á verki Dario Argento, heldur endursköpun á þeirri tilfinningu sem heiltók ungan Guadagnino við áhorfið á frummyndinni og það má til sanns vegar færa að nýja myndin er um margt frábrugðin þeirri eldri.

Eiga þó báðar útgáfurnar sameiginlega frásagnaráhersluna á sögu kvenna og það hvernig kvenlegt eðli er sett í samband við ónotalegan hrylling. Segir í nýju myndinni frá ungri amerískri konu, Susie Bannion (Dakota Johnson), sem hefur nám við virtan dansskóla í Þýskalandi. Samhliða þroskasögu Susie ver Guadagnino býsna miklu púðri í pólitískt landslag Þýskalands á áttunda áratugnum en koma þar við sögu ýmis eftirköst síðari heimsstyrjaldarinnar, uppgangur kalda stríðsins og þrúgandi nærvera Berlínarmúrsins, auk þess lævi blandna andrúmslofts sem skapaðist í kringum róttæklingahersveitina sem kennd er við Baader-Meinhof.

Fljótlega kemur jafnframt í ljós að dansskólinn er annað og meira en virðist við fyrstu sýn. Þar leynast ævagömul leyndarmál bak við læstar dyr og skólanum reynist vera (eins og þeir sem séð hafa frummyndina vita) stýrt af sveimi kænskulegra norna með Madame Blanc (Tilda Swinton) í fararbroddi. Madame Blanc stýrir skólanum í senn með harðri hendi og listrænum innblæstri en er um leið hægri hönd nornamóðurinnar Helenu Markos (Tilda Swinton).  Kemur þar að mýtískum söguheimi myndarinnar en í honum eru þrjár erkinornir og segist hin háaldraða Markos vera ein þeirra, Móðir Suspiriorum. Þar sem heilsu Markos fer hrakandi leita nornirnar í óða önn að nýjum líkama undir móður sína því án hennar örkumlast nornabælið. Hin huglitla og hægláta Susie Bannion verður fyrir valinu og verður dansinn að ákveðinni framlengingu helgiathafna nornanna.

Tilda Swinton í hlutverki nornar og danshönnuðar í Suspiria.

Þegar fetað er í fótspor Argento er auðvitað nauðsynlegt að huga að sjónrænu hliðinni, enda var Argento á sínum gullaldarárum einn mesti kvikmyndastílisti hryllingsmyndahefðarinnar. Nýja myndin nýtir sér listrænt form nútímadansatriða með sláandi hætti og tekst Guadagnino vel með að taka eitthvað fallegt, eins og dans, og snúa því í andhverfu sína og gera ógnvænlegt – og það er í þessum atriðum sem sjónrænn kraftur myndarinnar nýtur sín best. Þá má geta þess að þrátt fyrir kvenlega orku sína í dansatriðinum eru líkamar kvennanna sjaldnast hagnýttir eða hlutgerðir undir lostafullu augnarráði karlanna og sker myndin sig þannig skemmtilega frá karllægri slagsíðu hryllingssagna samtímans. Litróf kvikmyndarinnar er á öndverðum meiði við auðþekkjanlegt yfirbragð frumlita úr verki Argento en litir nýju myndarinnar eru mun daufari og eiga meira skylt við klisjukennda grátóna nútímahryllingsmyndarinnar.

Áhugaverðasti flötur kvikmyndarinnar, að dansinum undanskildum, er án efa samband Susie Bannion og Madame Blanc. Samband þessara tveggja kvenna endurspeglar samband sem hefur fengið karlæga túlkun í þúsundum kvikmynda í gegnum tíðina, samband lærimeistara og lærlings. Slíkt samband getur auðveldlega orðið sálfræðilega hlaðið og jafnvel ofsafengið, og sú er raunin hér. Valdabaráttan milli þeirra nær hámarki undir lok myndarinnar en er jafnframt tjáð í umræðum þeirra um listdans og útfærslu Susie á dansatriðum í verki eftir Blanc. Sá galli er þó á framvindunni í heild að undarleg rannsóknarflétta, er tengist einni aukapersónunni, fær alltof mikið rými og dregur það úr áhrifamætti hryllingsfrásagnarinnar. Það er jafnframt í gegnum þessa sömu rannsóknarfléttu sem pólitískri fortíð Þýskalands er hleypt inni í myndina á heldur klunnalegan hátt og nær það hámarki í eftirmála þar sem Helförin er dregin út úr skápnum á smekklausan hátt. Einhvers staðar í þessu öllu saman á að leynast stórfelld táknsaga sem því miður aldrei finnst.

Heimasvæði Engra stjarna.

Um höfundinn
Silja Björk Björnsdóttir

Silja Björk Björnsdóttir

Silja Björk Björnsdóttir er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur í Engum stjörnum.

[fblike]

Deila