Þegar litið er á myndina hér fyrir neðan – sem máluð var af óþekktum listamanni árið 1678 og hangir á vegg í listasafni í Braunschweig, Þýskalandi – gæti virst sem þar gefi að líta Jesú Krist hangandi á krossinum; myndefni sem flestir kannast eflaust vel við. En það er samt eitthvað furðulegt við myndina. Manneskjan á krossinum hefur til dæmis misst annan skóinn og fyrir neðan hana krýpur fiðluleikari sem horfir upp til hennar angistaraugum.

Í listaverkum eru dýrlingar oft og tíðum sýndir ásamt einhverjum hlut eða í aðstæðum sem gefa í skyn hvernig þeir dóu eða hvað þeir gerðu í lífinu til að hægt sé að greina þá að á einfaldan hátt. Heilagur Sebastian er til að mynda oftast sýndur bundinn við tré, alsettur örvum sem stingast út úr líkamanum, og heilög Lucy er gjarnan sýnd með augu á disk, því augu hennar voru stungin út áður en hún var tekin af lífi. Í því samhengi má geta þess að manneskjan á krossinum er ekki Jesú Kristur, heldur dýrlingur að nafni Wilgefortis.

Wilgefortis gengur undir mörgum svæðistengdum nöfnum, svo sem Uncumber (England), Kummerins (þýskumælandi lönd, þ. sorg eða kvíði), Komina, Komera, Kumerana, Hulfe, Ontkommene, Ontkommer (Holland, þ. sú sem forðar einhverju frá því að gerast, í þessu samhengi þjáningu), Débarras (Frakkland), Eutropia, Reginfledis, Librata (Ítalía) og Liberata (Spánn, þ. hin frelsaða). Nafnið Wilgefortis er talið komið frá latneska orðasambandinu „virgo fortis“[1] sem þýðir „hugrökk kona“ en Wilgefortis er einmitt hvað þekktust fyrir að vera alskeggjuð. [2]

Sagan af heilagri Wilgefortis

Sagan henni varð til á 14. öld en hún segir frá ungri konu að nafni Wilgefortis sem bjó hugsanlega í Portúgal eða Gallesíu. Wilgefortis á að hafa, í gegnum föður sinn, verið heitbundin heiðnum konungi. Áður hafði hún heitið því að lifa skírlífi og vildi því ekki með nokkru móti gifta sig. Wilgefortis bað því til Guðs um að eitthvað myndi gerast sem kæmi í veg fyrir brúðkaupið. Næsta dag vaknaði hún með skegg og konungurinn sleit trúlofuninni eftir að hafa litið hana augum. Faðir hennar varð mjög reiður og í bræði sinni lét hann krossfesta stúlkuna fyrir óhlýðni.

Í sumum gerðum sögunnar er sagt að Wilgefortis hafi látið dýrmætan, silfraðan skó sinn falla við fætur fátæks fiðluleikara sem lék á hljóðfæri sitt við krossinn þar sem hún hékk. Fiðluleikarinn var eftir það handtekinn fyrir að hafa stolið skónum og dæmdur til dauða. Hann fékk leyfi til að leika á fiðlu sína í annað sinn við fætur Wilgefortis áður en átti að taka hann af lífi. Þá sparkaði hún hinum skónum af fæti sínum. Það sannaði sakleysi fiðluleikarans og hann varð síðar ríkur af því að selja skóna. Því er heilög Wilgefortis meðal annars talin veita frelsi undan ýmsum slæmum aðstæðum svo sem fátækt og ánauð.

Sterk kona veitir vernd

Wilgefortis var á 14.–16. öld tilbeðin af fólki í neyð, þá sérstaklega konum sem voru beittar ofbeldi af eiginmönnum sínum á meginlandi Evrópu. Á sínum tíma var hún einnig verndardýrlingur sirkúsa – þar sem skeggjaðar konur voru ómissandi þáttur í sýningum. Wilgefortis naut mestra vinsælla á þessu tímabili og oft var haldin mikil hátíð á degi hennar, sem er 20. júlí.

Prent frá miðöldum.

Árið 1969 var húþó færð úr opinberu dagatali dýrlinga hjá kaþólsku kirkjunni (afneitað sem dýrlingi) vegna þess að sagan af henni var talin vera of mikill skáldskapur. Engu að síður hefur hún á seinni árum notið nokkurra vinsælda sem táknmynd innan hinsegin- og femínistahópa víðs vegar um heiminn.

Í Westminster Abbey er að finna fallega, útskorna steinstyttu af heilagri Wilgefortis þar sem hún stendur við hlið annarra dýrlinga. Þar er hún sýnd halla sér upp að Tlaga krossi sem hún notar sem bókastatíf. Samkvæmt leiðsögumanni kirkjunnar spyrja sumir gestir sérstaklega um styttuna af Wilgefortis eða Uncomber og vilja líta skeggjuðu konuna augum. Þessu komst greinarhöfundur að þegar hún lagði sjálf í eins konar pílagrímsferð til London að hitta sinn uppáhaldsdýrling og átti við leiðsögumanninn tal. Af orðum hans má ráða að Wilgefortis eigi sér aðdáendur víðs vegar um heiminn.

Hormónaójafnvægi  

Nú á dögum mætti álykta sem svo að heilög Wilgefortis hafi verið með einhvers konar hormónaójafnvægi sem varð til þess að henni óx skegg. Það sem veldur auknum hárvexti hjá konum eru oftar en ekki kvillar á borð við hirsuatisma, hypertrichosis og blöðrur á eggjastokkum (PCOS), sem gera það að verkum að konur framleiða androgen og testosterón í meira magni en konur almennt. Rannsóknir benda til að 1 af hverjum 10 konum sé með PCOS og er það því með algengustu innkirtlasjúkdómum og ein algengasta orsök ófrjósemi hjá konum. Fleiri og fleiri konur greinast með PCOS á hverju ári en ekki er ljóst hver orsakavaldurinn er nákvæmlega þótt hann sé oft og tíðum insúlíntengdur. Sumir álykta að vandamálið felist í auknum hormónum í mataræði eða plasti, kvíða eða slæmu líferni. Hugsanlega hefur þessi kvilli ekki fengið næga umfjöllun vegna þess að hárvöxtur kvenna hefur af einhverri ástæðu verið umdeildur hlutur í gegnum tíðina – eins og sagan af Wilgefortis sýnir.

Á Íslandi og erlendis þjást margar konur af þessum sjúkdómi en aðrar taka honum opnum örmum, viðurkenna skeggið sem náttúrulegan part af líkama sínum og ögra með því staðalímyndum samfélagsins. Má í því samhengi nefna konur á borð við femíníska aktívistann Harnaam Kaur sem talar opinberlega um reynslu sína af  því að vera kona með skegg, stríðnina ásamt þunglyndinu sem henni fylgdi og hvernig hún náði að lokum að finna styrkinn í skegginu sínu.

Fordómar

Samfélagið virðist oft hrætt við allt sem er öðruvísi. Fyrsta hvöt fólks er oftar en ekki að fordæma frekar en að sýna skilning. Það er ekki fyrr en við opnum augun og lærum að samþykkja það sem er ólíkt hinu hefðbundna að við uppgötvum hvað heimurinn getur í raun verið fallegur staður, fullur af alls kyns litríku fólki. Þess vegna þurfum við sterkar fyrirmyndir og sögur eins og helgisöguna um heilaga Wilgefortis.


[1]More, Alison (2018). Fictive orders and feminine religious identities, 1200-1600. Oxford, OX: Oxford University Press, bls. 130.

[2]Friesen, Ilse E. (2001). The Female Crucifix: Images of St. Wilgefortis Since the Middle Ages, bls. 15.

Aðalmynd: Stytta af Wilgefortis í Prag. Mynd: Wurzeltod á Atlas Obscura.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Sólveig Eir Stewart

Sólveig Eir Stewart

Sólveig Eir Stewart er meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila