Ríddu mér blíðlega með vélsög: Söngleikurinn Heathers

Íslensk þýðing: Orri Huginn Ágústsson, Karl Pálsson og Þór Breiðfjörð. Byggt á þýðingu Önnu Írisar Pétursdóttur og Bryndísar Bjarkar Kristmundsdóttur. Leikstjórn og sviðshreyfingar: Orri Huginn Ágústsson. Tónlistarstjórn: Ingvar Alfreðsson. Danshöfundur: Auður Bergdís Snorradóttir.

Nýlega fór ég á rokksöngleikinn Heathers í uppsetningu Söngleikjadeildar Söngskóla Sigurðar Dametz. Verkið er upprunalega skrifað af Laurance O‘Keefe og Kevin Murphy og byggt á samnefndri kvikmynd frá árinu 1989. Þar segir frá lífi ungrar stelpu í menntaskóla, henni Veróniku, sem upplifir sig sem núll og nix og lifir í skugga þriggja vinsælla stelpna sem allar heita Heather, eða Heiður í uppsetningu SSD. Einn örlagaríkan dag fær Verónika tækifæri til að vera með í grúppunni og þar með þeim megin í lífinu sem grasið er grænna.

En er slík lífstílsbreyting án fórna? Hvað gerist þegar nýju vinkonurnar fíla ekki gaurinn sem þú ert skotin í? Og hvað áttu til bragðs að taka þegar þér er sagt að dömpa bestu vinkonu þinni af því hún passar ekki við hina „nýju þig“? Ekki halda samt að slík kósíheit, klisjur og kettlingatök einkenni sýninguna því þar brjótast sótsvörtustu tilfinningar og upplifanir unglingsáranna upp á yfirborðið – enda er söngleikurinn ætlaður 13 ára og eldri sökum orðbragðs, og af gildri ástæðu ef marka má titil þessa pistils. Það er hún Heiður Chandler sem af svo listrænni nærgætni lýsir undrun sinni með þessari línu. Hvers vegna að segja „vá“ þegar þú getur verið dramatískur í staðinn?

Mynd: Facebook-síða Söngleikjadeildar SSD

Á sýningunni tók ég strax eftir hve gríðarlega sterkur kór Söngleikjadeildar SSD var. Ef þú ætlar að setja upp söngleik er það örugglega atriði eitt, tvö og þrjú. Í sjálfu sér er slík sérstaða söngleikja í samanburði við önnur leikverk ákaflega einlæg þar sem engin aðalpersóna fær í raun og veru að svolgra í sig allt sviðsljósið því allar persónurnar verða að vinna saman sem ein heild. Að sjálfsögðu á það við um öll leikrit óháð stíl en það er auðveldara að hunsa einn lélegan leikara en heilan falskan kór.

Mynd: Instagram-síða Söngleikjadeildar SSD

En fyrst ég er búin að fjalla svona fallega um heildina er ekki nema sanngjarnt að tala líka um aðalleikarana. Á sýningunni sem ég fór á þann 14. mars lék Gyða Margrét Veróniku, Kristinn Breiðfjörð fór með hlutverk J.D. og Sara Líf Magnúsdóttir lék Heiði Chandler. Öll stóðu þau sig mjög vel en ekki er hægt að segja að þau hafi haft sönginn og leikinn jafnvel á valdi sínu. Gyða Margrét söng fallega með miklum tilþrifum en náði ekki alveg glettninni og kaldhæðninni sem fylgir hlutverki Veróniku. Aftur á móti var Kristinn sterkari sem leikari en söngvari. Sara lék hlutverk Heiðar Chandler listilega en náði ekki öllum hennar himinháu nótum.

Það sem helst má setja út á er að sumir leikaranna voru full hikandi og fóru með línur eða tóku dansspor út frá minni frekar en innlifun. Það kemur kannski ekki á óvart þegar um er að ræða ungt fólk en kynlífssenan var óþarflega vandræðaleg og því hefði verið hægt að kippa í liðinn með því að bara ríða á vaðið – bókstaflega.

Tveir leikarar eiga sérstaklega hrós skilið fyrir einmitt að hella sér í persónur sínar og missa sig á sviðinu. Það eru þeir Karl Pálsson og Márus Björgvin sem fóru með nokkur hlutverk í sýningunni. Eitt söngatriðið þar sem þeir, í hlutverkum feðra Kurts og Tudda, taka dúett saman var án efa uppáhaldið mitt í allri sýningunni. Þið sem þekkið til söngleikjarins vitið nákvæmlega um hvaða senu ég er að tala.

Mynd: Facebook-síða Söngleikjadeildar SSD

Mat mitt á þessari uppfærslu litast óneitanlega af Off-Broadway útgáfunni frá 2014 eftir O‘Keefe og Murphy, sem er svolítið eins og að bera amatör rithöfund saman við Halldór Laxness, eða að minnsta kosti einhvern svona frekar frægan. Gagnrýni er vandmeðfarin; ef ég vildi gæti ég einbeitt mér að því sem betur hefði mátt fara: Hljóðið var ekkert sérstaklega vel samstillt, sviðsljósið fylgdi leikurum höktandi og leikmyndin var mjög mínimalísk, sem mér persónulega finnst þó frábært. Ef þú getur sett upp leiksýningu með einfaldri leikmynd er það til marks um flotta leikara, flott handrit og flott samspil þar á milli – og það er ódýrara, sem frá sjónarhorni einstaklings sem var eitt sinn í áhugamannaleikhópi er afar hentugt.

En af hverju ætti ég að rífa niður þessa sýningu? Frá hvaða sjónarhorni er ég að meta hana? Hver er tilgangur verksins? Hvert er fólkið sem kom að sýningunni? Hvaða reynslu hafa þau? Hér er kominn hópur ungs fólks sem leggur sig allan fram um að túlka skemmtilega sögu, drekkur í sig erfið lög með flóknum röddunum eins og ekkert sé og setti á svið leiksýningu sem hluta af námi sínu. Eru þau tilbúin fyrir Broadway? Kannski ekki. En þau mega svo sannarlega vera stolt, hvert og eitt einasta þeirra.

Skólasýningar endast stutt og því hvet ég alla til að kíkja á Heathers söngleikinn á meðan færi gefst en aukasýningar verða 27. mars klukkan 18.30 og 22.00 í Gamla bíó.

Mynd: Facebook-síða Söngleikjadeildar SSD

Aðalmynd: Úr opinberu kynningarveggspjaldi söngleiksins í uppsetningu Off-Broadway.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Rut Guðnadóttir

Rut Guðnadóttir

Rut Guðnadóttir hefur lokið BS-námi í sálfræði og er nú meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila