Ritið 2/2017: Hinsegin fræði og rannsóknir

Út er komið annað hefti Ritsins árið 2017 en þemað að þessu sinni er hinsegin fræði og rannsóknir innan hugvísinda.

Í ritinu eru þrjár greinar um þemað eftir Guðrúnu Elsu Bragadóttur, Soffíu Auði Birgisdóttur og Ástu Kristínu Benediktsdóttur. Greinarnar fjalla um ólíkar hliðar hinsegin fræða og rannsókna: teoríu, sögu og bókmenntir. Guðrún Elsa ríður á vaðið með grein um sálgreiningu og hinsegin fræði en þar spyr hún hvort þessar tvær fræðigreinar geti farið saman. Soffía Auður dregur fram sögu einstaklings frá 19. öld, Guðrúnar Sveinbjarnardóttur, og frásagnir af henni sem gefa í skyn að Guðrún hafi þótt karlmannleg og ýja að því að kynferði hennar hafi verið rangt ákvarðað við fæðingu. Loks fjallar Ásta Kristín um samkynja langanir í skáldsögunni Man eg þig löngum (1949) eftir Elías Mar út frá kenningum Eve Kosofsky Sedgwick um hinsegin gjörningshátt.

Í Ritinu er einnig að finna myndaþátt með átta völdum listaverkum eftir íslenska hinsegin listamenn en öll hafa þau verið sýnd í Galleríi 78 sem starfar í húsakynnum Samtakanna ’78. Forsíðumynd Ritsins að þessu sinni er eitt þessara verka: „Kona. Innsetning með jute reipi“ eftir Margréti Nilsdóttur. Magnús Gestsson, sem hefur umsjón með Galleríi 78, skrifar inngang.

Þýðingarnar í heftinu eru tvær og báðir textarnir eru eftir bandaríska fræðimenn. Annars vegar er um að ræða pistil Lauren Berlant og Michaels Warners frá árinu 1995, „Hvað kenna hinsegin fræði okkur um x?“. Hins vegar birtist í ritinu grein eftir Lillian Faderman frá sama ári, „Hvað eru lesbískar bókmenntir? Sögulegt hefðarveldi í mótun.“ Þýðandi beggja textanna er María Helga Guðmundsdóttir.

Auk þessa birtast tvær greinar utan þema í heftinu. Guðrún Steinþórsdóttir fjallar um ólík viðbrögð lesenda við skáldsögunni Frá ljósi til ljóss (2001) eftir Vigdísi Grímsdóttur og ræðir þau með hliðsjón af hugrænum fræðum. Einnig fjallar Svavar Hrafn Svavarsson um dauðann, réttlætið og guð á tímum Forn-Grikkja og varpar nýju ljósi á kenningu Platons sem tengir gjörðir manns í þessum heimi við örlög í næsta heimi í gegnum kenningu um sálina sem lifir dauða líkamans.

Ritstjórar Ritsins:2/2017 eru Rannveig Sverrisdóttir og Ásta Kristín Benediktsdóttir. Hægt er að lesa inngang ritstjóranna á Hugrás.