Listræna hryllingsmyndin

Fjölskyldur eru flókið fyrirbæri. Allar fjölskyldur hafa eitthvað að fela, einhver myrk og dulin leyndarmál sem meðlimir hennar reyna af fremsta megni að hylja fyrir umheiminum og stundum hver öðrum. Sumar fjölskyldur, eins og Graham-fjölskyldan, hafa djúpstæðari, myrkari og ógeðfelldari leyndarmál að geyma an aðrar og kvikmyndin Hereditary (Ari Aster, 2018) grefur sig ofan í geðspillt hyldýpi þessarar fjölskyldusögu, kannar hið yfirnáttúrulega sem hrellir fjölskylduna og – þegar öllu er á botninn hvolft – glímir við sorgina og eftirköst ástvinamissis.

Hereditary er án efa ein ferskasta hrollvekja sem sést hefur á hvíta tjaldinu um árabil og sver sig í hóp með ákveðinni nýbylgju hryllingsmynda sem stóla fremur á ofsahræðslu (e. terror) en eiginlegan hrylling (e. horror). Hvað þetta varðar er skiljanlegt að Hereditary hafi verið líkt við hrollvekjur á borð við The Babadook (Jennifer Kent, 2014), The Witch (Robert Eggers, 2015) og A Quiet Place (John Krasinski, 2018), sem reiða sig einmitt fremur á hægláta uppbyggingu kvíða og spennu en bregður (e. jump scares) og blóðugan, líkamlegan hrylling. Handritið er vandlega uppbyggt og sálfræðilega raunsæ persónusköpunin skapar rými fyrir tengingu milli áhorfandans og söguframvindunnar. Nýstárlegast er tvímælalaust að Hereditary stendur nánast utan sértækrar greinahefðar; hún er ógnvekjandi og kvíðavaldandi án þess að reiða sig á klisjur fyrirliggjandi greinahefða innan hrollvekjunnar. Myndin er ekki slægja, ekki andsetningarmynd, hún er hvorki draugamynd né móðurhryllingur og hún reiðir sig ekki á reimleika í húsum eða grímuklædda morðingja. Skelfingin og óttinn koma innan frá og stærsta ógnin við Graham-fjölskylduna er fjölskyldan sjálf og flókið sálarlíf aðalpersónanna.

Toni Collette í hlutverki sínu í Hereditary.

Hereditary er full af kvenlegri orku og sektarkennd móðurinnar Annie (Toni Collette), sem hefur reynt að skýla börnum sínum og eiginmanni fyrir kúgun ættmóðurinnar Ellen. Kvikmyndin hefst á útför Ellenar og dapurlegri líkræðu Annie, þar sem hún rekur ósamlynt samband þeirra mæðgna og minnist í hendingu á býsna ógeðfellda atburði í lífi sínu og uppeldi. Ónotatilfinningin hreiðrar því um sig hjá áhorfendum strax í upphafi, með að því er virðist lítilli fyrirhöfn af hálfu frásagnarinnar. Geðsjúkdómar Graham-fjölskyldunnar, sjálfsvíg og sektarkennd mæðra í garð barnanna sem þær vildu ekki eignast skapa hversdagslega skelfingu og eru þessir atburðir sveipaðir yfirnáttúrulegri dulúð sem fá hárin til að rísa.

Hrollvekjur bera nafn sitt af þeim augljósu líkamlegu viðbrögðum sem þær vekja hjá áhorfendum, hroll. Hereditary vekur sannarlega óhug áhorfandans og stöðuga skelfingu en gerir það með lævísum hætti og lengst af án blóðsúthellinga. Kvikmyndin er einstaklega truflandi, barmafull af óhugnalegum táknmyndum, vísunum og römmum þar sem kvikmyndatakan og handritið leggjast á eitt við mótun áhrifanna. Hereditary er fullkomin samblanda listakvikmyndarinnar og sannrar hrollvekju, þar sem augað er þjálfað til að fylgjast grannt með hverjum krók og kima rammans á sama tíma og það er ginnt í skelfingu og ofsahræðslu.

Óvæntasti hrollurinn stafar af sakalusu áhugamáli Annie sem hún hefur gert að atvinnugrein og listformi, en það er bygging smálíkana af ætt fáguðustu dúkkuhúsa. Þessi smálíkön spila lágstemmt en þó mikilvægt hlutverk í kvikmyndinni. Annie endurskapar heiminn í kringum sig með nákvæmum en smækkuðum eftirlíkingum af heimili sínu, æsku og merkilegum atburðum úr lífi sínu og má rekja áráttu hennar fyrir þessum líkönum til æskuáranna og myrkrar uppeldisundiröldu. Annie hefur lifað undir hæl geðveikrar móður sinnar en með því að setja heiminn upp í vandlega skipulögðum og útfærðum smálíkönum öðlast hún stjórn á þeim á ný. Þannig elur hún á ákveðinni guðlegri geðflækju (e. god complex) samhliða því sem um úrvinnslu á hinum ýmsu voveiflegu atburðum og áföllum er að ræða. Smálíkönin fela í sér ákveðna tvöfeldni þar sem þau endurspegla sértæka, yfirnáttúrulega tilfinningu þess smættaða, þar sem Annie leikur brúðumeistara og togar í strengina líkt og hún reynir að gera við fjölskyldu sína í raunheimi.

Fjölskyldan samankomin.

Hús Graham-fjölskyldunnar minnir um margt á dúkkuhús, með stórum opnum rýmum og háum loftum og gefur það áhorfandanum tilfinningu um að ómögulegt sé að sjá hver það er sem togar í strengi Graham-fjölskyldunnar. Húsið sjálft er drungalegt án þess þó að vera andsetið, enda er það skelfingin sem stafar frá fjölskyldunni sem drífur ofsahræðslu kvikmyndarinnar. Kvikmyndatakan leikur sér svo að auga áhorfandans og stillir gjarnan smálíkönum Annie upp í samanburði við raunveruleg rými og herbergi hússins svo ómögulegt er að greina líkan frá lífi. Í víðum opnum skotum má með naumindum koma auga á óværur í hinum ýmsu skúmaskotum og dyragættum án þess þó að sjónmáli áhorfandans sé stýrt í átt að þessum ógnandi fyrirbærum. Víðskotin standa óhreyfð og neyða áhorfandann til að skima og leita í rammanum og velta fyrir sér hvort ógn steðji að – og þá hvaðan –  og speglar þetta upplifun persónanna þar sem þeim er heldur ekki ljóst hvað er raunverulegt og hvað er yfirnáttúrulegt.

Í Hereditary er öllum klisjum hrollvekjunnar kastað á bálið og áhorfandinn veit aldrei, frekar en persónur kvikmyndarinnar, hvað bíður þeirra, hvaða hryllingur leynist í næsta skoti. Handritið brennur hægum en svíðandi loga, og myndin neyðir áhorfandann til þess að veita hverju einasta orði og hreyfingu ítrustu athygli meðan nístandi ónotatilfinningin seytlar í blóðinu. Hér er á ferðinni kvikmynd sem tekur sér verðskuldaða stöðu við hlið sígildra hrollvekja á borð við Rosemary’s Baby (Roman Polanski, 1968) og The Exorcist (William Friedkin, 1973) – og það segir sitt.

Vefsvæði Engra stjarna er hér.

 
 
Um höfundinn
Silja Björk Björnsdóttir

Silja Björk Björnsdóttir

Silja Björk Björnsdóttir er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur í Engum stjörnum.

[fblike]

Deila

[fblike]