Klikkað leikrit þar sem allt klikkar sem klikkað getur

Leikhópur með mikinn áhuga en lítinn tíma ætlar að setja upp morðgátu í anda Agöthu Cristie. Þar segir frá morðinu á yfirstéttarmanninum Charles Haversham (Davíð Þór Katrínarson) að kvöldi sjálfs trúlofundardagsins með unnustunni fögru (Birnu Rún Eiríksdóttur). Mögulegir morðingjar eru bróðir hins myrta (Hjörtur Jóhann Jónsson), bróðir unnustunnar (Hilmar Guðjónsson) og gamla þjónustustúlkan (Kristín Þóra Haraldsdóttir). Það er því ekkert áhlaupaverk fyrir lögreglufulltrúann (Berg Þór Ingólfsson) að upplýsa málið. Enda gerir hann það ekki. Enginn grunur fellur á sýningarstjórann (Katrínu Halldóru Sigurðardóttur) sem gerir sitt besta, verandi leikkona en hvorki smiður né reddari þó að þess sé krafist. Og svo hefst leikurinn. Og frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu klikkar allt.

Pómó farsi

Enginn af leikurunum/persónunum trúir á það sem hann er að leika, kann rulluna eða leikur færri en tveimur skjöldum. Þannig séð verður sýningin strax leikrit um leikrit og leikhús um leikhús. Eiginlega er bakhlið sýningarinnar snúið fram í salinn og starfsfólk leikhússins leggur fram drjúgan hluta af farsanum. Klúður sýningastjóra, leikmyndasmiðs, ljósameistara og hljóðmanna verður uppspretta mikillar atburðarásar og gríns. Og „leikmyndin leikur aðalhlutverk“ eins og Silja Aðalsteins segir í leikdómi í fyrradag. Heiðurinn af leikmynd og búningum í anda þriðja áratugar síðustu aldar á Helga I. Stefánsdóttir. Ég er ekki vön að æpa upp af skelfingu í leikhúsi en gerði það í lokaatriði þessarar sýningar. Sýningastjóri var Christopher Astridge og lýsingu sá Páll Ragnarsson um.

Flinkir leikarar

Bergur Þór Ingólfsson er óborganlegur rannsóknarlögreglumaður í pokabuxum og Sherlock Holmes múnderingu sem hæfir starfinu. Hann hefur hárfína tímasetningu og þarf ekki að ýkja eða stækka leik sinn úr hófi fram til að framkalla hlátur, honum nægir að ranghvolfa augunum til þess. Hugurinn leitaði til Gísla Halldórssonar sem gat þetta líka.

Hilmar Guðjónsson bjó til æstan og svolítið ofsóknarbrjálaðan bróður ástkonunnar Florence Colleymoore og hafði fulla ástæðu til að reyna að verja mannorð hennar. Hann og Hjörtur Jóhann eru kattliðugir og fóru í loftköstum og fimleikaæfingum upp um alla veggi. Og héngu neðan í leikmyndinni. Það sama gerði „líkið“ af Charles Haversham, Davíð Þór Katrínarson, sem er verulega góður gamanleikari. Halldóra Geirharðsdóttir hefur haft fínan hóp að vinna með hér.

Senunni stálu þó ungu konurnar Birna Rún og Katrín Halldóra og slagur þeirra um flottasta kvenhlutverkið var alls ekki „kvenlegur“ heldur var svo hart barist að ég náði ekki miklu af ræðu sem Haversham hélt samtímis um glæpinn sem átti að fremja en drap á endanum ekki þann sem átti að drepa.

Það var mikill hraði í sýningunni og hreyfing, einkum eftir hlé. Stundum fannst mér of margar sýningar í gangi í einu á sviðinu en það var mikið hlegið og þetta var besta skemmtun. Það er trúa mín að þetta leikrit eigi eftir að slá öll aðsóknarmet hér eins og annars staðar.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila