Það voru blendnar tilfinningar sem bærðust í brjósti margra áhorfenda þegar horft var á dansverkið Grrrrrls eftir Ásrúnu Magnúsdóttur og dansara sýningarinnar í Tjarnarbíói 19. janúar 2017. Þar toguðust á sorg og gleði, stolt og óhugur. Sýningin sem fjallar um það að vera unglingsstúlka var þetta kvöld tileinkuð Birnu Brjánsdóttur, ungu stúlkunni sem leitað hafði verið að síðan laugardaginn á undan.Birna sást síðast á öryggismyndavélum niðri í bæ og síðan var eins og hún hefði gufað upp. Núna, nokkrum dögum seinna þegar þessi texti er skrifaður, er búið að finna lík Birnu og búið að ráða að nokkru í hver urðu örlög hennar. Vitað er að dauða hennar bar að með saknæmum hætti og að karlmenn eru viðriðnir málið.
Stelpurnar sem dansa geisla af orku, gleði, töffaraskap, hlýju, einlægni, glettni og óþreyju eftir því að takast á við lífið.Grrrrrls er kraftmikil sýning. Stelpurnar sem dansa geisla af orku, gleði, töffaraskap, hlýju, einlægni, glettni og óþreyju eftir því að takast á við lífið. Í verkinu sýna þær okkur inn í heim sem eingöngu þær þekkja því þær eru unglingsstúlkur dagsins í dag. Við konurnar sem sátum í salnum könnuðumst við margt af því sem fram fór og minntumst okkar eigin unglingsára. Allir áhorfendur fundu og nutu lífskraftsins sem streymdi frá sviðinu. Það var því óbærilega sárt til þess að hugsa að veröldin skuli ekki aðeins bjóða þessum ungu stúlkum upp á glæsta framtíð heldur lúra þar einnig örlög jafn hræðileg og Birnu ef þær lenda í klóm sjúklega þenkjandi manna.
Stelpurnar vildu greinilega sýna fram á mátt sinn og megin í dansinum og njóta þess að hafa rödd í samfélaginu.Verkið var byggt upp sem nokkrir mismunandi dansar tileinkaðir mismunandi hópum. Stelpurnar heiðruðu konur sem gáfu þeim styrk og kraft til að horfa hnarreistar fram á veginn eins og mæður þeirra og annarra og sterkar fyrirmyndir eins og Michelle Obama, Vigdísi Finnbogadóttir, Beyonce og Ágústu íslenskukennara í Hagaskóla. Þær sendu aftur á móti karlþjóðinni tóninn í dansi sem þær tileinkuðu fyrrum elskhugum. Tónlist var í öllum tilvikum valin til að passa þema hvers dans og þá skiptu textarnir máli. Stelpurnar vildu greinilega sýna fram á mátt sinn og megin í dansinum og njóta þess að hafa rödd í samfélaginu.
Kóreografían í verkinu var fallega einföld og flæðandi. Hreyfingarnar voru greinilega sóttar til stelpnanna í gegnum spuna því þær voru þeim algjörlega eðlilegar. Þarna var bara hópur stelpna á ferð að tjá sig með líkamanum, ekki ólíkt því þegar hópur kvenna fer saman á skemmtistað til að dansa. Framsetning hreyfinganna var afslöppuð og eðlileg. Hópurinn var alltaf allur í einu á sviðinu og sagði sitt í gengum pósur og dans. Þær töluðu líka til áhorfenda þegar þær kynntu hvern dans fyrir sig auk þess að syngja hástöfum með textunum í hverju lagi. Umgjörð verksins var lítil sem engin og lýsingin féll inn í það sem var að gerast á sviðinu. Dansararnir voru þannig algjörlega í aðalhlutverki. Með því að hafa sviðsmyndina og lýsinguna svona óafgerandi og búningana í raun svipaða þeim fötum og ungar stelpur ganga í, strigaskór og eitthvað þægilegt, skapaðist hversdagslegt og einlægt andrúmsloft sem virkaði mjög vel.
Verkið er sjálfsmynd stelpnanna færð í dans. Árangurinn er áhugaverður og skemmtilegurÁsrún hefur nú í nokkur ár unnið með þá hugmynd að skapa „þjóðdans“ með og fyrir mismunandi hópa. Hugmyndin er að hver hópur eigi ýmisleg sameiginleg einkenni og þau einkenni birtast meðal annars í hreyfingum og framkomu. Þegar „þjóðdansinn“ er saminn eru hreyfingarnar fengnar frá fólkinu sjálfu en hennar hlutverk er að setja þær í nýtt samhengi, það er umbreyta í dans sem endurspeglar sjálfsmynd hvers hóps. Dansverkið Grrrrrls byggir á samskonar hugmynd. Verkið er sjálfsmynd stelpnanna færð í dans. Árangurinn er áhugaverður og skemmtilegur og kallar fram þá hugmynd að gaman væri að sjá Ásrúnu semja verkið Boyyyyys.
Dansverkið Grrrrrls var fyrst sýnt á Reykjavík Dans Festival haustið 2015 og var síðan sett upp aftur á RDF síðastliðið haust en hátíðin bar þá yfirtitilinn Únglingurinn RDF. Sýningin sem undirrituð sá var síðan aukasýning núna í ársbyrjun 2017 og enn er ein sýning eftir annað kvöld sem fólk ætti ekki að láta fram hjá sér fara. Það er ótrúlega skemmtilegt þegar sýningar eiga svona framhaldslíf.
Ljósmyndir: Steve Lorez
[line]
Danshöfundur: Ásrún Magnúsdóttir
Dramatúrgísk ráðgjöf: Alexander Roberts
Framleiðandi: Reykjavík Dance Festival.
Flytjendur og meðhöfundar : Alexandra Sól Anderson, Ásta Indía Valdimarsdóttir, Dagný Björk Harðadóttir, Erla Sverrisdóttir, Gunnhildur Snorradóttir, Hrafnhildur Sigurðardóttir, Hrefna Hreinsdóttir, Katla Sigurðardóttir, Lísbet Sveinsdóttir, Marta Ákadóttir, Nadja Oliversdóttir, Ólína Ákadóttir, Jóhanna Friðrika Weisshappel, Rakel Pavasri Kjerúlf, Salóme Júlíusdóttir, Tindra Gná Birgisdóttir, Una Barkardóttir, Unnur Hlíf Rúnarsdóttir, Valgerður Birna Jónsdóttir.
[fblike]
Deila