Kristín Marja Baldursdóttir er einn vinsælasti höfundur okkar Íslendinga, ekki síst fyrir epískar sögur sínar, húmor, þekkingu, sálfræðilega nálgun og sterkar kvenpersónur. Í leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur á Svartalogni er lögð áhersla á konur og kvennasamstöðuna þó að hrikti hressilega í því síðast nefnda á köflum. Leikstjóri er Hilmir Snær Guðnason.
Elva Ósk Ólafsdóttir leikur Flóru, miðaldra konu sem stendur á krossgötum í lífinu. Henni hefur verið sagt upp í vinnunni, maðurinn búinn að yngja upp hjá sér og hún er of ung til að leggjast í kör. Hvað á hún að gera? Hún kýs að flýja uppgjörið með því að fara vestur á firði til að mála hús.
Tvær „fylgjur“eru með henni í för, Hrannar (Snorri Engilbertsson) og Irpa (Birgittu Birgisdóttur), sýnd eins sem glæsilega og töffa unga fólkið sem er tekið fram yfir hana á fyrrverandi vinnustað. Þau skemmta sér við að minna hana á það hvað hún sé lítils virði og mikill tapari. Þessir árásargjörnu fulltrúar yfirsjálfsins/samfélagsins verða alveg óþolandi og eiga að vera það. Kannski hefði verið hægt að gera þau svolítið villtari og láta þau sýna fleiri hliðar á sálarlífi Flóru en sjálfsfyrirlitninguna.
Í upphafi verksins gengur Flóra inn í leikmyndina dragandi ferðatösku og bæjarbúar halda að hún sé túristi á villigötum. Í þorpinu kynnist hún fljótt Guðrúnu (Ragnheiður Steindórsdóttir) og óborganlegu listakonunni Petru (Eddu Arnljótsdóttur). Hún er gerð að íslenskukennara tveggja pólskra fiskverkunar- og söngkvenna Joanna (Snæfríður Ingvarsdóttir) og Ewa (Esther Talia Casey).
Smám saman er henni líka úthlutað fjölmörgum öðrum hlutverkum af því að hún er ný í þorpinu og þarf ekki að kljást við alls konar samskiptaflækjur sem hrjá þorpsbúa. Hún hefur ekki mikinn tíma til að vorkenna sér á meðan hún er að sinna öllu þessu tilfinningasvelta fólki og finnst að lokum að það togi í hana úr öllum áttum. Mér fannst Elva Ósk fyrst ná sambandi við hlutverk Flóru þegar hún fokreiðist og neitar að láta listakonurnar ganga yfir sig.
Karlarnir í verkinu snúast kringum konurnar. Það gerir Jóhannes þúsundþjalasmiður (Pálmi Gestsson) og hinn feimni Marteinn (Baldur Trausti Hreinsson) auk ofbeldismannsins Krumma sem Hallgrímur Ólafsson túlkaði vel.
Leikmynd Grétars Reynissonar er stór bogamynduð göng, með dyrum til beggja handa fyrir innkomu og útgöngu leikara. Þetta er stílfærð og svöl leikmynd, tákn ferðarinnar, tengsla milli staða, möguleika, en göngin eru jafnframt staður sem enginn vill dvelja á, í verulegri andstöðu við það kvenlega rými samlíðunar og kærleika sem leikritið vill búa til.
Litríkir búningar Maríu Th. Ólafsdóttur og tónlist Markétu Irglová og Sturlu Mio Þórissonar lögðu sitt af mörkum til að gleðja áhorfendur og það gerðu líka partý þorpsbúa, húmor textans, góður leikur og lítil ástarsaga í lokin.
[fblike]
Deila