Í fjarlægð

Mörg okkar sem fæddumst um miðbik aldarinnar sem leið ólumst upp í skugga berklanna. Árlega var gert berklapróf í skólanum. Stundum var sprautað í handlegg, stundum settur plástur á bringu. Svo tók biðin við. Hjá sumum „kom út“ eins og mig minnir það hafi verið kallað, rauður blettur eða bólga. Hjá öðrum ekki og aldrei hjá mér. Líklega komu ekki fram ný tilfelli í bekknum. Sum okkar voru einfaldlega með bakteríuna en önnur ekki. Ekkert okkar var smitandi eða veikt. Berklarnir voru því dularfullt fyrirbæri sem við lifðum með.

Dulin ættarsaga

Þannig var það ekki í tíð foreldra okkur. Í þeirra ungdæmi reið „hvíti dauðinn“ um héruð og hjó stór skörð og herjaði ekki síst á yngri kynslóðir. Ég er í föðurætt úr Saurbæjarhreppnum gamla í Eyjafirði. Hann var illræmdur á berklatímabilinu og skar sig í því efni frá hinum hreppunum framan Akureyrar. Fólkið hans pabba dó unnvörpum og áhrifin síuðust á milli kynslóða þótt ekki væri mikið sagt. Á heimilinu voru líka til myndir at tveimur föðurbræðrum mínum varla konum af barnsaldri. Þeir voru hvítklæddir, tærðir og lágu í sjúkrarúmmum. Annar var einn. Amma sat peysufataklædd á rúmstokknum hjá hinum. Ég huggaði mig við að auðvitað gat hún ekki verið á tveimur stöðum samtímis. Myndirnar voru þó ekki teknar á sama tíma . Svona ættarsaga blundar djúpt í sálafylgsnunum og fylgir okkur inn í fullorðinsárin. Mér stóð líka lengi stuggur af Kristneshæli þar sem vörn var þó snúið í sókn í baráttunni við berklana á sínum tíma.

Söguritun

Af þessum sökum fagna ég því að nú hafa verið gefin út tvö rit um Hælið. Annað og það sem er meira að vöxum er nýkomið út. Það fjallar um baráttuna fyrir að berklahæli risi fyrir norðan líkt og Vífilstaðir fyrir sunnan, söfnun í byggingarsjóð, undirbúning og uppbyggingu og loks lífið og starfið á Hælinu á berklatímanum eða frá opnun 1927 fram til 1960. Hitt ritið kom út í fyrra og segir frá lífinu í þorpinu sem myndaðist umhverfis Hælið og því merkilega starfi sem fólst í að finna þessari miklu byggingu nýtt hlutverk. Þar starfar nú endurhæfingadeild á vegum SAK (Sjúkrahússins á Akureyri) og í vændum er að þar verði brátt opnað safn um hina dramatísku fortíð staðarins. Því ber að fagna.

Nýja bókin Í fjarlægð; Saga berklasjúklinga á Kristneshæli gefur góða innsýn í líf fólksins sem dvaldi á Hælinu og byggir að verulegu leyti á frásögnum þess sjálfs. Höfundurinn, Brynjar Karl Óttarsson, hefur tekið viðtöl við nokkra fyrrum sjúklinga en byggir líka á sjálfsskrifum þeirra af ólíku tagi. Hæst ber þar dagbók Péturs Finnbogasonar kennara og skólastjóra sem var lagður inn á Hælið 28 ára gamall 1938 og dó nokkrum árum síðar. Fyrir vikið fáum við góða innsýn í lífið og dauðann á Hælinu.

Berklarnir

Berklar eru banvænn bakteríusjúkdómur sem fylgt hefur mannkyni um langan aldur. Hér voru þeir landlægir frá landnámsöld en urðu að faraldri um 1900 nokkru seinna en í nágrannalöndunum. Á 6. áratugi 20. aldar komu loks virk lyf til sögunnar og á skömmum tíma var veikinni útrýmt hér og skiptu bætt húsakynni þar einnig miklu máli. Fyrir þann tíma stóð fátt til boða, einangrun, betri aðbúnaður en hægt var að veita á venjulegum heimilum, útivera í hreinu lofti og svo hrossalækningar á borð við blástur, brennslu og höggningu, þegar 6–8 efstu rifbein sjúklingsins voru fjarlægð. Meðal einkenna voru vægur hiti og slappleiki án verulegra óþæginda langtímum saman. En svo gat allt farið á versta veg ef sár myndaðist í lungum sem olli blóðspýtingi. Þá gat sjúklininum hrakað hratt og hann látist eftir skamman tíma.

Lífi og dauðinn á Hælinu

Af þessum sökum gat það verið dauðadómur að greinast með berkla og mörgum þótti sem stigið væri niður til Helvítis með því að leggjast inn á Hælið. Maðurinn með ljáinn var líka alltaf á vakt og sjúklingarnir áttu stöðugt á bak vinum og samferðafólki að sjá. Stundum dó það í næsta rúmmi án þess að nokkuð yrði að gert. Aðrir náðu að útskrifast en því miður beið þeirra margra fátt annað en erfiðisvinna og kröpp kjör sem ollu því að þeir komu aftur og þá í enn verra ástandi en áður.

Á hælisdvölinni var þó allt önnur hlið. Flestir höfðu töluverða fótaferð og andlegt og líkamlegt þrek. Þeim gafst tækifæri til dægradvalar, samskipta og jafnvel styttri skemmtiferða. Félagsstarf af ýmsu tagi þróaðist, sambönd mynduðust og sumum gafst næði til lestrar og ritstarfa sem annars hefðu líklega ekki átt sömu þroskakosti. Síðan hefur það eitt að flytja inn á Hælið og dvelja þar mánuðum og jafnvel árum saman verið ákveðið ævintýri. Þetta var stór, hvít höll á hæð með vítt útsýni yfir héraðið það sem Eyjafjarðará streymdi milli blómlegra byggða. Það hafa verið umskipti frá kotunum frammi í Saurbæjarhreppi þar sem dalir eru þröngir og sólargangur skammur.

Í Sögu berklasjúkra á Kristneshæli segir frá þeim undarlegu örlögum sem fólkið okkar margra hreppti þar fyrir alls ekki svo löngu og okkur er hollt að minnast. Þar er brugðið upp persónulegum augnabilksmyndum en þær líka settar í stærra samhengi. Þar er líka að finna örsögur af ýmsu tagi eins og til dæmis frásöguna af því hvernig sönglag Karls O. Runólfssonar Í fjarlægð varð til við ljóð Valdimars Hólm Hallstaðs en hann dvaldi á Hælinu um leið og eiginkona tónskáldsins.

Mikilvægt rannsóknarefni

Í fjarlægð er gagnleg bók fyrir þá sem kynna vilja sér sögu berklasjúkra á Íslandi eða seint og um síðir kynnast hluta af ættarsögu sinni sem ekki var svo aðgengilegur á uppvaxtarárunum. Svo minnir bókin á að hér er um áhugavert félagssögulegt rannsóknarefni að ræða sem býður upp á fjölmörg áhugaverð viðfansefni.

Brynjar Karl Óttarsson, Í fjarlægð. Saga berklasjúklinga á Kristneshæli, Akureyri: Grenndargralið, 2017, 305 bls., myndir og skrár.

Brynjar Karl Óttarsson, Lífið í Kristnesþorpi. Frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu, Akureyri: Grenndargralið, 2016, 217 bls., myndir og skrár.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila