Nova Ren SumaHin bandaríska Nova Ren Suma er höfundur bókarinnar The Walls Around Us sem nú er komin út í íslenskri þýðingu Höllu Sverrisdóttur undir titlinum Innan múranna. Bókin hefur notið mikilla vinsælda, verið tilnefnd til fjölda verðlauna og hefur verið hampað heilmikið á spjallþráðum vefsvæða sem fjalla um unglingabækur. Nova Ren Suma hefur áður fengið útgefnar unglingabækurnar Imaginary Girls (2011) og 17 and gone (2013). Auk þess hefur hún skrifað bókina Dani Noir (2009) fyrir stálpaða krakka og á sögu í smásagnasafninu Slasher Girls and Monster Boys (2015).
Innan múranna (The Walls Around Us)
Þýðandi: Halla Sverrisdóttir
Björt bókaútgáfa, 2016
Innan múranna er draugaleg saga um nokkrar unglingsstúlkur. Á upprunalegri grárri kápu bókarinnar gefur að líta skelfilega rauða vafningsjurt á gráum bakgrunni, en þessi lífshættulega jurt hefur heilmikið að segja um gang mála í sögunni. Íslenska kápan finnst mér þó mun betur lukkuð. Hún er dumbrauð að lit og þvert yfir hana er strengdur gaddavír. Á girðingunni dansa ballerínur, við það að hrasa og falla niður. Kápan er táknræn fyrir þá innilokun og einmanaleika sem bókin fjallar um sem og hversu erfitt sögupersónur eiga með að halda jafnvægi – í margvíslegum skilningi – og meira að segja halda lífi.
Tvær misáreiðanlegar raddir flytja okkur söguna, önnur lifandi en hin dáin. Sú fyrri virðist vera rödd skynseminnar, hin rödd brjálseminnar. Utan veggjanna er það 18 ára gömul ballettdansmey að nafni Vee sem segir frá. Innan múranna, inni í fangelsi fyrir afbrotastúlkur, fær fanginn Amber að segja lesendum sögu sína. Á yfirborðinu eiga stúlkunar tvær ekkert sameiginlegt. Önnur er frjáls forréttindastúlka sem hefur alltaf fengið allt sem hún hefur óskað sér, veltir sér upp úr ást foreldra sinna og athygli og skortir alls ekki veraldleg gæði. Hin er lágstéttarstúlka sem hefur aldrei notið ástúðar foreldra sinna, ávallt verið fyrir og hefur verið innilokuð í nokkur ár – og sér fram á mörg í viðbót – fyrir að hafa myrt stjúpföður sinn. Það sem tengir stúlkurnar tvær saman er Orianna, telpa sem bæði Vee og Amber dáðust að og þótti vænt, telpa sem önnur sveik en hin reyndi að bjarga.
Hvað er raunverulegt og hvað ekki? Hvað er lygi og hvað er sannleikur?Lesandinn áttar sig snemma á því að Orianna er dáin en það tekur tíma að setja sig inn í söguna, átta sig á aðstæðum, mismunandi sögusviðum og sögumönnum. Hvað er raunverulegt og hvað ekki? Hvað er lygi og hvað er sannleikur? Vee hefur allt til alls en þegar hún rifjar upp vináttu sína og Oriönnu sést fljótlega að Orianna, fátæka og móðurlaus lágstéttarstúlkan, hefur búið yfir því sem Vee sárlega skortir: Hæfileikann til að verða sönn ballerína. Vee er nær máttlaus af öfund en um leið elskar hún þessa einu sönnu vinkonu sína sem er ekki aðeins hæfileikarík heldur heillandi, skemmtileg, fórnfús og ákaflega góð og traust vinkona. Orianna er þannig samtímis uppspretta hamingju og óhamingju Vee og þegar Vee fær tækifæri til að klekkja á Oriönnu gerir hún það. Afleiðingarnar eru þær að Orianna verður klefafélagi Amber í unglingafangelsinu Aurora Hills.
Amber hefur verið í Aurora hills í nokkur ár. Hún er öllum hnútum kunnug, reynir að láta lítið fyrir sér fara og sinnir starfi sínu sem bókavörður af metnaði og áhuga. Stúlkurnar í fangelsinu frétta að Orianna er á leiðinni til þeirra, enda hefur mál hennar fengið mikla fréttaumfjöllun, og Amber tekur það að sér að vera eins konar leiðbeinandi hennar. Orianna fær mikla athygli í fangelsinu og stúlkurnar eru mjög forvitnar um hana. Smám saman falla þær alla fyrir henni, og er Amber meðtalin og allar vilja þær vingast við hana. Oriönnu tekst á einhvern hátt að gera allt og alla betri og bjartari – lífið er einfaldlega bærilegri með hana sér við hlið og stúlkurnar eiga erfitt með að trúa því að hún sé sek um glæpinn sem hún er dæmd fyrir.
Sagan nær hámarki í tilraun Amber til að ná fram einhvers konar réttlæti. Nútíð og fortíð blandast saman, bilið á milli atburða og persóna verður ógreinilegt, raunveruleiki og ímyndun verða sömuleiðis eitt og hið sama og um tíma veit lesandinn varla hver stendur uppi sem sigurvegari – eða hver á það skilið. Niðurstaðan, án þess að gefa of mikið upp, er þó sú að sök bítur þá sem sek er, að lokum. Það gerist þó ekki án þess að aðrir þurfi að fórna sér.
Innan múranna tekur á alvarlegum málefnum sem snerta marga unglinga í dag, málefnum á borð við einelti, kúgun, jafningjaþrýsting og ofbeldi.Innan múranna tekur á alvarlegum málefnum sem snerta marga unglinga í dag, málefnum á borð við einelti, kúgun, jafningjaþrýsting og ofbeldi. Innan múranna er saga um valdabaráttu og hvað gerist þegar jafnvægið raskast – jafnvægið á milli hinna ríku og fátæku, hinna hugrökku og þeirra huglausu sem og þeirra sem virða sannleikann og þá sem kjósa að ljúga. Þetta er skáldsaga sem efnislega reynir á lesandann sem og hvað varðar ljóðrænan frásagnarstílinn, sem Halla Sverrisdóttur kemur afskaplega vel á framfæri í þýðingu sinni. Allt þetta, í bland við sögumennina tvo og tímaflakkið, gerir það að verkum að lesandinn á erfitt með að átta sig á því hvert sagan er að fara, hverjum eigi að treysta og hver sé hið raunverulega fórnarlamb. Innan múranna er feikilega vel skrifuð og spennandi saga. Þetta er unglingabók eins og þær gerast bestar og sannarlega ein af betri skáldsögum sem ég hef lesið þetta árið.
[fblike]
Deila