Tælandi máttur menningariðnaðarins

Þrátt fyrir að vera hástemmdur Hollywood stórsmellur, birtir nýjasta kvikmynd Stevens SpielbergReady Player One (2017), nokkuð raunsæja sýn á framtíð mannkynsins – það er að segja, ef við höldum áfram þeirri vegferð sem við erum á í augnablikinu. Djúpt undir hefðbundinni, og allt að því klisjulegri atburðarásinni, má nefnilega finna ádeilu á hegðun hins hagsæla Vestræna nútímamanns; að víkja sér undan vandamálum sínum og heimsins í gegnum menningarlegar flóttaleiðir, og breytir þar litlu hvort um beina neyslu afþreyingarefnis er að ræða eða sýndarþáttöku í málefnum líðandi stundar í formi vígreifra stöðuuppfærslna á Facebook.

Í heimi RP1 hefur sýndarveruleiki tekið yfir menningarneyslu í samfélaginu og í stað þess að horfast í augu við hnattræn vandamál eins og hlýnun Jarðar, offjölgun mannkyns, hungursneyð og fátækt, þá kýs fólk að snúa sér undan og hverfa frekar inn í ímyndaðan heim. Heim þar sem lífið er óendanlegt; heim þar sem foreldrar þurfa ekki að hugsa um börnin sín; heim þar sem skuldir eða fátækt háir engum. Heim þar sem öllum vandamálunum er gleymt og fólk bókstaflega hylur augu sín fyrir raunverulegum vandamálum með gleraugum sýndarveruleikans.

Söguheimurinn er ekki fjarstæður fyrirboði um framtíð okkar. Heimurinn er nú þegar undirlagður af afþreyingarkostum, samskiptanetum og ljósvakamiðlum sem líkt og fjölleikahúsin í Róm til forna sefa og skemmta í senn, en draga athyglina um leið frá þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir sem tegund. Glíman við vandamál sem eru að því er virðist óleysanleg er truflandi, en úrslitin í deildarkeppninni eru spennandi, lítið er hægt að gera í þjóðarmorðum út í heimi en hugsanlegt er að maður komist á næsta borð í tölvuleiknum ef maður leggur hart að sér – og já, var ekki að detta inn ný sería á Netflix? RP1bendir réttilega á hversu auðvelt það er að missa sjónar á raunveruleikanum með aðstoð menningariðnaðarins, ef maður er á annað borð byrjaður að forðast hann eða flýja.

Vandamálin hverfa hins vegar ekki þótt maður þykist vera strútur og grafi hausinn í afþreyingarsandi. Ímyndamenning nútímans er ekkert nema hula sem dregin er yfir lífið. Hula sem ber að svipta af reglulega og fremur oftar en sjaldnar. Hulan á að vera tímabundin undankoma, ekki hið eðlilega ástand.

Í heimi þar sem tækninýjungar hlaupa hver fram úr annarri með stuttu millibili, þar sem stórfyrirtæki sanka að sér upplýsingum um hvern einasta einstakling sem stundar viðskipti við þau ásamt því að gera sig stöðugt gildari á alþjóðavettvangi, í heimi þar sem snjallforrit eru hönnuð einungis til þess að stjörnur geti auglýst nýjustu kvikmyndina sína eða sérhönnuðu vegan-ræktarheyrnatólin sín og í heimi þar sem sýndarveruleiki er hægt og rólega að halda innreið sína inn í afþreyingarframleiðslu, bendir RP1 á að slík þróun sé hugsanlega ekki hættulaus, að minnsta kosti megi aldrei missa sjónar af hinu raunverulega í sýndarveruleikanum.

Um höfundinn
Heiðar Bernharðsson

Heiðar Bernharðsson

Heiðar Bernharðsson er með BA próf í kvikmyndafræði og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila