Rammpólitískur súrrealismi

Sorry To Bother You (Boots Riley, 2018) fékk fljótt á sig orð fyrir að vera ein af róttækustu myndum sem frá Hollywood hafa komið um langt skeið; að myndin væri and-kapítalísk á máta sem sjaldgæft er að sjá í kvikmyndum vestan hafs. Það kemur líka á daginn. Hugmyndafræðilega séð er Sorry to Bother Youróttæklingamynd af gamla skólanum meðan umgjörðin og sjónræn framsetning eru framúrstefnulegar og súrralískar á máta sem minna jafnvel á Buñuel. Mikilvægt er þó að hafa í huga að þótt Hollywood (sem hér er samheiti fyrir bandaríska kvikmyndagerð) sé miðja og hnattræn aflstöð kvikmyndamenningar í samtímanum, og hafi verið frá lokum fyrri heimsstyrjaldar, og þeirri stöðu hafi verið náð með samstillingu og hagnýtingu kapítalískra eiginda, hefur alltaf ákveðinn undirstraumur af gagnrýni og róttækni verið til staðar, bara misáberandi. Frægasta kvikmyndastjarna bandarískrar kvikmyndasögu, Charlie Chaplin, var til að mynda gegnumheill róttæklingur sem gagnrýndi valdboð og kapítalisma í öllum sínum myndum. Þá hafa alltaf skemmtilega gagnrýnar raddir fengið að hljóma í sjönrumyndum eins og They Live (1988) eftir John Carpenter er dæmi um, en þar er fjallað um stéttaskiptingu og neysluhyggju á máta sem er ekki svo fjarskyldur Sorry to Bother You.

Enda þótt Sorry To Bother You sé frumraun Boots Riley í leikstjórastólnum er ekki um neinn nýgræðing að ræða. Riley hefur verið í tónlistarbransanum í næstum 30 ár, þ.á.m. í hljómsveitinni The Coup og ofurgrúppuni Street Sweeper Social Club. Rétt eins og kvikmyndin hans, þá eru textarnir sem hann semur opinskátt pólitískir og beina spjótum sínum að bandarísku nútímasamfélagi. Þannig er til dæmis forvitnilegt að handrit myndarinnar var tilbúið árið 2012 en við tók fimm ára ferli áður ráðist var í gerð hennar – sem þarf svosem ekki að koma á óvart þegar á útkomuna er litið og hugað er að áðurnefndri pólitískri róttækni. Þá hafði bandarískt samfélag ekki tekið slíkum stakkaskiptum að handritið hafi verið orðið úrelt, fjarri því, en sögur segja að Boots Riley hafi gert ákveðnar breytingar til að viðtökurnar yrðu ekki of Trump–miðaðar. Ætlunin var aldrei að gagnrýna ákveðinn einstakling heldur að rýna í kerfið sjálft, hvernig því er stjórnað og það sem viðheldur því.

Hér er Cash (Lakeith Stanfield) farið að ganga betur í vinnunni í Sorry To Bother You.

Sorry to Bother You fjallar um Cassius „Cash“ Green (Lakeith Stanfield) sem er við það að enda á götunni þegar hann fær vinnu sem símasölumaður í eilítið grunsamlegu stórfyrirtæki. Grunnlaun eru ekki í boði heldur byggist umbunin eingöngu á söluprósentum. Áður en langt um líður uppgötvar Cash að til þess að rísa í metorðastiga fyrirtækisins og upplifa „bandaríska drauminn“ þarf hann að skilja við sína náttúrulegu rödd og notast við „hvítu“ röddina. Hér er ekki átt við einhverja hermikrákulist heldur þarf hann að beina ákveðnum samfélagsskilningi inn í rödd sína – hann þarf að hljóma eins og maður sem engar verulegar áhyggjur hefur af afkomu sinni og er handviss um þjóðfélagsstöðu sína, og þar af leiðandi öruggur um sjálfan sig. Sá sem hlustar á söluræðuna þarf ekki síst að skynja að sá sem selur þarf ekki á sölunni að halda.

Inn í símsölusöguna af Cash blandast aðrir frásagnarþræðir, þ.á.m. sem lúta að risasamsteypunni WorryFree. Það sem það fyrirtæki markaðssetur er, líkt og nafnið gefur til kynna, áhyggjuleysi. Fyrir þá sem þreyttir eru á niðurgangi sínum í samfélaginu, að færa sig ekki milli stétta upp á við heldur niður, eiga alltaf minna og minna, þá býður fyrirtækið hentuga lausn. Þú afsalar þér sjálfræði þínu og þér verður séð fyrir húsnæði og atvinnu og mat ævilangt. Um er að ræða, með öðrum orðum, nútímalegt þrælahald sem í söguheiminum er ekki aðeins löglegt heldur einn öflugasti vaxtabroddurinn í hagkerfinu. Gegn WorryFree starfar neðanjarðarhópur aðgerðarsinna er kennir sig við nafnið The Left Eye. Þá eru vinnufélagar Cash í miðjum klíðum við að stofna verkalýðsfélag til að knýja á um betri kjör. Allir tvinnast þessir þræðir saman í framvindunni, oft með afskaplega óvæntum og allt að því geggjuðum hætti.

Símsala er sýnd með nýstárlegum hætti í myndinni.

Það sem freistar Cash hins vegar er framgangur hans innan kerfisins og hvíta heimsins – allt í krafti hvítu raddarinnar sem hann reynist vera eins konar snillingur að beita. Bandaríski draumurinn virðist vera innan seilingar fyrir hann, enda þótt það þýði að hann verði að skilja við félaga sína, standa ekki með þeim í þeirra baráttu.

Leikarahópurinn er sem heild til fyrirmyndar en það er þó Lakeith Stanfield sem kannski ber höfuðið hæst, hann fangar með algjörri snilld ólík tilfinningasvið innan persónu sinnar, en breytingaferli hennar er einmitt mikið í framrás sögufléttunnar, en alltaf slær Stanfield rétta tóninn, einnig þegar hálfgert ofsóknaræði hefur gripið hann í síðasta þriðjungnum. Útlit kvikmyndarinnar fangar með mikilli nákvæmni þrúgandi andrúmsloft aðkrepptra vinnustaða meðan Cash er ennþá lágt settur í fyrirtækinu og er að byrja vegferð sína. Fagurfræðin endurspeglar svo með gríðarlega útsjónarsömum hætti metorðastigaris hans hjá fyrirtækinu, leikmyndin tekur umskiptum og ná þau umskipti hápunkti í veislu hjá frumkvöðli WorryFree (Armie Hammer). Þá virðist hugmyndaauðginni á köflum engin takmörk vera sett og Riley stígur út fyrir mörk veruleikans ítrekað og með sífellt framúrstefnulegri hætti – má þar nefna ýmsa leyndardóma innviða stórfyrirtækisins sem Cash vinnur fyrir. Rétt er þó að halda til haga að Sorry to Bother Youer samt sem áður grínmynd, svona fyrst og fremst. Með því að stilla eðliseiginleikum kapítalismans upp andspænis hugmyndinni um bandaríska drauminn verður til kraftmikil mótsögn sem knýr myndina með svörtum húmor.

Heimasvæði Engra stjarna.

Um höfundinn
Jónas Haux

Jónas Haux

Jónas Haux er er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila