„Ég álfu leit bjarta …“. Ferðasaga frá Afríku

Ferðasaga Halldórs Friðriks Þorsteinssonar Rétt undir sólinni kom út hjá Foldu fyrr á þessu ári. Í bókinni fer Halldór með lesandur sína í ferðalag um fjölmörg lönd Afríku, sunnan Sahara. Texti bókarinnar er samsettur úr stuttum köflum sem lýsa ferðamáta, samferðafólki, gestgjöfum, menningu, þjóðlífi og uppákomum ýmiskonar. Til aðstoðar fyrir þá sem lítt þekkja til landafræði álfunnar er aftast í bókinni að finna yfirlitskort þar sem slóð ferðarinnar er rakin. Gestsauga höfundar nemur framandleikann hvert sem litið er og Halldór deilir með lesendum hugrenningum sínum – jafnt undrun sem áhyggjum. Titil bókarinnar sækir höfundur til Jóns Indíafara en fremst í bókinni er að finna beina tilvitnun í skrif Jóns þar sem segir: „Þessi álfa, Afríka, liggur rétt undir sólinni og hennar gangi.“²

Ólíkt hefðum klassískrar ferðasögu (e. travel narratives or accounts)³ lætur Halldór sér ekki nægja að segja frá eigin upplifun og reynslu heldur leitar fanga víða annars staðar máli sínu til stuðnings (sjá heimildalista í „eftirmála“, bls. 205-206). Skrif annarra nýtast höfundi við að kryfja tiltekna atburði og skilja betur umhverfið, aðstæðurnar og þá viðburði sem á daga hans drífa. Hver kafli hverfist um tiltekinn atburð eða hluta ferðarinnar, gjarnan heimsókn til ákveðins lands eða staðar. Merking kaflaheita liggur sjaldnast í augum uppi fyrr en að lestri kaflans loknum. Umræddar yfirskriftir eru sumar stuttar og hnitmiðaðar, sjá t.d. „Doktor Livingstone, ætla ég?“ sem segir frá heimsókn til Dar es Saalam, höfuðborgar Tansaníu (bls. 163-171), eða frásögn af göngu á Kilimanjaro fjall í kaflanum: „Pole – pole, smiley – smiley, sippi – sippi“ (bls. 139-150). Önnur kaflaheiti eru beinar tilvitnanir í önnur rit, eins og: „Þá plantaði Drottinn Guð aldingarð í Eden, …“ (bls. 61-67), sem fengin eru úr Fyrstu Mósebók eða sótt til G.B. Shaw:⁴ „The greatest of evil and worst of crimes is poverty.“ (bls. 31- 36), en í þeim kafla er sjónum beint að málefnum Ghana.

Um leið og höfundur fylgir hefðum ferðasögunnar og birtist sem sögumaður frásagnarinnar í fyrstu persónu gerist það ítrekað að hann stígur til hliðar og ljær öðrum rödd. Viðmælendur hans, oftast leiðsögumenn – formlega ráðnir til verka – eða tilfallandi samferðamenn, oftast karlar, sem hann kynnist á förnum vegi og tekur tali, öðlast tækifæri til að segja sína eigin sögu með frásögnum í fyrstu persónu. Með þessari frásagnartækni gefst lesandanum kostur á því að skyggnast um stundarkorn inn í heim viðkomandi. Fjölradda frásögnin veitir höfundi enn fremur tækifæri til að tefla fram ólíkum sjónarhornum og bera fram víðari skýrskotun, gjarnan í glettinni og ódramatíseraðri frásögn, af átakanlegum veruleika. Þessi frásagnartækni – mjög í anda Bakthíns⁵ – leiðir til þess að með snörpum stíl og markvissri notkun lýsingarorða er brugðið upp skýrum myndum sem saman verða að eins konar yfirlitsmynd eða mósaíkverki í mörgum litum þar sem lykt, bragð og snertiskyn leika mikilvægt hlutverk.

Kynni höfundar af margmenningarlegum veruleika þeirra þjóðlanda sem hann fer um birtist ekki einungis í umfjöllun hans um landslag og byggingarstíl, trúarhefðir, klæðaburð og matarmenningu, eða lífsstíl og skoðanir, heldur ekki hvað síst í umræðu um fjöltyngi og arfleifð nýlendutímans hvað tungumál varðar. Halldór er meðvitaður um mikilvægi þess að geta átt samskipti við þá sem á vegi hans verða og því byrjar hann för sína um frönskumælandi hluta álfunnar með því að sækja mánaðarlangt frönskunámskeið. Það breytir þó því ekki að það verður honum „málstirðum í frönsku [léttir] að komast til enskumælnadi lands“ (bls. 31). Inn í frásögn sína tvinnar hann upplýsingar um hin mörgu og margvíslegu tungumál álfunnar og deilir með lesendum upplýsingum eins og að tungumál Eþíópa er amharíska, sem hann segir „hljóma eins og bræðingur úr tyrknesku og arabísku“, tungumál með sitt eigið stafróf, „ge´ez“ (bls. 104). Síðar vekur tungumálamergð landa eins og Suður-Afríku undrun, en þar eru ellefu tungumál töluð; „Afrikaans, enska, ndebele, swati, sotho, tswana, tshangana, tsonga, venda, xhosa og zulu“ og ekki síður að „margir af yngri kynslóðinni tala öll þessi mál“ (bls. 190).

Í ferðasögu sinni fléttar Halldór Friðrik Þorsteinsson þannig saman staðreyndum um náttúru og dýralíf, menningu og siði, eigin reynslu og uppgötvunum, auk sögulegra staðreynda. Til viðbótar glæða upplýsingar sem hann safnar í sarpinn frá ferðalöngum og viðmælendum, þeirra meðal nokkurra Íslendinga sem búa og starfa í löndum Afríku, sunnan Sahara, textann sérstöku lífi. Atburðarásin er hröð og stíllinn snarpur. Ferðasagan Rétt undir sólinn (2017) er athyglisverð lesning og fengur öllum þeim sem áhuga hafa á heimsmálunum og framandi slóðum.

  1. Tilvitnun í fyrirsögn er úr stöku eftir Halldór Friðrik Þorsteinsson. Sjá Rétt undir sólinni. Folda, Reykjavík, 2017, bls. 203.
  2. Úr Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara. Mál og menning, Reykjavík, 1992 (bls.tal ekki tiltekið).
  3. Ferðasögur urðu vinsælt bókmenntaform þegar á 18. öld, þegar evrópubúar hófu að ferðast um heiminn. Til frekari upplýsinga sjá t.d.: https://www.britannica.com/art/travel-literature.
  4. Um írska nóbelsverðlaunahafann Georg Bernard Shaw (1856-1950) er að ræða.
  5. Um rússneska fræðimanninn og heimspekinginn Mikhail Bakhtin (1895-1975) er að ræða, ekki hvað síst skrifa hans um margröddun og þess sem vísað hefur verið til sem: „polyphony and unfinalizability“. Til frekari upplýsinga sjá t.d. http://www.iep.utm.edu/bakhtin/ og/eða https://www.britannica.com/biography/Mikhail-Bakhtin.
Um höfundinn
Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir er prófessor í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún lagt áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku og um þessar mundir vinnur hún að nýrri bók um málefni minnihlutahópa við Karíbahafsströnd Mið-­Ameríkuríkja. Sjá nánar

[fblike]

Deila