Handan við legg og skel

Öld barnsins
Sýningarstjórar: Aidan O’Connor, Elna Svente
Sýningarstjóri og hönnuður sýningar á Íslandi: Guja Dögg Hauksdóttir
Norræna húsið
22.7.2016 – 27. 2.2017
Nú stendur yfir sýning í Norræna húsinu sem nefnist Öld barnsins. Undirtitill sýningar er Norrræn hönnun fyrir börn frá 1900 til dagsins í dag. Titillinn er lýsandi og á vel við innihald sýningar enda um stóra sýningu að ræða sem hefur ferðast um Norðurlöndin en á þó upphaf sitt í New York. Árið 2012 var haldin sýningin Century of the Child: Growing by Design, 1900-2000, sem unnin var af sýningarstjórunum Juliet Kinchin og Aidan O’Connor í Hönnunar- og arkitektadeild safnsins Museum of Modern Art (MoMa). Sýningarhönnuður á Íslandi er Guja Dögg Hauksdóttir, arkitekt. Sýning hefur ferðast til Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands og er nú á Íslandi til og með 27. febrúar.

Á sýningunni má sjá húsgögn, leikföng, bækur, fatnað, leiktæki, sparibauka, matarílát; allt saman hannað fyrir börn og sett upp með tengingu við samfélagið, söguna, markaðssetninguna og auglýsingar hvers tíma. Verkin eru meðal annars eftir virta hönnuði og arkitekta á borð við Alvar Aalto, Olaf Eliasson, Arne Jacobsen, Kay Bojesen, Carl og Karin Larsson, Peter Opsvik, Tove Janson og fjölda annarra norrænna hönnuða. Ýmsir íslenskir hönnuðir eiga gripi á sýningunni í bland við aðra norræna hönnun og má til að mynda nefna fatnað frá fyrirtækinu As We Grow og 66N, matarílát og lampa frá Tulipop auk ýmissa annarra hluta.

Tulipop borðlampi fyrir börn eftir Signýju Kolbeinsdóttur
Á sýningunni má sjá húsgögn, leikföng, bækur, fatnað, leiktæki, sparibauka, matarílát; allt saman hannað fyrir börn og sett upp með tengingu við samfélagið, söguna, markaðssetninguna og auglýsingar hvers tíma.
Aðkoman að sýningunni er heldur óvenjuleg. Til að komast á sýninguna er farið með lyftu úr aðalandyri hússins niður í kjallara. Rýmið sjálft er allt neðanjarðar og engir gluggar í rýminu. Þegar gengið er út úr hinni litlu lyftu, sem tekur aðeins 3-4 manns með góðu móti, er gengið beint inn bakatil í litla þrönga móttöku sýningarinnar. Við fyrstu fær maður á tilfinninguna að hafa villst og farið inn um starfsmannainngang. Andyri sýningarinnar er lítið en því næst tekur við aðalrými sýningarinnar sem er talsvert stórt en þó varla nægilegt fyrir hið mikla magn hluta og muna sem til sýnis eru. Guja Dögg hefur bætt fjölda íslenskra hluta við grunnsýninguna og er hér hugsanlega um alltof mikið efni að ræða.

Sýningin minnir að sumu leyti á sýningu á sögulegu safni sem varðveitir forngripi þar sem mikið magn af sögulegu efni og minjum er komið fyrir, meðal annars í glerkössum, oft á takmörkuðu rými. Á köflum er sýningin frumleg eins og til dæmis þar sem eins konar beyglaður leikvöllur hefur verið hengdur upp á vegg og hopp í parís teiknað á gólfið; aðeins hér geta börnin aðeins hoppað og leikið sér. Sýningin er sögð höfða til allra aldurhópa en börnin eru tæplega velkomin á sýninguna því hér má ekki snerta eða leika sér þrátt fyrir aragrúa leikfanga. Leiksvæði hefur verið komið fyrir á svæði fyrir utan safnið og á bókasafni hússins og er börnum bent á vinsamlegast að leika sér þar.

Sýningin leiðir okkur áfram á þar til gerðum gönguleiðum svo ekki er mögulegt að ráfa frjáls um rýmið heldur er nauðsynlegt að fylgja stígnum eins og í ævintýrinu hennar Rauðhettu; ekki er í boði að villast út af honum. Rýmið virðist endurtaka sjálft sig og teygja sig áfram á kræklóttan hátt í anda skógastígsins.

Í New York útgáfu sýningarinnar, Century of the Child, fékk hver hönnun mun meira andrými en hér í Norræna húsinu. Það skiptir sköpum að verkin fái rými og geti notið sín. Hér er alltof mikið af hlutum, þótt spennandi og áhugaverðir séu, í of litlu rými og verður því yfirþyrmandi og nánast í anda flóamarkaðar; yfirþyrmandi magn í neðanjarðarbyrgi. Færri hlutir hefðu notið sín betur eða staðsetning í stærra og helst bjartara rými. Litalega séð er rýmið að mestu óspennandi og einsleitt, dökkgráir veggir og parketgólf eða steingólf. Sums staðar bregður þó fyrir smá lit, undir einstaka hlut sem hressir aðeins upp á litfóbíska sýningarumgjörðina.

Stóll nr. 65 eftir Alvar Aalto

Verk eftir arkitekt hússins, hinn finnska Alvar Aalto, er einnig að finna á sýningunni. Stóllinn sem nefnist Stóll nr. 65 er meðal þeirra stóla sem sjá má á sýningunni. Hann er frá 1938-1939 og tilheyrir vörulínu sem Aalto hannaði úr formbeygðum krossvið. Stóllinn var notaður í finnska skólanum Inkeroinen.

Meðal sænskra muna á sýningunni er spil sem ýmsir kannast eflaust við. Um er að ræða spil sem nefnist Völundarhúsið eða Labyrinth. Hönnuðir þess eru Sven Berling og Tage Friberg. Hönnun þessi er frá 1946 og efniviður spilsins er tré og málmur.

Dönsk hönnun er að sjálfsögðu á sýningunni og má sjá annað áhugavert dæmi af skólahúgögnum eftir Arne Jakobsen. Hér er um borð og stól að ræða frá árinu 1955 og er efnisviður þess tré, lamínerað linoleum, stál og gúmmi.

Norðmenn eiga sérstaklega áhugaverðan hlut á sýningunni. Hjól fyrir fötluð börn sem nefnist Proud to be different eða Stoltur af því að vera öðruvísi. Hér er falleg hugsun að baki og margir komu að því að gera lífsskilyrði fatlaðra barna skemmtilegri með fallegu og nytsamlegu farartæki. Í stað þess að skammast sín fyrir þau tæki sem áður buðust gátu nú börnin hjólað um á glæsilegu hjóli sem þjónaði öllum þörfum þess.

Á sýningunni er sannarlega margt fróðlegt og forvitnilegt að sjá. Opið er daglega frá kl. 11 til 17 til og með 27. febrúar.

Um höfundinn
Hulda Hlín Magnúsdóttir

Hulda Hlín Magnúsdóttir

Hulda Hlín er listmálari og listfræðingur. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði frá Háskólanum í Bologna árið 2006 en hafði áður lokið námi í málaralist í Listaakademíu Rómar. Hulda Hlín hefur haldið einkasýningar, annast sýningarstjórn og tekið þátt í samsýningum auk þess að fást við ritstörf á sviði myndlistar. Meginrannsóknarsvið Huldu Hlínar er merkingarfræði hins sjónræna með áherslu á liti. Sjá nánar

[fblike]

Deila