Sendiherrafjölskyldan heldur hádegisverðarboð
Sendiherrann Elliði (Pálmi Gestsson) er skagfirsk þjóðremba og fyllibytta, sendiherrafrúin Ágústa (Edda Björgvinsdóttir) er líka þjóðremba og fyllibytta sem gerir sitt besta til að lifa í eigin heimi sem á fátt sammerkt með veruleika annarra. Gestirnir í því ruglaða heimboði sem við verðum vitni að eru listakonan Bríet Ísold (Birgitta Birgisdóttir) og kærasti hennar Albert (Hallgrímur Ólafsson). Hún er að opna sýningu í borginni og til í að gera hvað sem er til að fá fjárhagslegan stuðning sendiherrans. Sá hefur augljósan áhuga á því sem hún kynni að vilja gera til þess. Albert unnusti er búinn að fá nóg í margvíslegum skilningi enda eini nokkurn veginn normali maðurinn í veislunni. Til borðs þjónar Lína, öðru nafni Li Na (María Thelma Smáradóttir) af thailenskum uppruna sem fer með upphaf Gunnarshólma skýrt og fagurlega. Hún er greinilega ófrísk, trúlega eftir soninn Svein Elliða (Guðjón Davíð Karlsson) sem er látinn búa í lysthúsi í garðinum og falinn fyrir gestum sendiráðsins. Hann er brennuvargur en hún er laundóttir Elliða. Flókið? Ekkert sérlega. Fyndið? Ekkert sérlega.
Svört kómedía?
Allar persónur leikritsins eru staðalmanngerðir eins og sjá má, marflatar. Ádeila á utanríkisþjónustu er fremur þreytt efni, það eru engir undirtextar hvorki í texta né sýningu og flest er ljóst eftir fyrsta hálftímann. Þetta er einkenni gamanleikja en í staðinn fyrir hraða atburðarás, aukafléttur, misskilning, brellur og stuð fáum við langa miðju þar sem ekkert gerist nema það að aðalpersónur verða drukknari og getulausari. Sýningin býður samt upp á krassandi endi sem ég ætla ekki að segja frá.
Það skal undirstrikað að margir leikhússgestir virtust skemmta sér rosalega vel frá fyrstu setningu verksins þar til yfir lauk.[/cs_text]
Deila