Hrjóstrugur en heillandi barnaheimur

Stjarnleysingjanum datt í hug að draga tveggja ára dóttur sína á íslensku tölvuteiknimyndina Lói: Þú flýgur aldrei einn (2017, Árni Ólafur Ásgeirsson). Betri dómara um myndina væri eflaust hægt að finna; þann sem ekki hefur barn með sér, en dóttirin var engu að síður límd við framvinduna á hvíta tjaldinu lengst framan af. Hljóðið var stillt lágt barnanna vegna og því ekki sanngjarnt að fjalla sérstaklega um hljóðheiminn í þessari gagnrýni.

Árna Ólafi tekst að gera náttúru Íslands að þéttu og lifandi sögusviði með hjálp afbragðs raddleikara og handritshöfundurinn, Friðrik Erlingsson, á hrós skilið fyrir eitt skilvirkasta handrit sem stjarnleysinginn hefur séð í íslenskri bíómynd. Börnin geta vel við unað að horfa á myndina og læra sitthvað um fugla og lífríki landsins sem verður að teljast gott þegar sögusvið barnaefnis í kvikmyndahúsum er alla jafna utan landsteinana. Sjónarhornið ber frelsinu vott sem tölvuheimar hafa upp á að bjóða en heimssköpun Lóa er bæði frumlegri og skemmtilegri en dæmi eru um í ýmsum öðrum teiknimyndum, þó söguheimur þeirra skarti glæstum stórborgum og lífríkum skógum í stað kaldrar og hrjóstugrar náttúru Íslands, eins og hér er.

Þess verður þó að geta að um íslenska kvikmynd er að ræða og í ljósi áralangrar gagnrýni á að þær séu gjarnan karlmiðaðar er Lói síður en svo bylting. Kvenpersónur myndarinnar hefðu mátt eiga stærri þátt í framvindunni en þær virðast ekki tala um neitt annað en Lóa. Botninum hvað þetta varðar er annars vegar náð þegar spegilsjálf illfyglisins Skugga, vonda hliðin sem egnir hann áfram í drápum, er kvengert, og hins vegar þegar Lói talar um sína heittelskuðu Lóu með orðunum „Ég á hana“. Í því samhengi hefði heldur mátt segja „Ég elska hana“ og hjarta stjarnleysingjans hefði bráðnað. Eðlilega pældi dóttirin sem var með í för ekkert í þessu, henni var bara umhugað um hvort Lói litli myndi finna mömmu sína, en þar liggur einmitt hættan í kynjaðri framsetningu í barnamyndum. Þessi snöggi blettur á myndinni er enn óskiljanlegri í ljósi þess að hrjóstruga landið sem annars er innblástur myndarinnar hefur einnig getið af sér sagnaarf er skartar fjölmörgum góðum, sterkum og heilsteyptum kvenpersónum.

Að lokum skal geta þess að ákvörðun myndarinnar um að sýna börnum hversu hverful og jafnvel grimm náttúran getur verið er hvergi sjálfsögð, og hefur kostað hugrekki af hálfu kvikmyndagerðarmannanna. Lói er að vísu ekki jafn grimm og teiknimyndaserían Dýrin í Farthing skógi (e. The Animals of Farthing Wood) en þó er raunsæið slíkt að hún smyr ekki endalausum glassúr yfir söguheiminn. Í heimi teiknimynda þar sem engin vá virðast fylgja ævintýrum söguhetjanna verður slíkt að teljast áhætta og slíka áhættu mætti oftar sjá. Lóan er ástsælasti túristi þjóðarinnar og Lóa ber að fagna að sama skapi, enda þótt hann verði senn floginn úr kvikmyndahúsum borgarinnar. Hann má hins vegar endilega snúa aftur með vorið í farteskinu í framhaldsmynd.

Um höfundinn
Vilhjálmur Ólafsson

Vilhjálmur Ólafsson

Vilhjálmur Ólafsson er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila