Saumavél eða vélbátur? Smávegis um söguna og ömmur

Eitt meginmarkmið fyrirlestrarraðarinnar Margar myndir ömmu árið 2015, og  samnefndrar bókar, var að draga upp svipmyndir af konum á 20. öld þar sem í senn væri fjallað um hlut þeirra í mótun íslensks samfélags á breiðum grundvelli og farið niður á svið hins smáa og persónulega: Að sagðar yrðu sögur af raunverulegum lífum kvenna. Fyrir mörg okkar var það talsverð áskorun að fjalla um svo nákomna einstaklinga, hvort sem við þekktum ömmur okkar eða ekki. Þetta sést vel í köflum bókarinnar, æviþáttunum sem þar er fléttað saman við fræðilegar vangaveltur um aðferðir og túlkun og sögulega framvindu.[1]

Sú aðferð að segja sögu, skrifa sagnfræði, í gegnum ævisögur eða æviþætti er aldagömul og saga kvenna var einmitt lengi sögð í gegnum ævisögur og æviþætti. Kvenrithöfundar og svokallaðir amatörsagnfræðingar erlendis skrifuðu um ævir merkra kvenna á 19. öld og þegar kom fram á 20. öld bættust íslenskar konur í þennan hóp og skrifuðu æviþætti kvenna í blöð og tímarit, inn í sínar eigin sjálfsævisögur og gáfu jafnvel út bækur með æviþáttum kvenna. Einmitt til þess að sýna hlut kvenna í þróun samfélagsins á tímum nútímavæðingar, bæði þeirra kvenna sem stigu út fyrir hefðbundið hlutverk kvenna og létu til sín taka á opinberum vettvangi en einnig svokallaðar venjulegar konur sem helguðu sig heimili og börnum, mjólkuðu kýr, söltuðu síld og þurrkuðu fisk, stóðu daglangt við rakstur. Þetta var liður í því að auka sjálfsvirðingu kvenna og sjálfstraust því ekki fengu þær inni í sögubókum. Það hafa rannsóknir sýnt.[2]

Þótt þær kæmust ekki í sögubækur/sagnfræðirit var eftirspurn eftir sögum af konum. Fyrir utan verk sem konur gáfu út hafði árið 1949 verið gefin út bókin Móðir mín, með æviþáttum 26 kvenna (eiginlega allir skrifaðir af körlum) og viðtökurnar voru svo góðar að fáeinum árum síðar, 1958, kom út Móðir mín. Nýtt safn. Þar leggur ritstjórinn Pétur Ólafsson áherslu á þátt kvenna í sköpun íslensks samfélags. Hann hafði nefnilega veitt því athygli þegar hann las yfir æviþættina 23 sem birtust í þessu safni (og nær allir skrifaðir af körlum) að „undravert“ væri hve „hlutir, eins og t.d. ein lítil eldavél, fengu breytt miklu um hagi manna, sem bjuggu aðeins á næsta leiti við okkur. Að ekki sé talað um heila skilvindu og prjónavél.“ [3]

Á tímarit.is finnast má finna auglýsingar um saumavélar frá og með 1877. Þessi birtist í Þjóðólfi 18. maí árið 1878.

Þessar tækninýjungar, rétt eins og menntun kvenna og baráttu fyrir bættum húsakosti, sem skipti konur og velferð fjölskyldna miklu máli, setur Pétur í samhengi við efnahagsþróun landsins. Þetta efni, segir hann, er þráður sem rennur í gegnum alla kaflana. Sagnfræðingurinn Þorkell Jóhannesson sá þetta ekki alveg sömu augum því hann skrifaði í ritdómi að í þessum þáttum væri ekki greint frá neinum „stórskornum viðburðum“, heldur sé þarna á ferð „saga kvenna, sem fæstar tóku þátt í umsvifum þjóðmála.“ Það sé samband barns og móður sem þarna væri í fyrirrúmi (sem var svolítið hugmyndin í fyrri bókinni).[4] Skilningur Þorkels á því hvað telst til þjóðmála stangast því á við orð Péturs en eru lýsandi fyrir þær hugmyndir sem voru ríkjandi um verðug viðfangsefni í sögu og um hvaða þættir mannlífsins, samfélagsins, væru tannhjólin í gangvirki sögunnar. Hér mætti líkja spyrja um árekstur hins alþýðlega og fræða. Brot úr minningargrein sem birtist í Tímanum árið 1966 er líklega lýsandi fyrir óþol sem í vaxandi mæli má sjá gagnvart hefðbundinni karlasögu og upphafningu frægra karla:

„Og sú er trúa mín og þó reyndar vissa, að saga kvenna, slíkra, sem Guðfinnu Þórðardóttur sé sú, að hún marki miklu dýpri, varanlegri og giftumeiri spor í þjóðarsögunni en spor ýmissa þeirra manna, sem hafa verið meira á orði, meðal annars vegna þess, að þeir hafa göslazt í gegnum lífi ð með meiri hávaða og fyrirgangi.“[5]

Í kaflanum sem ég skrifaði í Margar myndir ömmu fléttaði ég saman frásögnum af ömmum mínum og langömmum og fræðilegri umræðu um sögulegt samhengi, sögulegt virði, þ.e. hverjir hefðu verið og væru þess virði að um þá væri skrifað í sagnfræði.

Alla 20. öld reyndu konur að skrifa sig inn í söguna, vildu að litið væri á þær sem fullgilda þegna og gerendur í íslensku samfélagi bæði að fornu og nýju. Eitt dæmi frá 1941, ekki um sagnaritun heldur vitund um skekkjuna, er í Nýju kvennablaði. Snemma það ár birtist athugasemd vegna þriggja erinda sem Jón Helgason fyrrverandi biskup hafði flutt í útvarp um Reykjavík æskuáranna. Þar minntist hann „margra mætra manna“, eins og segir í Nýju kvennablaði, „en láðist með öllu að geta kvenna að nokkru. Eða voru engir kvenkostir í Reykjavík í þann mund?“[6] Bók Jóns, Þeir, sem settu svip á bæinn kom út í árslok og þá var sérstakur kafli um húsmæðrastéttina! Hvort Jón hafði lagt drög að þeim kafla áður en skotið var á hann í Nýju kvennablaði er ómögulegt að segja en óneitanlega er freistandi að ætla að ábendingar kvenna hafi haft áhrif.

Titillinn sem valinn var á þennan pistil, saumavél eða vélbátur, snýst einmitt um það hvernig við metum sögulegt virði, hvað það er sem við teljum hreyfiafl sögunnar. Vélvæðing bátaflotans fól í sér meiriháttar breytingu fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Um það er fjallað í sögubókum.

Minna fer fyrir umræðu um áhrif tækninýjunga á borð við saumavélar og prjónavélar, einnig heimilistækja, svo sem þeirrar byltingar sem varð með eldavélum — hlóðaeldhús yfir í kolaeldavél, kolaeldavél yfir í rafmagnseldavél — höfðu á líf og kjör kvenna á nítjándu og tuttugustu öld hefur verið rannsóknarefni kvenna- og kynjasögufræðinga víða um lönd. Þótt tæpt hafi verið á þessu efni í fáeinum ritum eða greinum er þessi saga er enn að mestu órannsökuð hér á landi.[7]

Á ráðstefnu sem ég sótti nýlega í París, um verkalýðssögu, var einmitt fjöldi málstofa helgaðar heimilinu sem vinnustað, ekki þó vegna hefðbundinna heimilisstarfa heldur einmitt vegna m.a. nýrrar tækni á borð við saumavéla, sem gerði konum kleift að taka launavinnu inn á heimilið (því gátu reyndar fylgt ýmsir ókostir einnig) eða skapa sér aukatekjur. Saumavélin var jú miklu hraðvirkari en konuhöndin – á áðurnefndri ráðstefnu var t.d. nefnt að saumavél (líklega árið 1870 frekar en 1904 – eitthvað fer á milli mála í minnisbókinni minni hvort árið á við!) saumaði 60 spor á mínútu en kona 25! Það munar um það! (Svo voru líka auglýstar hljóðlátar saumavélar þar sem tekið var fram að kona gæti alveg saumað á nóttunni án þess að trufla sofandi eiginmann!).[8]

Þessa saumavél átti föðuramma mín, Anna Stefánsdóttir (1897-1967). Ég eignaðist hana eftir að ég fór á miðilsfund á Hornafirði uppúr 1990. Ekkert markvert kom þar fram nema að afi sagði mér (í gegnum miðilinn) að ég færi til náms í Kantaraborg en svo kom amma og hafði áhyggjur af saumavélinni sinni. Ég hef aldrei komið til Kantaraborgar en föðursystir mín gaf mér saumavélina um leið og hún frétti af þessum skilaboðum að handan.

En, það eru einmitt þessar tækninýjungar sem Pétur Ólafsson er með hugann við, kannski svolítið hissa, þegar hann skrifar formálann að bókinni Móðir mín af því hann hefur áttað sig á mikilvægi þeirra í þróun samfélags og efnahagslífs.

Konurnar sem lifðu þessa tæknibreytingu voru ömmur okkar og langömmur. Hvernig notuðu þær saumavélarnar sínar og prjónavélar? Hvaða áhrif hafði þessar vélar á efnahagslífið? Saumuðu þær bara og prjónuðu fyrir heimilið? (Amma Erla saumaði öll föt á börnin sín segir mamma, kjóla með blúndum og pífum til að nota spari). Eða gátu þær drýgt tekjur heimilisins með vinnu sinni? Í þessu samhengi má minna á rannsókn Gerðar Róbertsdóttur, einstaklingsverkefni í sagnfræði á „faldri“ launavinnu kvenna á tuttugustu öld en sýningin Hjáverkin á Árbæjarsafni byggir á þeirri rannsókn.[9] Og ógiftu konurnar: Voru saumavélarnar ekki þeirra vélbátar? Tækifæri til þess að skapa sér vinnu? Jafnvel hvar sem er – saumavél (og prjónavél er auðvelt að flytja milli staða), rétt eins og vélbátarnir á t.d. Austfjörðum sem fóru milli sjávarplássa og sóttu sjóinn þaðan sem skemmst var á gjöful miðin.

Þegar ég flutti fyrirlestur um ömmur mínar fyrir næstum þremur árum og skrifaði í kjölfarið um þær í bókina fannst mér svo mikilvægt að fá tækifæri til að fjalla um venjulegar konur og hlut þeirra í sögunni. Sú tilfinning hefur eflst ef eitthvað er, ekki síst af því ég hef eytt drjúgum tíma síðan þá í að skoða sagnaritun kvenna fyrir tíma akademískrar kvennasögu, bæði hér á Íslandi og lesið erlendar rannsóknir um efnið. Þá sé ég enn betur en áður hve mjög konur hafa þráð að heyra og sjá sögu sína sagða, að fá einhvern grundvöll til þess að standa á í samfélagi sem svo lengi jaðraði sögu þeirra og þaggaði raddir þeirra.

[1] Margar myndir ömmu. Konur og mótun íslensks samfélags á 20. öld. Fléttur IV. Ritstj. Irma Erlingsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir og Sólveig Anna Bóasdóttir (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2016).

[2] Byggt á grein sem ég hef í smíðum: „Sögulegir gerendur og aukapersónur. Kyngervi og sagnaritun þjóða(r)“. Einnig má benda á Mary Spongberg, Writing Women‘s History since the Renaissance (Basingstoke: Palgrave Macmillan, 2002); Bonnie G. Smith, The Gender of History. Men, Women, and the Historical Practice (Cambridge Mass.: Harvard University Press, 2. pr. 2000); Storia della Storiografia nr. 46 (2004).

[3] Móðir mín. Nýtt safn. Pétur Ólafsson sá um útgáfuna. Reykjavík: Bókfellsútgáfan, 1958, bls. 7.

[4] Þorkell Jóhannesson, „Móðir mín – Nýtt safn“, Tíminn 17. desember 1958, bls. 7.

[5] Þorsteinn Magnússon, „Guðfinna Þórðardóttir húsfreyja á Hvoli í Borgarfirði eystra“, Tíminn 11. mars 1966, bls. 8 og 12.

[6] Nýtt kvennablað 1:5 (1941), bls. 3.

[7] Æsa Sigurjónsdóttir fjallar stuttlega um saumavélar, innflutning þeirra og nefnir nokkrar konur sem áttu saumavél þegar um 1870 í bók sini Til gagns og til fegurðar. Sjálfsmyndir í ljósmyndum og klæðnaður á Íslandi 1860-1960 (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 2008), bls. 71-76. Tæpt er á sambandi tækni, nútímavæðingar og stöðu kvenna í Erla Hulda Halldórsdóttir, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903 (Reykjavík: Sagnfræðistofnun / RIKK / Háskólaútgáfan, 2011), bls. 263-267.

[8] Ráðstefna European Labour History Network, París 2.-4.  nóvember 2017.

[9] Um sýninguna sjá sýningarbæklinginn: Hjáverkin. Atvinnusköpun kvenna í heimahúsum 1900-1970 (Reykjavík: Borgarsögusafn, 2015).

Um höfundinn
Erla Hulda Halldórsdóttir

Erla Hulda Halldórsdóttir

Erla Hulda er dósent í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila