Rauða skáldahúsið, eða Poetry Brothel in Reykjavík, var opið í fjórða sinn á skírdag, fimmtudaginn 29. mars, í Iðnó. Að opna dyr menningarsetursins þetta kvöld og ganga inn í Rauða skáldahúsið var eins og að stíga um borð í tímavél, ferðast aftur til veraldar sem hefur fyrir löngu runnið sitt skeið. Þetta er ærslafullur og lostafullur heimur þar sem raunveruleikinn og fantasían skarast, staður þar sem leikið með fýsnir, vettvang ótakmarkaðs ímyndunarafls og fjölbreytt dagskrá er á boðstólunum fyrir þá sem eru tilbúnir að njóta syndsamlegrar kvöldskemmtunar.
Það er lista og viðburðahópurinn Huldufugl sem stendur fyrir dagskrám Rauða skáldahússins en hópurinn leggur sig fram um að skapa stórbrotna leikhúsupplifun í áhugaverðu umhverfi. Huldufugl hefur staðið fyrir fjölbreyttum menningarviðburðum á liðnum misserum, þeirra á meðal eru Kassinn, leiklistarupplifun í sýndarveruleika, og völundarhúsið Askur Yggdrasils, svo fátt eitt sé nefnt. Stjórnendur Rauða skáldahússins og gestgjafarnir þetta kvöld voru þrjár huldukonur sem ganga undir nöfnunum Hannelore, Madame Karitas og Paige Truesong. Hugmyndin að kvöldinu er erlend en að upplagi er þetta kabarettsýning þar sem fjölum Iðnó er breytt í framandi og óhefðbundna kvöldskemmtun fjórum sinnum á ári.
Þetta er í fjórða sinn sem Rauða skáldahúsið opnar dyr sínar. Öll kvöldin hafa haft ákveðin þemu og þetta kvöld voru dauðasyndirnar sjö í forgrunni. Andrúmsloftið og stemningin í Rauða skáldahúsinu er lituð af áhrifum frá frönskum pútnakofum, burlesque-sýningum og áðurnefndum kabarettum. Þetta kvöld komu þó fyrst og fremst upp í hugann staðlaðar hugmyndir um „týndu kynslóðina“ sem var fyrirferðarmikil á öðrum áratug síðustu aldar. Þessi tími fékk seinna viðurnefnið „The roaring twenties“ (eða „glaði áratugurinn“) en hann einkenndist af mikilli velsæld, efnahagslegum uppgangi, bjartsýni og alls konar ofgnótt í vestrænni menningu, svo ekki sé minnst á djassinn og freyðandi vínið. Stundum er sagt að „nútímakonan“ hafi orðið til á þessum tímum enda mátti sjá sjálfstæðar, fágaðar og ögrandi konur í Rauða skáldahúsinu þetta kvöld.
Barinn var opinn og laufléttur sveiflandi djass, sem var fluttur af hljómsveitinni Keystone Swingers ásamt söngkonunni Viggu Ásgeirsdóttur, fyllti salarkynnin og átti stóran þátt í að skapa réttu stemninguna (ég er ekki frá því að ungi trompetleikarinn í bandinu hafi verið Chet Baker endurfæddur). Salurinn var fagurskreyttur og ljósin dempuð. Á borðum voru svo matseðlar þar sem kræsingar kvöldsins voru kynntar. Reyndar var ekkert matarkyns þar í boði heldur var um að ræða lista af skáldum sem buðu upp á ljóðalestur. Skáld þessi (eða kynjaverur) af báðum kynjum gengu svo um salinn, flest ögrandi klædd í anda fyrrnefnds tímabils, tilbúin að tæla gesti og freista þeirra með skáldskap og daðurslegri mælskulist. Þetta var veisla sem hinn mikli Gatsby hefði verið stoltur af að halda.
Ljóð eru í hávegum höfð í Rauða skáldahúsinu og eiga þau einna mestan þátt í skapa þá töfra sem þar er að finna. Eins á fyrri kvöldum var eitt höfuðskáld í öndvegi. Að þessu sinni var Sjón heiðursgestur en fyrri gestaskáld hafa verið Kristín Ómarsdóttir, Kristín Eiríksdóttir og Kött Grá Pje. Sjón steig upp á sviðið með heildarsafn ljóða sinna og gaf áhorfendum sýnishorn úr þeim verkum sem hann hefur samið á afar farsælum ferli. Það voru hins vegar áðurnefnd skáld eða kynjaverur, sem stígsporuðu um salinn og buðu einkalestur á ljóðum, sem áttu kvöldið. Skáldin voru framandi og lostafull og báru tælandi nöfn og ögrandi persónulýsingar samkvæmt (mat)seðli kvöldsins. Amaranta er lokkandi skógarandi, kattarleg og ósnortin. Goðsögnin Laysa er orkídía sem tekur hamskiptum, Hrefna Neðanjarðarstjarna er sírena, Úlfur Fenrir Lóuson er villtur og hrjúfur á meðan afturgangan Nastasia Filipovna er syndlaus afturganga, svo dæmi séu tekin.
Því miður gafst ekki ráðrúm til að fanga öll skáldin og fá þau til að lesa en ef gengið er rösklega til verks er þó hægt að njóta allmargra. Einkaljóðalestur er öðruvísi en hefðbundinn ljóðalestur og kannski mætti telja formið einhvers konar andstæðu hins vinsæla ljóðaslamms sem hefur verið að ryðja sér til rúms síðustu misserin. Einkalestur miðar að persónulegri og innilegri upplifun flytjanda og hlustanda. Að fá frumsamin ljóð beint í æð frá höfundi gefur orðunum meiri vigt. Áheyrandinn fær ekki bara orð í formi ljóða heldur skynjar hann líka raddblæ, lykt og látbragð skáldsins. Ljóðin sem borin voru fram voru fjölbreytt og sprottin úr ýmiss konar jarðvegi. Þau voru flutt á nokkrum tungumálum, m.a. íslensku, ensku, spænsku og latínu, og flutningurinn var ólíkur frá skáldi til skálds. Sum ljóðskáldin sátu andspænis áheyrandanum á meðan önnur stóðu honum að baki og hvísluðu orðunum í eyrað eins og leyndarmáli sem ekki mátti spyrjast út. Meira verður ekki ljóstrað upp enda var þetta í öllum tilvikum einkar persónuleg og náin stund.
En það var meira á boðstólum en ljóðalestur. Á dagskránni voru líka loftfimisleikari sem sveiflaði sér á sviðinu, söngatriði og líkamsmálarar og teiknarar sýndu listir sínar. Þá sat spákonan Snæugla fyrir í betri stofunni og spáði á tarotspil fyrir þeim sem vildu sjá fyrir hættur og freistingar jarðlífsins.
Það er eins og kvöldið sé falið í vitundinni, einhvers staðar milli draums og vöku. Sumt situr eftir, annað er horfið mér úr minni. Það er hægara sagt en gert að festa töfra og stemningu kvöldsins í orð. Þetta var kvöld kynþokka, daðurs, losta, ærsla og gleði sem hver og einn verður að upplifa sjálf eða sjálfur. Ölvið ykkur viðstöðulaust. En með hverju? víni, skáldskap, dyggðum, eftir geðþótta ykkar. En ölvið ykkur, segir í ljóði Baudelairs og það var einmitt það sem ætlast var til þessa kvöldstund (a.m.k. gerði ég það). En örvæntu ekki því næst á dagskrá er fimmta kvöldið. Það er fyrirhugað í lok júní og þemað verður hinn heillandi ævintýraheimur Shakespeares úr Draumi á Jónsmessunótt.
Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.
[fblike]
Deila